KVENNABLAÐIÐ

„Ég er kona“

Þessi grein er aðsend – ritstjórn minnir á netfangið sykur@sykur.is – lesendum er velkomið að senda inn greinar til birtingar og gætum við fyllsta trúnaðar, sé nafnleyndar óskað:


 

Ég er líka móðir,dóttir,systir og já bráðum amma meira að segja. En ég er fyrst og fremst kona.

Einhleyp, sjálfstæð og sakna einskis. Sit ekki heima og velti mér upp úr einhverjum einmanaleika eða sjálfsvorkunn. Til hvers?

Í dag höfum við allt til alls. Erum með heiminn inní stofu hjá okkur allan sólarhringinn. Erum tengd við heiminn 24/7, 365 daga á ári ef við kærum okkur um. Það er ekki hægt að láta sér leiðast því úrvalið af afþreyingu er svo mikið. Allt innan handar og hægt að stökkva út í búð hvenær sem er því hún er alltaf opin.

Það er sjónvarp á fimmtudögum og það þarf ekki að gera stór innkaup á föstudögum fyrir helgina eins og hérna áður fyrr. Það er hægt að hala niður af netinu öllu milli himins og jarðar til að hafa ofan af fyrir sér ef maður er heimakær eins og ég.

Það er hægt að fara út á hverju kvöldi og gera allskonar hluti, bíó, keilu,kaffihús eða gefa öndunum brauð…bara smá dæmi.

Samt er fólk einmana og situr og lætur sér leiðast. Ég veit alveg að einmanaleikinn getur gripið alla um stund. En að láta sér leiðast er svo mikill óþarfi.

Ef þú ert einmana og lætur þér leiðast þegar þú ert ein(n) með sjálfri/sjálfum þér þá ertu í lélegum félagsskap. Settu stórt JÁ í hugsanir þínar og allt hugarfar breytist. Það nennir hvort eð er enginn að vera með NEI manneskjunni.

Hef spáð mikið í því hversu sumar konur eru háðar því að vera uppá aðra komnar. Geta ekki verið einhleypar og stökkva úr einu sambandi beint í annað. Ég er þeirrar skoðunar að gerir þú þetta þá liggja alltaf óuppgerð mál milli sambanda. Mál sem er mikilvægt að gera upp áður en byrjað er á einhverju nýju. Þessar konur eru oft búnar með nokkur hjónabönd og hrúgu af samböndum en eru aldrei ánægðar.

Af hverju ekki bara vera ánægðar með sitt eigið sjálf og prófa að vera einar? Þessar konur skilja ekki hvernig maður getur verið einhleypur.

Ég er fyrst og fremst kona því ég fæddist slík og er því næst móðir. Ég hef aldrei heldur skilið hvers vegna sumar konur láta sig alveg hverfa gangi þær í hjónaband eða eru í föstu sambandi. Þær verða eins og skugginn af makanum, hætta að hugsa almennilega um sig og hlaupa í spik margar hverjar.

Sorry, ætla ekki að móðga neinn en svona er þetta bara mjög oft. Þetta á alveg eins við um karlmenn. Þeir negla gelluna, giftast henni og fara að hrúga niður börnum. Hætta að vera gæjinn sem þeir voru og safna ístru og kaupa Lazy Boy.

Ég bara get ekki hugsað mér sjálfsvorkunn, einmannaleika eða leiða. Það tók mig tíma að komast þangað sem ég er í dag. Ég var rosaleg nei týpa og hamaðist við að vorkenna sjálfri mér. Hugsandi til baka þá skil ég ekki hvernig ég nennti að eyða mínum tíma í það.

Jákvæða hliðin á mér smá saman óx og dafnaði og blómstrar núna. Hún hefur tekið yfir og er ekkert að fara. Ég reyndar leyfi henni ekki að fara enda myndi ég sakna hennar rosalega.

Mér finnst of gott að vera einhleyp og tími ekki að gefa það upp á bátinn. Allavega ekki ennþá. Hver veit, kannski kemur einhver sjarmör og nær mér. Við vitum ekki hvernig líf okkar verður fyrr en því er lokið.

Eitt veit ég þó allavega að ég mun aldrei verða skugginn af kærastanum mínum né láta mig gossa niður í eitthvað joggingalla-flag og sjái ég að hann stefni í þá átt verður tekið í hnakkadrambið á honum og út að hlaupa.

Verum sæt saman en ekki bara á meðan veiðarnar standa yfir.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!