KVENNABLAÐIÐ

Framhjáhald ekki rétta leiðin til að fara út úr sambandi

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Söngkonuna Helgu Möller þarf vart að kynna. Hún er ein ástsælasta söngkona landsins og jólalögin, diskólögin og Gleðibankinn, fyrsta lagið sem keppti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir hönd Íslands, munu án efa lifa með þjóðinni um ókomna tíð. Helga er hér í einlægu viðtali og segir meðal annars frá svikum sem hún varð fyrir af hendi manns sem hún var í sambandi með. Sjálf segist hún hafa lært harkalega af því að hafa farið út úr sambandi með því að halda fram hjá maka sínum fyrir tuttugu árum síðan og út og nýtur þess að lifa lífinu í frelsi og friði.

„Ekki alls fyrir löngu hætti ég með manni sem ég hafði verið með í þrjú ár en hann byrjaði með annarri konu, án þess að klára sambandið við mig.“ Þannig hófst pistill Helgu sem hún skrifaði á Fésbókarsíðu sína í ágúst síðastliðnum. „Ég var búin að sjá alls konar rauð flögg en henti þeim bara frá mér. Stundum er vont að hlusta á innsæið og maður heldur að það sé betra að hunsa það en svo kom að því að ég sóttist eftir því að fá hlutina á hreint,“ segir Helga þar sem hún situr andspænis blaðamanni á kaffihúsi.

„Ég upplifði að mér hefði verið hafnað og mér fannst ég ofboðslega vanmáttug. Höfnun er alltaf vond og ég skammaðist mín fyrir að hafa látið koma svona fram við mig. Ég margspurði mig hvers vegna ég hefði ekki tekið mark á rauðu flöggunum og verið búin að taka á þessu miklu fyrr í stað þess að láta þetta fara svona. En svo eitt kvöldið þegar ég var lögst á koddann mundi ég eftir konu sem hafði afgreitt mig í verslun einu sinni og vildi bera mér kveðju frá bróður sínum en hann hafði verið bekkjarbróðir minn í barnaskóla. Hann hafði verið lagður í einelti af strákunum í bekknum en sú eina sem stóð upp fyrir honum og varði hann var ég, þegar ég var sjö ára stelpa. Ég mundi vel eftir honum og sá mig alveg fyrir mér, sjö ára, með hendur á mjöðmum að segja strákunum að svona komi maður ekki fram við fólk. Þetta var svona a-ha! augnablik þar sem ég áttaði mig á því að ég yrði að standa með sjálfri mér, rétt eins og ég hefði staðið með mér og þessum bekkjarbróður mínum mörgum árum áður. Og þarna hófst í rauninni bataferlið mitt.“

This image has an empty alt attribute; its file name is Helga-Moller-1-683x1024.jpg

 

Skammaðist sín fyrir að hafa látið koma svona fram við sig

„Þú talar um skömm … Þú hafðir samt ekkert til að skammast þín fyrir,“ segir blaðamaður varfærnislega. „Nei, en ég skammaðist mín samt fyrir að hafa látið hann koma svona fram við mig. Mér fannst það erfitt. Ég hefði getað verið búin að stoppa þetta af, því ég var búin að sjá að þetta væri alls ekki í lagi, en ég lét þetta ganga áfram. En það þýðir ekkert að hugsa svona,“ segir Helga með áherslu. „Ég er búin að skila skömminni, enda var hún aldrei mín. Skömmin er hans. Það er samt mjög eðlilegt að finna fyrir skömm og finnast manni hafa verið hafnað en maður verður að taka ákvörðun um að halda áfram. Leyfðu þér að finna til, gráta og syrgja en svo verður þú að ákveða að nú sé þetta bara orðið gott og halda áfram. Ég meira að segja þakka fyrir þessa reynslu á hverjum degi því hún kenndi mér hvað ég vil ekki. Satt að segja vorkenni ég manninum að hafa gert þetta svona því þetta er ekki leiðin til að fara út úr sambandi. Ég man enn þá hvernig það var þegar ég hélt fram hjá þáverandi manninum mínum fyrir rúmlega tuttugu árum síðan og byrjaði að vera með öðrum manni. Ég hef aldrei getað sætt mig fyllilega við að hafa gert það en ég bað hann og fjölskylduna mína afsökunar. Ég tók þó ábyrgð á gjörðum mínum og iðraðist.“

Framhjáhald ekki rétta leiðin til að fara út úr sambandi

Í nóvember 2012 sagði Helga frá því í einlægu forsíðuviðtali í Vikunni hvernig hún hafði gerst sek um framhjáhald og hún segir sumt fólk hafa hneykslast á því að hún skyldi tala um það opinberlega. „En ég vil miðla af reynslu  minni. Kannski hún geti hjálpað öðrum og ég veit reyndar að það hjálpaði mörgum að lesa og heyra um mína reynslu því það hringdi í mig fólk og þakkaði mér fyrir að hafa opnað augu sín fyrir því hvar það var statt. Ég veit að ég er ekki sú eina sem hef staðið í þessum sporum, bæði að vera þolandi og líka að vera gerandi. Ég yfirgaf manninn minn á sínum tíma fyrir annan mann en ég alla vega skammaðist mín fyrir hvernig ég gerði það og reyndi að bæta fyrir það. Þegar ég fór í forsíðuviðtalið fyrir níu árum síðan og sagði frá þessu öllu saman vildi ég miðla reynslu minni og segja fólki að þetta væri ekki rétta leiðin til að fara út úr sambandi. Þegar maður er á bleika skýinu, í byrjun sambands, hugsar maður ekki rökrétt. Það er bara það sem gerist. En þegar maður kemur niður af þessu blessaða bleika skýi þarf maður að gera upp við sig hvort maður vilji vera þessi manneskja. Ég fann að ég vildi það ekki og þessi reynsla mín kenndi mér að ég vildi ekki vera svona manneskja og það eru gildin mín í dag. Það er auðvitað ekki auðvelt að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að maður hafi gert rangt en það er líka gott að spyrja sig hvort maður myndi vilja láta koma svona fram við sig. Nú hef ég setið báðum megin við borðið og ég segi það satt að ég vildi hvorugu megin vera.“

 

….

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni inn á síðu Birtíngs www.birtingur.is

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is