KVENNABLAÐIÐ

BÆTIEFNABOMBA: Unaðslegur orku-boost sem smellpassar fyrir ræktina

Svo nú á að taka á ræktinni? Veganúar blómstrar, hátíðir að baki og einhverjir búnir að festa kaup einkaþjálfun í mánuð. Það er eitthvað svo yndislegt að hefja nýtt ár með heilsuátak í huga. En þó einhverjir segi að frábært sé að æfa á tóman maga, eru aðrir einfaldlega þannig úr garði gerðir að tilhugsunin ein er skelfileg.

Suma fæðu er kjörið að innbyrða rétt áður en farið er á æfingu, rétt eins og til að fylla á orkutank líkamans. Bestu fyrir-æfingu-drykkirnir eru enda stútfullir af próteini, góðum kolvetnum og heilnæmum fitusýrum. Innihaldsefni á borð við þessi hjálpa líkamanum að viðhalda orku og seðja sárasta hungrið um leið.

Uppskriftin hér að neðan nægir fyrir einn, en hægur leikur er að smella í þeyting fyrir tvo með því að tvöfalda einfaldlega uppskriftina. Sjálf afhýði ég og kjarnhreinsa epli, sem eiga að fara í blandarann – ríf svo niður með rifjárni og set í blandarakönnuna, en aðrir láta sér að góðu verða að kjarnhreinsa og afhýða og skera í litla búta.

Auðvitað má svo skera niður epli í litla búta og frysta; alla ávexti og reyndar grænmeti líka má frysta og hér kemur fróðleiksmoli dagsins – fryst spínat (og grænkál) inniheldur meira magn af járni og magnesíum en fersk lauf. Erfitt er að segja til um af hverju, en ekki ljúga sérfræðingarnir. Ef þú ertU að glíma við lágt járnmagn og þolir illa að taka járn í töfluformi, skaltu því fyrir alla muni kaupa og skola fersk spínatblöð; stinga í frysti og þeyta í einn grænan í upphafi hvers dags. Það skotvirkar!

Í þetta yndi, sem er tilvalið í drykkjarbrúsann fyrir æfingu fer hins vegar epli, banani, hráir hafrar, kókosolía og að sjálfsögðu spínat (eða grænt kál að eigin vali) og við á ritstjórn leggjum eindregið til að frysta grænu laufin, því þannig bindur þú bætiefnin og eykur enn á næringarinnihaldið!

U P P S K R I F T:

1 bolli af spínati (eða grænu káli að eigin vali)

1 bolli ósæt möndlumjólk

½ banani (afhýddur að sjálfsögðu og má vera frosinn)

3 vænar matskeiðar (glútenlaust) haframjöl

1 matskeið (lífræn) kókosolía

½ tsk fínmalaður kanell

*Byrjið alltaf á því að: þeyta spínat og vökva saman og blandið vel þar til drykkurinn er orðinn þéttur og áferðarfallegur. Bætið svo ávöxtunum út í blandarann, tilvalið er að setja frosna og smátt skorna ávexti út í blandarann til að kæla drykkinn og auka á svalatilfinninguna.

Smellið á drykkjarbrúsa og njótið áður en tekist er á við alvöru lífsins í ræktinni!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!