KVENNABLAÐIÐ

Áramótaheit: Skilur þú eftir smugu?

Í mörg ár núna, hef ég sleppt því að setja mér áramótaheit. Ég var búin að valda sjálfri mér vonbrigðum hvað eftir annað með því að gleyma öllum heitum fyrir 10. janúar ár hvert og allt féll í sama gamla farið. Það var þá orðinn skárri kostur að hafa áramótaheitið „að setja mér ekki áramótaheit”.

En þegar maður hættir að reyna, verða vonbrigðin enn verri. Til að þroskast, læra á sjálfan sig og ná lengra í lífi sínu í dag enn í gær, verður maður að setja sér markmið. Skora á sjálfan sig. Sjá fyrir sér útkomuna án þess að flækja fæturna í hugsuninni að leiðinni þangað. Og stíga fyrsta skrefið.

Það að ætla sér mikið og margt er ekkert slæmt. Það munu ekki allir ná öllum sínum markmiðum og það er allt í fína lagi að sum áramótaheitin séu þau sömu og í fyrra og kannski hittiðfyrra líka. Stundum eru sum markmiðin svo há að það tekur lengri tíma að ná þeim enn öðrum.

Ekki berja sjálfa/n þig fyrir að hafa ekki náð alla leið á síðasta ári. Settu frekar sterkari sannfæringu í heit þín þetta árið og þrammaðu af stað.

Nú er komið árið 2016 og ég er alveg að verða fullorðin, þannig að ég hef tekið þá ákvörðun að dusta hnausþykkt ryklagið af nokkrum gömlum ásetningum, eins og búddistar kalla markmiðasetningu sína og heit.

Ég ætla hins vegar ekki í þetta skiptið að romsa upp einhver tilviljanakennd sjálfsloforð sem eru í tísku. Ég ætla að setjast niður með blað og penna, hugsa og hugleiða og finna það raunverulega út hvað það er sem mig langar til að áorka í lífinu þetta árið.

Ásetningur er örlítið öðruvísi enn venjulegt áramótaheit. Það er í rauninni mjög djúpstætt loforð og staðföst ákvörðun og með þessu er maður búinn að setja ferlið í gang sem leiðir síðan til þess að takmarkinu verður náð.

Hvað ég mun finna út veit ég ekki enn og enn síður veit ég hvort ég muni gera alla ásetninga mína opinbera fyrir fjölskyldu og vinum. Þrátt fyrir að ég telji það öllum hollt að segja þá upphátt. Bæði til að heyra ákvörðun sína með eigin eyrum og einnig til að gefa ekki sjálfum sér þann lúxuskost að svindla á sér bara vegna þess að enginn veit.

Ég held að þar hafi hundurinn legið grafinn hjá sjálfri mér hér á árum áður. Það er svo auðvelt að svindla á sjálfum sér þegar enginn annar veit áramótaheitin sem maður setti sér. Og þegar maður skilur eftir smugu, eins og til að mynda, að setja sér heit um að hætta að reykja en segja engum frá því þar sem þú gætir mögulega sprungið á limminu, er einfaldlega ekki heit eða ásetningur.

En þar sem þessi pistill er í sjálfu sér djúpar og einlægar hugleiðingar mínar, tek ég ákvarðanir með hverju pikki.

Og hér hafið þið fyrsta áramótaheitið mitt:

Þegar ég hef samið ásetninga mína, ætla ég að gera þá opinbera fyrir vinum og fjölskyldu. Þannig hef ég saumað fyrir smuguna sem ég skildi alltaf eftir opna hér áður fyrr.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!