KVENNABLAÐIÐ

Kolla Kvaran: „Eltu drauma þína“

Alveg síðan ég man eftir mér hef ég vitað hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Söngkona. Ok, ég er orðin stór en ég man enn eftir mér 6 ára gamalli í forláta ruggustól sem pabbi geymdi fyrir leikhúsið, klukkan hálf sex að morgni, syngjandi hástöfum og hugsuninni sem fylgdi. Tilfinningunni, þeirri ótrúlegu þrá að elta drauma mína. Ég man eftir magapínunni sem fylgir þessari djúpu þrá. Og sorg…

Ég söng í kórum næstu 20 árin. Alls konar kórum; barnakór, kvennakór, blönduðum kór og kirkjukórum. Reyndar var mér nú hafnað þegar ég ætlaði í kór Menntaskólans í Hamrahlíð, var sagt að ég væri með of mikla einsöngvararödd til að eiga heima í kór. Það var soldið sárt. En rétt.

En aldrei nokkurn tíma fékk fjölskylda mín eða vinir að heyra mig syngja. Ég var of feimin.

Ég tók ákvörðun þegar ég var orðin 26 ára, og var búin að eyða öllum þessum árum í að vera svokallað „stofublóm“ að bíta á jaxlinn og fara í inntökupróf hjá Söngskólanum í Reykjavík.

Það var hryllingur fyrir feimna manneskju eins og mig. Að standa uppi á sviði fyrir framan alla bestu óperusöngvara landsins og horfa á þá pískra sín á milli á meðan ég söng, og hripa eitthvað niður á spjöld.

Enda fékk ég aðsvif þarna á sviðinu og hefði fallið í gólfið í yfirliði ef Garðar nokkur Cortes, skólastjóri Söngskólans, hefði ekki stokkið upp úr stólnum og gripið mig. Yndislegur alveg hreint. Tók sér tíma í að nudda blóði í hendurnar á mér sem voru tilfinningalausar og bláar og fullvissaði mig um að þetta kæmi fyrir alla. Hefur verið hetjan mín síðan.

Ég var svo viss um það að ég hefði ekki náð inntökuprófinu, en mér gat ekki verið meira sama! Ég hafði sigrað sjálfa mig þennan dag. Ég hugsaði ekki einu sinni um skólann næstu vikurnar, þar til ég fékk bréf um að ég hefði komist inn. Það var enginn jafnhissa og ég.

Ég varð að hætta í skólanum rétt áður en ég átti að taka 3. stigs prófið vegna veikinda dóttur minnar. En þarna í Söngskólanum lærði ég ýmislegt sem ég hef nýtt mér í gegnum tíðina. Ég syng ekki lengur óperu þó ég sakni hennar töluvert. Nei, ég er komin út í eitthvað allt annað. Syng reyndar allar aðrar tegundir af tónlist en óperu. Rokk og blús eru mitt „thingy“ núna. Janis Joplin fílíngurinn..

Það sem ég lærði í Söngskólanum var til dæmis það að þegar maður stígur fram fyrir fólk, til að syngja eða tala, klæðir maður sig í hlutverk á leiðinni. Ég klæði mig í dívuna sem getur allt. Og nefið upp í loft. Ég er best.

Ég lærði það að mikil velgengni á opinberum vettvangi, á sviði, í ræðustól, í viðtölum eða hvar sem þarf að koma fram fyrir fólk, felur ekki í sér nema lítið brot af hæfileikum en restin er egóismi. Sjarmi. Sjálfsöryggi. Hlutverk. Eingöngu til að komast frá þessu lifandi.

En þetta er bara hlutverk svo ég geti framkvæmt það sem ég er að fara að gera. Til þess að troða feimninni ofan í kistu, svo það líði ekki yfir mig.

Og ég get gert þetta listavel og engan grunar neitt. Ég hef meira að segja heyrt það sjálf. Þegar það var tekið viðtal við mig í útvarpi og í sjónvarpi og ég hlustaði síðan á upptöku af því. Þetta var ekki ég! Sjálfsöryggið draup af mér og jafnvel röddin var öðruvísi en ég hafði heyrt á öðrum upptökum. Dívan talaði. Ég mundi ekki einu sinni eftir að hafa verið svona skýr og klár í svörum. Annað sjálf.

Síðan ég var í Söngskólanum hef ég tekið mér ýmislegt fyrir hendur. Fór í listhönnun, kláraði síðan stúdentinn, fór í háskóla og er núna með vinnustofu og stunda skriftir.

Inn á milli hef ég farið á hin og þessi námskeið í söng hjá hinum raunverulegu dívum landsins. Því það er sama hvað ég tek mér fyrir hendur í lífinu, þá er hin upprunalega þrá til að syngja, alltaf til staðar og henni verð ég að sinna.

Feimnin er enn til staðar og varnar mér í því að koma mér áfram. Ég er ekki sá hákarl, sem maður þarf að vera til þess. Þó ég hafi haldið nokkra tónleika með blúsbandinu mínu og manninum mínum og fengið að heyra að ég hafi verið „best geymda leyndarmálið á Suðurnesjum“ þá vantar eitthvað í mig til að ná þessu. Það er einhver efi til staðar.

Mér var einu sinni sagt í einu efakastinu mínu, að ef þú sofnar með þrá til að syngja og vaknar með þrá til að syngja, þá ertu söngkona.

Þetta á við um alla hluti og það á ekki að heimska fólk fyrir það, hvað það vill gera…það er allra hagur að elta drauma sína. Hvort sem draumarnir skapa manni vinnu eða ekki.

Það er undirstaða hamingju að gera það sem maður er fæddur til að gera. Og ég stórefast að nokkur maður sé fæddur til að skapa óhamingju hjá öðrum. Manneskja sem eltir drauma sína og finnur fyrir þeirri hugarró og hamingju sem því fylgir, brýtur ekki aðra niður. Hamingja skapar frið og fegurð.

Þess vegna ætla ég að halda áfram að syngja, skrifa, þýða, boða frið, hjálpa öðrum, mála og smíða, búa til drasl, smíða skartgripi, ala upp börn og læra meira og hlæja meira og brosa meira og…og…og…

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!