KVENNABLAÐIÐ

HÚSRÁÐ – 23 leiðir til að taka SÍTRÓNUR í DÝRLINGATÖLU!

Mér þykja sítrónur eitt af undrum veraldar og finnst að það ætti hreinlega að taka þær í dýrlingatölu! Það er hægt að nota þær á svo marga vegu að mér endist ekki einu sinni pistillinn til að telja það allt upp! Sjálf hef ég prófað eitt og annað af listanum og margt af hinu ætla ég mér að nýta. Það er ekki að undra að þær eru í svo mörgum matvælum sem við kaupum og ekki alltaf vegna bragðsins.

Sítrónur eru sótthreinsandi og bakteríudrepandi og það er alveg tilvalið að bleikja eitt og annað með þeim. Ég á alveg eftir að tékka á því hvort þær hreinsi gamlan lit úr hári eða lýsi það þannig að ég var ekkert að setja þann kost á listann. Ég á ábyggilega eftir að gera það einhvern góðan veðurdag ef ég þekki sjálfa mig rétt.

Sítrónur sem hreinsivopn!

  1. Eldhúsáhöld úr viði geta verið afskaplega hvimleið að þrífa. Skurðarbretti, salatskálar, sleifar og fleiri hlutir eru sem paradís fyrir ólykt, gerla og bakteríur. Þessu geta hinar ótrúlegu sítrónur komið til bjargar. Eftir þvott á þessum hlutum, prófaðu þá að nudda sárinu á skorinni sít rónu á yfirborðið og láttu standa í 20-30 mínútur. Skolaðu og láttu þorna. Voila! Ilmurinn ferskur og bakteríur horfnar!

2. Fituskellur á borðunum eða diskunum? Sítrónuhelmingur og gróft salt gera kraftaverk! Þurrkaðu síðan burt með eldhúspappír. Passaðu bara að yfirborð hlutanna þoli svona sýrt efni.

3. Plastílát eru frábær til að geyma matarafgangana og undir nestið en lykt á það til að sitja lengi og vera til ama. Það er hægt að losna við hana með því að setja blöndu af sítrónusafa og vatni 50/50 í ílátin og láta standa í nokkrar mínútur. Skola og þurrka.

4. Það dugar oft ekki til, að þrífa ísskápinn með sápu til að losna við óvelkomna lykt. Þá er um að gera að vera með sítrónubörk af 1-2 sítrónum  inn í honum að staðaldri, og segja mér fróðir að þetta virki betur enn matarsódi! Það sama geturðu gert við ruslafötuna, en þá seturðu börkinn í botninn, undir ruslapokann í fötunni.

5. Allir sem eitthvað hafa bardúsað í eldhúsi með ost, vita að það er oft á tíðum algjör hryllingur að þrífa osta rifjárnið en það er hægt að einfalda sér vinnuna töluvert með því að nudda sárinu á skorinni sítrónu á járnið og þvo síðan eins og venjulega.

6. Til að þrífa krómið og stálvaskinn þarftu ekki lengur að nota þennan leiðindarsvamp og kornakrem. Sítrónubörkur er stórfínn “fægilögur” og vinnur stórvirki á þessum málmum! Nuddaðu með berkinum á yfirborðið , hreinsaðu og þurrkaðu með þurrum klút eða eldhúspappír og krómið og stálið mun glansa sem nýkeypt.

7. Gott er að skera sítrónu í tvennt og nudda sárinu á hvíta fleti í eldhúsinu til að bleikja það. T.d.ná leiðinlega skugganum eftir soyjasósuna, af eldhúsborðinu eða tússblettina síðan ömmubörnin voru í heimsókn.

Sítrónur gera allt svo fagurt: 

8. Verksmiðjuframleiddir svitalyktareyðar eru fullir af óhugnanlegum efnum en ekki viljum við vera félagsstynkurinn svo hvað á maður að gera? Nú, auðvitað nota sítrónusafa! Klappaðu smá safa í handarkrikana og það virkar alveg jafnvel ef ekki betur enn það búðarkeypta, segja mér fróðari menn!

9. Eftir því sem við eldumst, þá fara neglurnar að gulna en þessu ferli geturðu snúið við með því að leggja fingurna í bleyti í bolla af vatni með safa af einni sítrónu í nokkrar mínútur og hreinsa síðan með vatni. Neglurnar verða ljósar að nýju og tilbúnar í franska snyrtingu.

10. Ég hef lent í því að henda flíkum sem ég hef ekki getað náð svitablettunum úr en nú get ég farið að spara mér þann pening með því einfaldlega að nudda svitablettina með blöndu úr jöfnu hlutfalli af vatni og sítrónu og láta flíkina þorna.

11. Rakur fatnaður á það til að mygla og ekki er það nú skemmtilegur gestur og næsta víst að klæðið sé ónýtt. En nei! Svo er nú ekki. Búðu til þykkni úr sítrónusafa og salti, berðu það á mygluna og láttu þorna. Lykt og mygla horfin!

12. Hreinsaðu skartið þitt með blöndu af sítrónusafa og vatni,  þú ættir samt að sleppa því að prófa þetta á dýru skartgripunum þínum út af sýrunni.

13. Þú getur sleppt svaðalega klórnum þegar þú ert að bleikja fatnað. Prófaðu að setja hálfan bolla af sítrónusafa í þvottavatnið í staðinn

Sítrónur í allan mat!

14. Mér er sagt að þú getir minnkað saltneyslu með því að nota sítrónusafa í staðinn,því bragðlaukarnir í okkur skynja salt og sítrónusafa á svipaðan hátt sem gerir þennan guðavökva ákaflega góðan staðgengil salts.

15. Þetta þykir mér gott trix því hrísgrjónin verða alltaf klístruð saman er ég elda. En til að gera grjónin fullkomlega fislétt og fluffy, settu þá 1 teskeið af sítrónusafa út í á meðan þau malla.

16. Sítrónusafi er verulega góður sem rotvarnarefni. Smá sletta af safa heldur guacamolinu þínu og heimatilbúna pestóinu grænu og kemur í veg fyrir að eplin, perurnar og blómkálið dökkni .

17. Settu dapra salatið í ísvatn og safa af hálfri sítrónu  og þú gætir verið búin að bjarga því frá moltutunnunni.

18. Við vitum aldrei hvað er notað í framleiðslu á ávöxtum og grænmeti nú til dags. Alls kyns skordýraeitur og tilbúnir áburðir eru langt því frá holl lifandi verum svo það er gott að kunna að þvo þetta á öruggan hátt. En hér er góð uppskrift af spreyi til að nota á nýkeyptu ávextina og grænmetið:

1 bolli af vatni

1 bolli af ediki

1 matskeið af matarsóda

Safi úr hálfri sítrónu

Setjið innihaldsefnin í spreybrúsa, spreyið, bíðið í fimm mínútur, hreinsið af með vatni og njótið!

Sítrónur bjarga viðhaldinu: 

19. Það sem okkur mannfólkinu þykir unaðsilmur, er viðbjóður í nefum katta. Settu sítrónusafa í spreybrúsa og spreyjaðu þar sem þú vilt losna við ferfætlingana eins og t.d. eldhúsborðið, eldhúsbekkina og jólatréð.

20. Rakatækin eru misgóð og stundum fer að koma skrítin lykt þrátt fyrir að vatnið gutli en þá geturðu sett 3-4 teskeiðar af sítrónusafa út í vatnið og það verður ekki einungis ferskur ilmur á ný,heldur er safinn líka sótthreinsandi

21. Ótrúlegt en satt! Sítrónusafi drepur illgresi! Rennbleyttu illgresið með safanum og þú losnar við þær án alls eiturs.

22. Eru málningarburstarnir grjótharðir? Ekki kaupa bara nýja án þess að prufa þetta. Settu sítrónusafa í pott og láttu suðuna koma upp, settu bursta í og láttu þá liggja þar í 15 mínútur. Þvoðu þá síðan með sápuvatni og skolaðu.

23. Skordýr og flugur eru síður en svo hrifnar af sítruslyktinni þannig að best er að setja safann í spreybrúsa og spreyja reglulega á dyrakarma og þröskulda, gluggasyllur og opnanlega glugga. Allsstaðar þar sem þessir óboðnu gestir komast inn.

Margir sverja meira að segja að þetta hjálpi til við að halda mýflugum í burtu svo ég tali nú ekki um ávaxtaflugurnar!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!