KVENNABLAÐIÐ

O F U R B O O S T: Guðdómlegur þynnkubani & Græn orkusprengja

Gasalega geta þær verið lekkerar þarna í útlandinu. Frú Sykurmoli tárfellir stundum þegar fyrir augu ber guðdómlega þynnkubaka, græna ofurdrykki og ómetanlegar vítamínsprengjur á veraldarvefnum. Ætla mætti að þær séu göldróttar – svo ægilega fínar eru uppskriftirnar sem heilsumæðurnar hinu megin við hafið töfra fram við hin og þessi tækifæri.

Frú Sykurmola þykir sjálfsagt að heiðra heilsumæðurnar hinu megin við hafið. Snaraði því í lauslega þýdda uppskrift og lætur ljósmynd fylgja með. Því ekkert er betra en að hefja mánudag á orkuskoti sem endist fram í miðja viku, smá flissi í eldhúsinu og að sjálfsögðu aflóga diskósmellum í bland við vel valin dansspor í laumi. Dansa ekki annars allar húsmæður við blandarann þegar enginn sér til?

Undursamlegur er hann ásýndar <3

Green Smoothie Recipe

Hráefni:

1 dl möndlumjólk, soja- eða kókosmjólk

1 ½ dl frosinn ananas, hakkaður eða niðursneiddur

1 ½ dl frosinn mangó, hakkaður eða niðursneiddur

1 væn handfylli af ferskum og stilkhreinsuðum spínatblöðum

Hægt er að bæta einni lítilli dós af hreinni jógúrt í blönduna sem gæðir drykkinn próteini og kalsíum. Einnig er gott að bæta einni skeið af vanillu-próteindufti í blönduna.

Gott er að bæta einni matskeið af einhverju af eftirfarandi:

Chia fræjum

Hörfræjum

Lífrænum kókosflögum

Lífrænu hnetu- eða möndlusmjöri

Hellið mjólkinni fyrst í blandarann. Bætið frosnum ananas, mangó og spínatlaufum út í blandarann. Setjið lokið á blandarann og hrærið þar til blandan er orðin mjúk og áferðarfalleg. Ef blandarinn staðnæmist og ræður ekki við blönduna, má bæta meiri mjólk við. Ef blandarinn ræður við ísmola er mjög gott að bæta nokkrum klökum út í meðan á stendur, því þá verður drykkurinn ískaldur og svalandi. Einnig má bæta stevíudropum út í blönduna ef ætlunin er að hafa drykkinn örlítið sætan.

Þessi uppskrift hentar fyrir einn!

Heimild: YummyMummyKitchen.com

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!