KVENNABLAÐIÐ

Sex mánuðum eftir að ég hætti að nota hársápu

Skiptingin frá hársápu yfir í matarsóda og eplaedik átti bara að vera í einn mánuð en núna get ég ekki hætt.

Það eru liðnir sex mánuðir síðan ég hætti að nota hársápu. Þetta byrjaði allt sem stutt tilraun þegar ritstjórinn minn spurði hvort ég vildi prófa „sjampólausu“ aðferðina bara í einn mánuð. Ég hikaði en ákvað samt að prófa með Margaret sem vinnur með mér og við fórum beina leið af stað inn í heim óhefðbundinna hármeðferða. Niðurstöðuna má lesa hér. Margaret hætti eftir mánuð en ég hélt áfram að þvo hárið með matarsóda og notaði eplaedik sem hárnæringu.

Auglýsing

Mér datt aldrei í hug að ég yrði ennþá að í byrjun júlí en hér er ég, orðin hreintrúuð á „no ‘poo“ aðferðina og ætla mér ekki að snúa til baka. Það eru svo margir hlutir sem ég elska við þetta og það er einfaldlega það sem ég segi við fólk sem er forvitið um þessar furðulegu hárþrifavenjur mínar.

Ég þurfti ekkert aðlögunartímabil, sem er algengt hjá fólki sem er með virkilega þykkt hár, sem er ekki þvegið oftar en einu sinni eða tvisvar í viku. Stærsta hindrunin var andleg og að venjast því að finnast ég vera að þvo mér með salatídýfu þegar ég setti edikið í hárið á mér. (Engar áhyggjur – lyktin hverfur nánast strax og situr ekki eftir að neinu leiti.)

Hárið á mér verður heilbrigðara og meðfærilegra því lengur sem ég forðast hársápu. Það verður sjaldnar feitt og ég þarf að þvo það sjaldnar, venjulega á 4-5 daga fresti. Hárið er mýkra, meiri glans í því og minna af hárum sem fara út í loftið. Ég á færri vonda hárdaga og fæ náttúrulegar lausar krullur eins og ég vil með eingöngu smá klípu af kókoshnetuolíu sem ég nudda í rakt hárið.

Auglýsing

Ég hef bara tvisvar notað náttúrulega hársápu í stað ediks og matarsóda og það var þegar ég ferðaðist til Hondúras og Mexíkó vegna ritstarfa í vor. Í báðum tilfellum fannst mér betra að þurfa ekki að útskýra þetta skrýtna hvíta duft í farangrinum. Ég sá mikinn mun eftir að nota hársápu. Hárið var þurrara og úfnara og var orðið feitt eftir tvo daga. Ég tók líka eftir að mér klæjaði meira í hársvörðinn eftir hársápuna, mögulega vegna þess að náttúrulegu olíurnar voru hreinsaðar burt.

Ég elska líka hvernig no ‘poo aðferðin hjálpar mér að minnka úrganginn á heimilinu. Eftir sex mánuði er ég búin að nota einn kassa af matarsóda og er að verða búin með helminginn af edikskrukkunni. Það eru engar tómar plastflöskur utan af hársápu og næringu og hárvörurnar sem ég þurfti til að hemja hárið hafa horfið líka.

Ef þessi hugmynd hefur vakið forvitni þína í nokkurn tíma, er þá ekki tilvalið að prófa? Reynslan gæti komið þér skemmtilega á óvart. Hér er það sem ég geri:

Mældu tvær matskeiðar af matarsóda í 500 millilítra glerkrukku. Fylltu af vatni og hrærðu til að leysa upp matarsódann. Helltu yfir hárið og nuddaðu vel inn. Skolaðu.
Mældu tvær matskeiðar af eplaediki í sömu krukku, bættu við vatni, helltu yfir höfuðið og skolaðu nánast samstundis.

(Þetta er magnið fyrir langt hár. Ef þitt er stutt eða meðal sítt, notaðu þá eina matskeið matarsóda og edik í einn bolla af vatni. Ef hárið virkar ekki nógu hreint þegar það er þurrt, notaðu þá örlítið meiri sóda næst)

Þýtt héðan