KVENNABLAÐIÐ

7 Húsráð: Ekki henda kísilkúlunum

Manstu eftir að hafa séð litla poka með gelkúlum inní, ofan í pakkningunum af nýkeyptum hlutum? Eða dularfulla örsmaá dós með kornum í, ofan í lyfjaglösum?

Þetta eru kísilkúlur eða silica gel, sem notaðar eru til að verja hluti fyrir raka þar sem þær eru einstaklega rakadrægar. Alltof margir henda þeim í ruslið til að litlu krakkarnir nái ekki í þetta og éti, en það áttu alls ekki að gera. Þessu ættirðu að safna saman því það er hægt að nota kísilkúlurnar við margar kringumstæður.

Svona er hægt að nota þær:

  1. Settu örfá stykki í íþróttatöskuna þína! Alls kyns bakteríur geta þrifist vel á myrkum og rökum stöðum, myndað myglu og óþef. Sílikonkúlurnar munu halda töskunni þinni og íþróttafötunum lyktarbetri og þurrum
  1. Plantaðu nokkrum inn í handklæðaskápinn til að viðhalda ferskleika og koma í veg fyrir að handklæðin myndi raka, sérstaklega þegar þau eru nýþvegin.
  1. Þú getur lengt líftíma rakvélarinnar með því að setja hana í lítinn plastpoka ásamt poka af kísilkúlum í stað þess að leyfa raka baðherbergisins að veikja bitið á rakblöðunum.
  1. Ef svo illa skyldi fara að þú missir símann þinn ofan í vatn, ekki örvænta ef þú átt kísil kúlur. Fylltu krukku af kúlunum góðu og troddu síðan símanum á kaf í þær. Þær munu gera kraftaverk!
  1. Þessu ráði er ég ákaflega hrifin af þar sem ég glími við þetta vandamál, en bíllinn minn myndar ótrúlega mikla móðu innan á rúðunum. Þetta ráð er án alls vafa algjör lífsbjörg! Þú getur annaðhvort sett nokkra poka af kísilkúlum, aftast á mælaborðið og niður með rúðunum eða það sem ég geri, hálffyllt gamlan sokk af kísilpokum eða litlu dósunum, loka honum vel og sting undir sætin! Seinna ráðið tekur aðeins lengri tíma í að virka en eftir örfáa daga muntu sjá út um framrúðurnar um leið og þú sest inn í bílinn að morgni!
  1. Gömlu myndunum sem þú geymir í kassa inni í geymslu, geturðu bjargað frá raka og komið jafnvel í veg fyrir meiri elliskemmdir með því að setja nokkra kísilpoka með þeim í kassann.
  1. Það er hreinlega bráðnauðsynlegt fyrir hverja konu sem á snyrtibuddu, að geyma 2-3 svona poka með snyrtivörunum, því kísil gelið bjargar púðrinu og augnskuggunum frá því að ysta og breytast í grjótharðan köggul til sorgmæddrar minningar um fegurri tíma.

Hér hafið þið 7 virkilega nothæf ráð sem munu án efa gera líf ykkar örlítið einfaldara.

Næst þegar þið kaupið eitthvað þar sem leynast með í pakkningunni, dularfullir smápokar eða undursamlegar smádollur, munið þá að henda því ekki í ruslið í þetta skiptið! Hver veit hvað maður hefði getað bjargað miklum verðmætum með öllum þeim silica gel pokum sem maður hefur hent hingað til?

Elskurnar mínar, endilega skrifið í komment hér fyrir neðan ef þið finnið fleiri not fyrir þetta og deilið því með okkur hinum!

*Athygli skal vakin á því að Silica Gel inniheldur efni sem skaðleg eru líkamanum, ef þeirra er neytt. 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!