KVENNABLAÐIÐ

Hvíta Húsið gefur út yfirlýsingu vegna ákvörðunar Kanye: „Við bíðum spennt!“

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta Hússins brást skjótt við í kjölfar yfirlýsingar Kanye West, sem svipti hulunni af þeirri ákvörðun að bjóða sig fram til Bandaríkjaforseta árið 2020 á sviði MTV VMA á sunnudagskvöld, eins og SYKUR greindi frá í gær.

Kanye fór stórum í verðlaunaræðu sinni, sem spannaði heilar 15 mínútur og sagðist meðal annars:

„Þetta snýst ekki um mig. Þetta snýst um hugmyndir. Nýjar hugmyndir. Fólk með hugmyndir. Fólk sem trúir á sannleikann. Og já, eins og þið hafið eflaust öll gert ykkur grein fyrir þegar hér er komið sögu, hef ég ákveðið að bjóða mig fram í embætti Bandaríkjaforseta árið 2020.“

Tónlistarvefurinn Billboard birti þannig stutt viðtal við John Earnest, sem er fjölmiðlafulltrúi Hvíta Hússins, en blaðamaður náði tali af Earnest símleiðis meðan á ferðalagi þeirra forsetans með forsetaþotunni Air Force One til Alaska stóð.

„Starfsfólk Hvíta Hússins er himinlifandi yfir ákvörðun Kanye og við getum ekki beðið þess að sjá hvaða slagorð hann velur að bródera í kosningahattinn sem hann mun bera í baráttunni.“

Obama staðfesti nýverið að forsetinn myndi ekki þvinga Kanye til að gefa út nýja breiðskífu sína þann 21 ágúst nk., þrátt fyrir að undirskriftalisti þess eðlis hefði borist Hvíta Húsinu fyrr í þessu mánuði. Yfir 100.000 bandarískir ríkisborgarar lögðu nafn sitt við opinbera áskorunina og kröfðust þess að Obama setti hnefann í borðið, nóg væri komið af moði í hljóðveri og út ætti breiðskífan að koma. Tillögunni var hins vegar hafnað og beitti forsetinn neitunarvaldi.

2015KanyeWest_GettyImages-478805236270615.article_x4

Þess má að lokum geta að Twitter fór á hvolf þegar Kanye tilkynnti forsetaframboð sitt á sviði MTV VMA verðlaunaafhendingarinnar sl. sunnudagskvöld og rauf bandaríski rapparinn vinsældamúrinn, en hvorki meira né minna en 247,525 notendur ruku upp til handa og fóta og tístu um yfirlýsinguna strax í kjölfarið. Enginn listamaður komst þar með tærnar þar sem Kanye hafði hælana og ekki einu sinni sölt tár Justin Bieber komust í hálfkvisti við eiginmann Kim Kardashian, sem fylgdist íhugul með öllu úr sæti sínu í sal.

Það er ekki öll vitleysan eins.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!