KVENNABLAÐIÐ

Á S T I N: Hvaða áhrif hefur systkinaröðin á sambandið?

Því verður ekki neitað að oft er þægilegast að skella skuldinni á uppeldisaðstæður þegar illa gengur í einkalífinu. Í raun er það enda ekki fjarri lagi, en ekki þó á þann háttinn sem flestir reikna með.

Systkinaröðin og fæðingarhlutverk geta nefnilega farið með stórt hlutverk í málefnum hjartans, þegar fram á fullorðinsárin er komið. Þetta staðhæfir í það minnsta William Cane, sem ritaði bókina The Birth Order Book of Love, þar sem hann útskýrir hlutverk systkina eftir fæðingarröð (elstu börn, miðjubörn, yngstu börn og einkabörn) og hvaða áhrif fæðingarröðin hefur á persónuleikann, samskipti okkar við annað fólk og hegðun í daglegu lífi; bæði í almennum skilningi og nánari samskiptum.

Auðvitað eru fræðin ákveðin einföldun og hér er ekki átt við að þú eigir að sveigja hjá hinum útvalda, allt vegna þess að heimspekin segir ykkur ekki eiga saman. En þó er nokkur sannleikskorn að finna í fræðunum og gaman er að gægjast ofan í bókina góðu, sem kafar ofan í áhrif fæðingarhlutverks okkar innan fjölskyldunnar og hvernig við förum saman við ólíka einstaklinga:

Ef þú ert elsta barnið …

… ertu sennilega skipulögð, metnaðarfull, ákveðin og full sjálfstrausts.

Þú, sem varst eina barn foreldra þinna um ákveðið skeið, naust allrar athyglinnar og fékkst hrós og viðurkenningu í hvert sinn sem þú afrekaðir einhverju. Öll athyglin sem foreldrar þínir beindu óskiptri að þér og engu öðru barni á fyrstu árum ævi þinnar, gerir að verkum að þú vilt sitja við stjórnvölinn á þínum fullorðinsárum. Á móti kemur að þú getur átt í erfiðleikum með að deila, finna málamiðlanir og glímir jafnvel við afbrýðisemi.

Þar sem þú ert að öllum líkindum skipulögð og hefur vegnað ágætlega, mun maki þinn sennilega læra að reiða sig á þig. Að því sögðu getur verið að þú þurfir að læra að hemja eigin hvatvísi og meðfædda áhættusækni þína. Þú þarft að læra að umfaðma ákveðna mýkt og eftirgefanleika í samskiptum við ástina þína svo þú sprengir ekki allt í loft upp með óhemju skipulagskröfum.

Ef þú ert miðjubarn …

… ertu að öllum líkindum félagslynd manneskja, góður málamiðlari og örlítið uppreisnargjörn.

Óumflýjanlega hefur þú gegnt hlutverki málamiðlara milli elsta og yngri systkina þinna, en miðjubarninu fer hlutverk sáttasemjara vel og lyndir yfirleitt við alla. Miðjubörnum er illa við átök og ósætti sem merkir að miðjubörnin reyna yfirleitt að finna lausnir og gefa jafnvel eftir í tilfinningasamböndum. Svo framarlega sem allir eru ánægðir, er miðjubarnið líka sátt við lífið og tilveruna.

Eins og þig langar mikið að gera öllum til geðs, er viðurkenning annarra líka mikilvæg fyrir þér. Þú ert sennilega opnari fyrir nýjum áskorunum en systkini þín og þú hikar ekki við að leyfa þínum innri uppreisnarsegg að blómstra. Lögðu eldri systkini þín stund á lögfræði? Þú ert öllu líklegri til að fara í listaháskóla.

Maki þinn hrífst af skapandi orku þinni og skemmtilegri hvatvísi en þegar að alvöru málsins kemur, ertu sennilega dulari en margir myndu ætla. Þú þarft að læra að opna á tilfinningar þínar og segja frá þegar eitthvað angrar þig, þrátt fyrir tilhneigingu þína til að byrgja allt inni.

Ef þú ert yngsta barnið …

… ertu sennilega opin og hrífandi í framkomu, blátt áfram og sjálfmiðuð.

Í það minnsta kveða fræðin á um einmitt það; að yngstu börnin upplifi þægilegustu barnæskuna. Foreldrar þeirra barna sem yngst eru í systkinahópnum hafa lært heil ósköp af uppeldi eldri systkina og eru því líklegri til að slaka á reglufestunni kringum yngsta barnið. Líkurnar eru einnig þær að þú sért yfirleitt tilbúin/n í allt – þar sem þú fékkst sjaldnast að ráða ferðinni sem barn. Þess utan ertu vön því að umgangast þér eldra fólk og skilur húmor þeirra eldri, það lærðir þú á unga aldri og hér er því sennilega fyndin og skemmtileg manneskja á ferð.  

Þú finnur þig hins vegar ekki knúna til að gera áætlanir eða axla ábyrgð þar sem þú ert vön því að einhver annar taki af skarið. Að því sögðu er líka mögulegt að foreldrar þínir, sem hafa alltaf litið á þig sem barnið í fjölskyldunni, kölluðu þig að öllum líkindum sjaldnar til ábyrgðar en systkini þín og því þarftu að hlúa vel að ábyrgðartilfinningu þinni sem fullorðin manneskja. Þú gætir fallið í þá gildru að verða um of háð maka þínum og þar af leiðandi getur myndast togstreita í sambandinu, þar sem maka þínum gæti á stundum fundist eins og um hann eða hún þurfi að axla meginábyrgðina í sambandinu.

Ef þú ert einkabarn …

… ertu ábyrgðarfull, þroskuð, áreiðanleg og viðkvæm.

Fræðin herma að einkabörn séu gjörspillt og dekruð, þar sem foreldrar þeirra einblíndu bara á eitt barn; lítinn einstakling sem aldrei þurfti að deila neinu með öðrum börnum. Sennilega hegðar þú þér þó meira í ætt við eldra barn en konungborinn einstakling. Ef þú skilur hvað átt er við hér. Þar sem þú bjóst einsömul með foreldrum þínum sem barn og fékkst því næga þjálfun í samskiptum við fullorðið fólk – ertu að öllum líkindum fremur alvörugefin og ábyrgðarfull manneskja. Að ekki sé minnst á framúrskarandi samskiptahæfileika þína.

Þú ert næm á þarfir annarra í kringum þig, en gættu þín þó; því mörg einkabörn hafa tilhneigingu til öfga. Meðan elsta barn í fjölskyldu getur haft tilhneigingu til fullkomnunaráráttu, er allt eins víst að einkabarnið verði einstrengingslegur fullkomnunarsinni. Einkabörn þurfa að vera á varðbergi gagnvart eigin kröfuhörku í tilfinningasamböndum – að hemja eigin löngun til að ganga of langt og ofhugsa allar aðstæður.  

Hvernig ætli „börn“, eða uppkomnir einstaklingar sem gengdu ólíkum fjölskylduhlutverkum sem börn, eigi þá saman sem pör? Rétt er að taka fram að þó orðalag greinarinnar vísi til „barna“ er hér verið að vísa í fjölskylduhlutverk fullorðinna sem fæddust inn í systkinaröð. 

Auðvitað er allt sem hér fer fram ákveðin einföldun. Að skilgreina einstaklinga og aðstæður eftir systkinaröð einni saman er engin mælikvarði á hvernig ástin parar fólk saman. En tilgáturnar eru skemmtilegar og hér fara þær helstu: 

Elsta barn með elsta barni: Þið viljið bæði sitja við stjórnvölinn og taka ákvarðanir, svo búið ykkur undir talsverðar málamiðlanir og jafnvel tíða skoðanaárekstra. Ef samband tveggja elstu barna á að ganga upp, þurfa báðir aðilar að læra að miðla málum og mætast á miðri leið, í stað þess að krefjast þess að fá sínu fram. Alltaf. Elstu börnum þarf að lærast að þó þeirra eigin skoðanir og þarfir séu mikilvægar í þeirra eigin augum, hefur maki þeirra sínar eigin þarfir og langanir sem eru jafn mikilvægar. Málamiðlun er lykilatriði hér.

Elsta barn með miðjubarni: Miðjubörnin eru iðulega góðir málamiðlarar sem merkir að elsta barnið mun sennilega stýra skútunni í sambandinu. Þó þetta fyrirkomulag geti leitt til árekstralausra samskipta, er líka mögulegt að miðjubarninu finnist að því þrengt þegar líða tekur á sambandið þar sem hann eða hún er stöðugt í gefandi stöðu; styður maka sinn skilyrðislaust en fær litla hvatningu í skiptum.

Elsta með yngsta: Hér laðast andstæður að hverri annarri. Fyrsta barnið (sem vill vera við stjórnvölinn) og yngsta barnið (sem vill láta sjá um sig) eiga yfirleitt vel saman og þvinga hvort annað út úr þægindahringnum samtímis.

Miðjubarn með miðjubarni: Bæði eru viðkvæm og hneigjast til sáttamiðlunar og því er stærsta gildran sem bæði verða að varast – skortur á samskiptum vegna ótta við árekstra. Miðjubörnin þurfa að læra að tala saman, vera opinská um tilfinningar sínar og þarfir, skoðanir og langanir. Blátt áfram er alltaf best.

Miðjubarn með yngsta barni: Þar sem miðjubarnið er líklegt til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og um leið daglegu umhverfi sínu, er allt eins líklegt að miðjubarn fari að taka upp tilhneigingar yngsta barns. En samskiptahæfileikar miðjubarnsins og félagslyndi yngsta barnsins er góð samsetning og myndar lifandi og skemmtilegt jafnvægi í sambandinu.

Yngsta með yngsta: Þetta er fjörugt samband og aldrei líður sá dagur að hlátrasköll heyrast ekki. Þið eruð bæði félagslynd í eðli ykkar og kunnið að skemmta ykkur saman en þegar erfiðleikar rísa vill hvorugt taka ábyrgð á vandanum sem er risinn upp. Tvö yngstu börn þurfa að skilgreina sterkar hliðar beggja; hver hefur meira vit á fjármálum, hver er stundvísari og svo framvegis. Yngstu börn þurfa að læra að axla ábyrgð og deila verkum sín á milli.

Einkabarn með öllum: Einkabörn búa yfir talsverðri aðlögunarhæfni og ganga vel saman við öll systkini, svo framarlega sem þau hegða sér ekki um of eins og elstu eða yngstu börn (sem eru einmitt þau hlutverk sem þau eru líklegust til að grípa til.)

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!