KVENNABLAÐIÐ

Hakúna Matata!

Ég er hætt að hafa áhyggjur. Tók meðvitaða ákvörðun um það fyrir mörgum árum síðan. Þegar þrautreynt var að ég gæti ekki borgað með þeim, étið þær né hugsað skýrt.

Ég hafði áhyggjur af öllu: Fjármálunum, börnunum, heilsunni og ekki síst hvað aðrir hugsuðu. Ef eitthvað kom upp á, skreið ég undir sæng og fór að sofa. Þess má geta að ég svaf í nokkur ár. Ég var fórnarlamb. Fórnarlamb sem tók ekki ábyrgð á neinu. Strútur sem stakk höfðinu í sandinn.

Þetta hefur heldur betur breyst á síðustu 10 árum. Þegar ég fór að læra að bera ábyrgð og beita hluttekningu.

Þegar maður tekur ábyrgðina í sínar hendur, á öllu sem gerist í lífi manns, verður allt mikið auðveldara. Auðvitað kemur ýmislegt fyrir sem maður hefur litla eða enga stjórn á. Eins og gjörðum annarra t.d. En sú ábyrgð sem ég er að tala um snýst um eigin líðan gagnvart því. Og hvernig maður nýtir þessa reynslu.

Ef eitthvað kemur upp á sem maður hefur enga stjórn á og getur lítið gert við, þá er það nú ekki sérlega gáfulegt að eyða orku sinni í áhyggjur yfir því. En ef það er eitthvað sem maður gæti hugsanlega gert við, þá er það nú ekki mikil ástæða til að hafa áhyggjur af því heldur.

Ég er tala um áhyggjur og hluttekningu. Það er ekki það sama.

Áhyggjur geta verið lamandi og haft eyðileggingarafl. Þær eru neikvæðar hugsanir og ímyndir sem geta valdið sjúklegum kvíða. Þeir hlutar heilans sem maður notar til að ímynda sér lausnir eru þá uppteknir við að sjá fyrir sér allar neikvæðar niðurstöður sem gætu mögulega og ómögulega komið út úr þessu.

Hluttekning aftur á móti, þýðir einfaldlega að maður lætur sig hlutina varða, án þess að láta þá yfirtaka hugann, og getur tekið á þeim á uppbyggjandi hátt.

Með því að reyna að losna undan áhyggjuskrímslinu breytist ýmislegt til batnaðar. Allt í einu er hægt að hugsa skýrt, finna lausnir á ýmsum vandamálum og einbeita sér að núinu.

Ég er ekki að tala um að lifa í einhverju kæruleysi og „þetta reddast“ hugsanagangi. Heldur að vera meðvitaður um hverju maður getur breytt og hverju ekki, en týnast samt sem áður ekki í hringhugsun um það. Brjóta upp gamalt mynstur sem hefur lamandi áhrif á líf manns.

Þetta er eilífðarvinna, því þegar maður hefur vanið sig á að hafa áhyggjur af öllu mögulegu, er verulega erfitt að koma sér út úr þeim hugsanagangi. Þær koma upp aftur og aftur. Og þá þarf að stöðva þær í tíma, áður enn þær taka yfir.

Hér áður fyrr fannst mér alltaf voða furðulegt hvað foreldrar mínir voru með miklar áhyggjur af mér og mínu lífi. Það var ég sem lifði því og að auki farin að heiman. Og fyrst ég sjálf gat ekkert leyst mín mál, hvernig áttu þau að geta það?

Nú þegar elstu börnin mín eru farin að heiman til að stofna fjölskyldur og lifa sínu lífi, finn ég þetta blossa upp hjá mér sjálfri þegar vandamál steðja að þeim. Ég þarf sífellt að minna mig á að ég get ekki leyst þeirra mál. Hvað þá að málin fari þann farveg sem ég vil að þau fari!

Þá er bara að anda og telja upp að hundrað. Minna sjálfa mig á að ef ég eyði allri orku minni í að hafa áhyggjur af því sem ég hef enga stjórn á, hef ég litla sem enga orku, hvað þá rænu, til að vera til staðar og hjálpa þeim við það sem ég get.

Ég hef alla tíð verið mikill áhyggjubolti. Hafði áhyggjur af öllu í veröldinni þegar ég var barn. Svaf stundum ekki fyrir áhyggjum af stríðshrjáðu fólki, sveltandi börnunum í Eþíópíu, kjarnorkustyrjöld. Ég grét mig ekki svo sjaldan í svefn vegna þessa. Algjörlega hjálparvana og fann mikið fyrir því. Hlutir sem ég hafði akkúrat enga stjórn á.

Ég þarf því að sparka í afturendann á sjálfri mér nokkrum sinnum í mánuði, því áhyggjuástand er eitthvað sem ég er vön. Ég þarf stöðugt að minna mig á og flokka þau mál sem ég hef einhverja stjórn á og svo hin sem ég get ekkert gert í. Einu tilfinningarnar sem hafa engan tilgang, nema illan, eru einmitt áhyggjur og samviskubit.

Skiptum þeim frekar út fyrir hluttekningu og iðrun. Því það eru tilfinningar sem knýja mann til uppbyggilegra framkvæmda, öfugt við hinar tvær.

Fyrsta skrefið í átt að betri líðan og kvíðaminna lífi, er að gera sér grein fyrir eðli þeirra mála sem heltaka hugann. Og sleppa taki á þeim málum sem maður hefur enga stjórn á sjálfur.

Ég tek heilshugar undir með þeim félögum Tímón og Púmbu er þeir syngja áhyggjulausir og lifa í núinu, en ekki í einhverri óvissu um framtíð sem þeir hafa enga hugmynd um hvort kemur eða ekki.

Hakúna Matata, gott fólk! Fortíðin er búin og ekkert við henni að gera nema læra. Framtíðin er ekki komin ennþá, það eina sem við getum gert, sem ber einhvern árangur, er að lifa í núinu því það er eini tíminn sem raunverulega er til.

Hakúna Matata!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!