KVENNABLAÐIÐ

Haltu fast í farsímann á heimleið: „ER Í LAGI MEÐ ÞIG?“

Að ganga einsamall heim að nóttu til getur verið skelfileg tilhugsun, sérstaklega ef leiðin liggur um fáfarnar götur í algeru myrkri, að ekki sé minnst á þá sem bíða heima milli vonar og ótta í einhverjum tilfellum og vonast til þess að allt fari á besta veg.

Einhverjir bregða á það ráð að halda fast í farsímann, aðrir hringja í vin sem liggur á línunni þar til útihurðin blasir við og svo eru það þeir sem kjósa einfaldlega að nýta sér tæknina. Til eru nokkrar tegundir af smáforritum sem gerðar eru fyrir farsíma í þeim eina tilgangi að tryggja öryggi gangandi vegfarenda um fáfarnar slóðir.

Viðbótin heitir Companion og er hönnuð til þess að kalla til valda vini og ástvini, ef eitthvað fer úrskeiðis á heimleið, kostar ekki krónu og er jafnt fáanleg fyrir Android og iOS. Hver verður fyrir valinu að hverju sinni er undir notandanum sjálfum komið, en viðtakendur skilaboða þurfa ekki að hafa hlaðið smáforritinu niður sjálfir.

Svona virkar Companion farsímaviðbótin:

appscrns

Þú opnar viðbótina og slærð inn upphafspunkt, eða hvaðan þú leggur af stað. Því næst segir þú viðbótinni hvert ferðinni er heitið. Companion rekur ferðalagið lið fyrir lið og spyr notandann af og til: ARE YOU OK? Ef farsímanotandinn smellir ekki á græna hnappinn innan 15 sekúndna, sér viðbótin um að senda völdum tengiliði skilaboð um að eitthvað hafi farið úrskeiðis og þar með er viðvörunarkerfið farið í gang.

En Companion gerir meira en það; viðbótin nemur ef þú byrjar að hlaupa og líka ef þú tekur heyrnartólin úr símanum. Ef það gerist hefst 15 sekúndna niðurtalning áður en Companion hefur samband við tengilið að vali notandans.

Handhæg lítil farsímaviðbót sem getur dimmu í dagsljós breytt og gert göngutúr um fáfarin húsasund talsvert öruggari en áður, allt án þess að þú þurfir nokkru sinni að taka upp símann eða kalla eftir hjálp – að því tilskyldu að tengiliður bíði við símann og fylgist með smáskilaboðum sem greina frá staðsetningu og þeirri staðreynd að eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis á heimleið.

Android notendur geta sótt viðbótina HÉR en iOS notendur HÉR – sér að kostnaðarlausu: 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!