KVENNABLAÐIÐ

Áföll hafa langvarandi áhrif á líkama og sál  

Umsjón og texti: Silja Björk Björnsdóttir / Myndir: Af vefnum

Nýverið kom út bókin Líkaminn geymir allt eftir geðlækninn Dr. Bessel van der Kolk í íslenskri þýðingu Hugrúnar Hrannar Kristjánsdóttur og Arnþórs Jónssonar. Líkaminn geymir allt fjallar um tengsl áfalla við ýmsa heilsubresti og lífsgæði okkar. Bókin er stundum kölluð „áfallabiblían” og hefur nú setið á metsölulista Eymundsson í meira en 10 vikur. Hún hefur haldið fyrsta sæti í flokki handbóka frá aprílbyrjun og er það ekki skrítið þar sem efni bókarinnar snertir okkur flest og hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli um heim allan undanfarinn áratug eða frá fyrstu útgáfu.

Höfundur bókarinnar, Dr. Bessel van der Kolk, er einn helsti sérfræðingur heims í áfallafræðum og fléttar hér saman eigin ævi og áföllum sínum og skjólstæðinga sinna við rannsóknir, vísindalegar staðreyndir um afleiðingar áfalla og mögulegar leiðir til bata. Skrif og hugmyndafræði van der Kolk hafa valdið umvörpun í heimi sálfræðinnar og geðlækninga. Í Líkaminn geymir allt er farið yfir það hvernig áföll eru ekki bara áföll heldur eru þau eins mismunandi eins og þau eru mörg og geta haft víðtæk, varanleg áhrif á heilastarfsemi okkar og hegðun. van der Kolk fer yfir það hvernig við verðum öll fyrir einhverjum áföllum á lífsleiðinni, hvort sem þau eru stór eða smá, og koma þau til með að móta okkur áfram – sérstaklega ef ekki er rétt unnið úr þeim. Ekki nóg með það að áföll geta haft áhrif á okkur sjálf sem þolendur þá hafa þau keðjuverkandi áhrif á maka okkar, fjölskyldu og geta meira að segja erfst kynslóða á milli. Rannsóknir bæði Dr. van der Kolk og annarra áfallasérfræðinga sýna að áföll bitna ekki aðeins á geðheilsu fólks heldur hafa þau einnig áhrif á líkama okkar, tilfinningalíf, skynjun, tengslamyndun og félagslega færni okkar. Þá vill van der Kolk meina að áföll séu ekki sjúkdómur einstaklingsins heldur mein á samfélaginu sem verði að meðhöndla af vandvirkni og virðingu – til að heila heiminn allan.

Í bókinni segir van der Kolk frá uppvaxtarárum sínum og sögunni af því hvernig hann fékk þennan áhuga á áföllum og áfallameðferð. Bessel van der Kolk fæddist í Hollandi árið 1943, í miðri heimsstyrjöld, og litaðist æska hans bersýnilega af þeim sviptingum. Sem ungur maður nam van der Kolk læknis- og geðlæknisfræði við virta háskóla á Hawaii, síðar í Chicago og svo í Boston, Massachussets, þar sem hann settist síðar að. Sem ungur geðlæknir starfaði van der Kolk á meðferðarmiðstöð sem tók meðal annars á móti fyrrverandi hermönnum úr Víetnamstríðinu. Hegðun þessara manna – ofskareiðiköst, skapofsi og vangeta í tenglsamyndun – minnti van der Kolk óneitanlega á föður sinn og afa sem báðir höfðu mátt þola ýmsar hörmungar í seinni heimsstyrjöldinni. Það vakti áhuga hans á áfallafræðum og meðferð áfalla.

Skrif van der Kolk eru áhugaverð og djúphugul og flétta listilega saman hans eigin persónulegu reynslu sem geðlæknir, sögur úr lífi skjólstæðinga hans og bataferli þeirra við áfallafræði, fjölda vísindalegra staðreynda um afleiðingar áfalla og áhugaverðra meðferðarmódela. Vissulega getur bókin verið erfið lesning á köflum, bæði vegna innihalds hennar og fræðilegra skrifa, en oftar en ekki snertir hún persónulegar taugar hjá lesanda sem sjálfur hefur eflaust mátt þola ýmis áföll á lífsleiðinni. Því er lesandinn leiddur í ákveðna naflaskoðun á eigin áföllum, hegðun og bataferli. Eins og van der Kolk leggur áherslu á þá er bataferlið eftir áföll og áfallastreituröskun sannarlega ekki línulegt heldur kemur og fer í bylgjum. Þá geta verið góð tímabil og slæm en markmiðið sé vissulega að halda lengur í góðu tímabilin. Því er vissulega vert að setja ákveðna kveikjumerkingu við lesturinn því erfiðar frásagnir skjólstæðinga hans geta sannarlega slegið lesendur út af laginu. Þá getur verið gott að taka sér drjúgt hlé frá lestrinum.

Skrifum van der Kolk og þýðingu þeirrar Hugrúnar og Arnþórs má sannarlega hæla því eins og áður segir er efni oft á köflum ekki auðmelt. van der Kolk tekst með eindæmum vel að þræða saman vísindi og húmanisma, hann útskýrir það listavel hvernig áföll hafa áhrif á manneskjuna sem heild og öðlast lesendur þannig betri skilning á sársaukanum og ringulreiðinni sem fylgja áfallareynslunni. Líkaminn geymir allt kennir okkur inn á áföllin okkar, færir okkur stórkostlegan skilning á þeim og kennir okkur aðferðir til þess að komast í gegnum erfiðleikana við áföll með því að útskýra á sæmilegu mannamáli hvernig efnaskiptin í heilanum á okkur breytast eftir erfið áföll. Þá reifar geðlæknirinn góði ýmsar meðferðaraðferðir, flestar sem hann hefur sannreynt sjálfur, til þess að meðhöndla áföll og áfallastreitu.

Titill bókarinnar, Líkaminn geymir allt  eða „The Body Keeps the Score” eins og hún heitir á frummálinu, er hnyttinn og leiðandi – því þó áföll geymist kannski ekki í mælanlegu magni í beinum og vöðvum þá sýna rannsóknir fram á það hvernig áföll hafa bókstaflega áhrif á efnaskipti okkar, samsetningu erfðaefnis okkar og starfsemi fram- og mönduheilans. Þannig að jú, líkaminn geymir sannarlega allt. Í raun eru það áföllin sem endurforrita virkni þessara heilastöðva og eiga það til að festa fólk í áfallaástandinu sem getur auðvitað verið verulega hamlandi fyrir fólk. Hermaður sem er kominn heim af vígvellinum fær því ef til vill stöðugar martraðir, er uppstökkur og eftir að hafa upplifað slíkar hörmungar og verið valdur að þeim sjálfur á hann erfitt með að mynda tengsl við fjölskyldu sína og börn. Það sem gerist er að fólk festist í nokkurs konar „ berjast eða bugta”  (e. fight or flight) viðbragði, eins og hættan sé ávallt yfirvofandi. Þá fer heilinn að skynja venjulegar upplifanir sem hættulegar. Þá getur verið aukin kveikjuhætta þegar fólk kemst í sambærilegar aðstæður og áfallið því þær aðstæður verða bókstaflega kveikja að endurliti áfallsins og skyndilega þegar hermaðurinn heyrir hvelli í saklausum flugeldum finnst honum hann vera aftur kominn á hrísgrjónaakur í Víetnam. Þá tekur áfallið sig upp aftur, endurspilast í líkamanum og heilanumm og gerir fólki erfiðara fyrir að lifa heilbrigðu, innihaldsríku lífi því alltaf situr það fast í áfallinu.