KVENNABLAÐIÐ

Eitruð mömmumenning

Umsjón: Lilja Hrönn Helgadóttir – Myndir: Unsplash 

Ef það er eitthvað sem ég er orðin þreytt á þá er það eitruð mömmumenning á Internetinu eða bara hvar sem er. Ég efast ekki um að mæður þurfi á öðrum mæðrum að halda. Til að leita ráða hjá, að fagna og deila mikilvægum augnablikum með og til að fá þann stuðning og skilning sem við þurfum sem oft ekki einu sinni makar geta veitt okkur. Þegar ég varð fyrst ólétt leitaði ég til allra þeirra samfélagsmiðla á Internetinu sem ég gat. Hvort sem það voru hópar á Facebook, vefsíður með spjallþráðum, blogg hjá öðrum mæðrum og svokölluðum mömmu-áhrifavöldum, Instagram-reikningar sérstaklega tileinkaðir óléttu, fæðingum og mæðrahlutverkinu, uppeldisaðferðum og hvað eina. Þetta er allt til. Samfélagsmiðlar og margir vefmiðlar láta verðandi og núverandi mæðrum oft líða eins og þær séu ekki einar og staðfesta að áhyggjurnar sem þær eru með eru hundruðir og þúsundir annarra mæðra með líka. Margt af þessu er gott og elur af sér góð samskipti en ég hef líka orðið vitni að ótrúlega óheilbrigðum samskiptum og áhrifunum sem þau hafa á ungar (og eldri!) mæður.

Oft hefur mér blöskrað mikið þegar ég skoða athugasemdir á hinum ýmsu spjallþráðum eins og á til dæmis þeirri víðfrægu grúppu Mæðra Tips sem er á Facebook og er með hvorki meira né minna en næstum 27 þúsund meðlimi. Flestar af þessum mæðrum eiga það sameiginlegt að vilja vel og gefa góð ráð sem hafa reynst vel þegar aðrar mömmur leita til þeirra innan hópsins. En hins vegar, eins og gengur og gerist, reynast skemmd epli inn á milli. Sumar manneskjur virðast þó þrífast á ágreiningi og því að setja út á hvernig aðrar kjósa að ala upp börnin sín, hvort sem það er í sambandi við hvar þær láta barnið sitt sofa, hvort þær gefi því brjóst eða hvort því sé leyft að eiga síma eða annað tengt skjátíma svo fátt sé nefnt.

Þó að ég hafi ekki persónulega upplifað ágreining af þessum toga á netinu þá hef ég orðið vitni að þeim oft og nógu oft til að gera mig hrædda við að pósta ýmsum spurningum inn á slíka hópa sem ég hefði áður eflaust ekki verið hrædd við að gera. Og ef ég finn kjark til að spyrja spurninga inni á þessum hópum þá er ég oft að ritskoða mig til að passa að ég geti ekki fengið eldfim viðbrögð.

This image has an empty alt attribute; its file name is christin-hume-Hcfwew744z4-unsplash-1024x682.jpg

Ég hef séð ótalmargar rökræður um hvenær sé ráðlagt að láta barn byrja að sofa í eigin herbergi, hvort að það sé hollt eða hættulegt að leyfa barninu sínu að sofa í sama rúmi, hvenær eða hvort eigi að þjálfa börn af bleyjum, hvort að barn geti fengið alla þá næringu sem það þarf úr grænmetisfæði yfir í það að að mæður eru að skamma aðrar mæður fyrir að segja „stelpuföt“ því þeim finnst að það ætti ekki að kynja föt, hluti eða leikföng. Eins og við erum margar þá eru skoðanir okkar og það sem við teljum að sé mest ákjósanlegt fyrir börnin okkar jafnmisjafnt. Það eru mjög fáar mæður þarna úti sem eru vísvitandi að kjósa eitthvað fyrir barnið sitt sem þær halda að það muni hljóta skaða af en samt tölum við oft við aðrar mæður eins og það sé raunin. En af hverju?

Með það í huga hversu stórt hlutverk og ábyrgð það er að vera foreldri þá eru margar mæður úti í samfélaginu einfaldlega að leita eftir stuðningi, skilningi og samskiptum við aðra einstaklinga sem eru að ganga í gegnum það sama. En í leit að þessum skilningi týnist oft ásetningur okkar og við þurfum að reyna að sporna við þessum eitruðu athugasemdum sem geta ekkert gott af sér leitt. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur upplifun okkar á hinum eiginlega raunverulega heimi bjagast, við lítum á líf annarra kvenna og mæðra og finnst eins og líf þeirra sé fullkomið og að þær séu fullkomnar mæður. Þessi upplifun gerir það ennþá erfiðara fyrir okkur sem mæður að finnast við vera að standa okkur, að við séum að gera jafnvel og aðrir í foreldrahlutverkinu. Því er það þá ennþá mikilvægara að þegar við erum í samskiptum við aðrar mæður á Internetinu að vera skilningsríkar, sýna stuðning og að mæta öðrum af mildi og með opnum hug.

Það eru margar leiðir til að ala upp börn og margir raunveruleikar þegar kemur að því. Vissulega geta sumir haft rangar upplýsingar undir höndum og ráðlagt einhverjum að gera hluti sem geta skaðað börn (til dæmis þegar kemur að lyfjagjöfum eða ef einhver er að reyna að veita læknisfræðileg ráð án þess að vera læknir) en þá er vissulega hægt að ráðleggja þeim aðila að veita ekki slíkar upplýsingar því þær geta reynst hættulegar – eða að benda þeim á á kurteisan hátt að það sem þau ráðlögðu sé ekki rétt. Ég er nokkuð viss að manneskja sem gefur ráð sem eru hættuleg eða röng á einhvern hátt sé ekki vísvitandi að reyna að skaða sín börn eða önnur. Því er óþarfi að úthrópa viðkomandi og spyrja hvort að þau „séu biluð“, „séu að reyna drepa einhvern“ eða þar fram eftir götunum.

Reynum að vera sjálfum okkur hliðhollar

Það er alls ekki nýtt undir sólinni að kvenmönnum sé oft stillt upp á móti hver öðrum, hvort sem það sé að þær eigi að „keppast“ um menn, störf eða hvor sé betri móðir. Hér eru nokkrar leiðir til að reyna að halda samfélagsmiðlum ykkar heilbrigðum og til að þið séuð ekki að innbyrða of mikla neikvæðni í gegnum Internetið þegar kemur að foreldrahlutverkinu.

Hugaðu vel að hvernig hópa þú gerist meðlimur í

Þar sem þú munt líklegast „neyta“ mikils efnis úr þessum hópum, passaðu þá upp á að þú sért að gerast meðlimur í hópum sem deila upplyftandi, heilbrigðu og stuðningsríku efni en ekki efni sem er neikvætt eða niðurrífandi. Það er ekkert að því að prófa hópa og skrá sig svo úr þeim ef þú fílar þá ekki eða ert ekki að fá þann stuðning úr þeim sem þú vilt fá. Ísland þarf ekki að einskorðast við til dæmis Mæðra Tips-hópinn á FB. Það er til hafsjór af alls konar hópum (þá yfirleitt enskumælandi) sem eru stútfullir af mæðrum sem aðhyllast kannski uppeldisstefnur sem þér finnst áhugaverðar eins og til dæmis RIE eða Montessori, eða mæður sem eru vegan, mæður barna með mjólkuróþol, með aðrar greiningar eða til dæmis með svefnvandamál eða ýmsa sjúkdóma. Leitið og þér munuð finna!

Það ber þó alltaf að hafa í huga að þegar þú deilir upplýsingum eða myndum í þessum hópum skal hafa varann á. Gott er að leita í suma af þessum hópum fyrir stuðning en gott getur verið að deila ekki of miklum persónulegum upplýsingum um þig eða fjölskyldu þína á netinu og þá einna helst myndum.

Það er í lagi að svara ekki

Í dag virðist vera enn mikilvægara að halda uppi þeirri ímynd að við séum öll fullkomin því enginn vill fá þann stimpil að vera „slæm“ móðir. En eins mikið og við reynum þá mun alltaf koma að því að við eigum í samskiptum við einhvern sem sammælist ekki hvernig við kjósum að ala upp barnið/börnin okkar og þeir einstaklingar munu tjá sínar skoðanir á því. Fyrsta skrefið sem er mjög mikilvægt er að þú þarft ekki að eiga í rökræðum við þessa einstaklinga. Ef einhver sem þú þekkir ekki neitt er að ráðast á þínar persónulegar skoðanir þá er gott að muna að það skilgreinir ekki þig sem móður eða foreldri. Það að einhver segir þér hvernig þú gerir hlutina, eða finnst að þú ættir að gera þá, þýðir ekki að þú sért að gera neitt rangt.

Ef þú finnur að umræðan er ekki að fara neitt þá er ekkert að því að hætta að svara. Þú getur líka einfaldlega blokkað manneskjuna svo þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af því að lenda í sömu aðstæðum aftur. Ef þú ert ekki að eiga í uppbyggilegum samræðum við þessa manneskju þá er hún eflaust ekki að upplifa góð samskipti frá þér – og því getur verið ákjósanlegt að passa að lenda ekki í sömu sporum aftur ykkar beggja vegna. Þó að sumir virðast leita í að eiga í neikvæðum samskiptum við annað fólk þá ertu eflaust að gera þeim greiða líka að blokka þau.

Passaðu að þú sért líka að fá stuðning í persónu

Þó að mömmur geti veitt ómetanlegan stuðning í gegnum samfélagsmiðla og ýmsa hópa á Internetinu passaðu þá samt upp á að þú getir leitað til einhvers ekki einungis á netinu. Ekki allir búa svo vel að eiga gott bakland og margir búa langt í burtu frá fjölskyldum sínum eða eru að eignast barn á undan öllum vinum og svo lengi mætti telja sem gæti verið ástæður þess að þú ert ekki mikið að hitta aðrar mömmur. En reyndu eftir fremsta megni að vingast við einhverja aðra sem eru á svipuðum stað eða að vera í bandi við vini eða fjölskyldu þó þau séu ekki endilega á sama stað og þú í barneignum. Þó það sé bara ein til tvær manneskjur þá getur það gert gæfumuninn í því að finnast maður ekki standa einn í þessu.

„Mömmumenning“ þarf ekki alltaf að vera af hinu slæma eða „eitruð“ eins og titill þessarar greinar gefur til kynna. Hún getur falið í sér öruggan stað fyrir mæður til að koma saman og veita stuðning og deila reynslu. En það þurfa að eiga sér stað breytingar og það þarf okkur allar til að hrinda þessum breytingum af stað. Allt stendur þetta og fellur með okkur. Við getum byrjað á að vera aðeins opnari, aðeins hreinskilnari, aðeins skilningsríkari, meira berskjaldaðri og það sem mun eflaust gera gæfumuninn, hætta að dæma jafnmikið. Við getum sýnt hver annarri mildi, stuðning og hrósað og veitt hughreystandi orð þegar á því þarf að halda. Við getum ákveðið að við erum ekki allar eins og ef við værum það þá væri þessi heimur ekki nærri því jafnspennandi og áhugaverður eins og hann er.

 

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!