KVENNABLAÐIÐ

Ólaunuð ábyrgð, yfirumsjón og verkstýring á heimilis- og fjölskylduhaldi er gjarnan kölluð þriðja vaktin

Texti: Sigurbjörg Andreu Sæmundsdóttir

„Þriðja vaktin“ var valið orð ársins 2022 hjá RÚV, enda hefur það verið mikið í umræðunni.

Sálfræðinguirnn Hulda Tölgyes hefur verið dugleg að fjalla um þriðju vaktina ásamt því að halda námskeið fyrir pör um þriðju vaktina. En hvað er þessi þriðja vakt? Samkvæmt góðri samantekt á vr.is segir: „Ólaunuð ábyrgð, yfirumsjón og verkstýring á heimilis- og fjölskylduhaldi er gjarnan kölluð þriðja vaktin eða hugræn byrði (e. mental load). Ósýnileg verkefni sem eru vanmetin og jafnvel álitið sjálfsagt að konur sinni frekar en karlar. Enda fellur þriðja vaktin, þessi hugræna byrði, margfalt þyngra á konur þótt þær séu í sambandi (með karli) eða í fullri vinnu. Konur standa þriðju vaktina og hugræna byrðin fellur á þær sem hindrar atvinnuþátttöku þeirra, framgang í starfi, veldur streitu, álagi og stuðlar að kulnun og er eitt helsta ágreiningsefni í gagnkynja parasamböndum.”

Ég kynntist fyrirbærinu fyrst þegar ég sá myndasögu á vef The Guardian árið 2017 eftir franska myndasöguhöfundinn Emmu sem nefndist „You should´ve asked”. Þar fjallar hún um þessi oft og tíðum ósýnilegu verk sem konur vinna innan heimilisins. Og eins og titillinn segir þá er það þannig að konan á heimilinu gerir allt eins og hún getur þar til raunveruleikinn hrynur og maðurinn hennar virðist þá hissa á því að konan hafi ekki einfaldlega beðið um hjálp. „Þú hefðir átt að spyrja!” En með því að segja að hún þurfi bara að vera duglegri að spyrja hann, er hann að gera ráð fyrir því að konan sé verkstjóri heimilisins ásamt því að sjá um flest verk heimilisins. Konan er þannig líka látin skammast sín fyrir að hafa ekki spurt hann í stað þess að láta allt fara til fjandans. Þetta er auðvitað ekki algilt og oft engum einstaklingum „að kenna”. Oft eru þetta hlutverk sem við lærum frá blautu barnsbeini. Nema ef vera skyldi feðraveldinu og sögulegri stöðu kynjanna og hefðbundnum staðalmyndum karla og kvenna.

„En þegar ég las þessa myndasögu þá brast eitthvað. Ég hugsaði um mig, mæðurnar í kringum mig, mömmu mína, ömmu og allar konurnar sem komu á undan mér. Og grét. Fyrir mig og okkur allar.“

Þegar ég las þessa myndasögu átti ég lítið barn ásamt eldri dætrum í grunnskóla auk tveggja stjúpbarna. Ég var með allt innan heimilisins á minni könnu, barnauppeldið, samskipti við kennara, utanumhald um að heimanáminu væri sinnt, ákveða hvað væri í kvöldmatinn ásamt uppvaski og þvotti og almennt að „halda öllu í horfinu” á heimilinu. Ég átti þá mann sem vann mikið og mér fannst þá eðlilegt að ég sæi um allt hitt. Enda er ég alin þannig upp. Pabbi vann meira en mamma og því sá mamma um allt sem kom að heimilinu, mér, bróður mínum og öllu öðru. En þegar ég las þessa myndasögu þá brast eitthvað. Ég hugsaði um mig, mæðurnar í kringum mig, mömmu mína, ömmu og allar konurnar sem komu á undan mér. Og grét. Fyrir mig og okkur allar. Ég var orðin úrvinda á því að vera með alla þessa bolta á lofti. Ég man að ég deildi þessari myndasögu á Facebook og fékk þá nokkur „like“. Öll frá konum að sjálfsögðu. En mér fannst einhvern veginn virka svo óyfirstíganlegt verkefni að breyta þessu aldagamla vandamáli. Það sem ég gerði þó var að skilja við þáverandi. Hann vildi nefnilega meina að þetta væri ekki neitt sem ætti að skipta neinu máli, sérstaklega hjá okkur þar sem hann vann jú meira en ég. Hann er enn í dag að senda mér skilaboð og spyrja númer hvað barnið okkar notar af fötum og skóm, hvenær barnið fer á æfingar, hvað vinir barnsins heita og þar fram eftir götunum. Þannig að þriðju vaktinni lýkur ekki alltaf við skilnað.

Þess vegna er ég svo óendanlega þakklát fyrir það grettistak sem Hulda Tölgyes sálfræðingur og fleiri femínistar hafa velt undanfarin ár við það að opna umræðuna um hugrænu byrðina sem er á svo mörgum konum í gagnkynja samböndum.

„Þess vegna er ég svo óendanlega þakklát fyrir það grettistak sem Hulda Tölgyes sálfræðingur og fleiri femínistar hafa velt undanfarin ár við það að opna umræðuna um hugrænu byrðina sem er á svo mörgum konum í gagnkynja samböndum.“

Leiðin til að breyta þessu mynstri er með aukinni meðvitund fólks á samspili allra þeirra ólíku þátta sem skapa og viðhalda ójafnri ábyrgð innan heimilisins. Nokkur stéttarfélög hérlendis hafa verið með átak í að opna þessa umræðu, enda kemur þetta atvinnulífinu við. Nú þegar langflestar konur eru útivinnandi er ekki hægt að hafa þetta svona lengur. Pör þurfa auðvitað einnig að vinna saman að bættri verkaskiptingu innan heimilisins. Jafnvel þarf stundum aðstoð fagaðila til að ná samkomulagi og er það vel. Svo er hægt að fara á námskeið hjá Huldu og Þorsteini, sjá allt um það á huldatolgyes.is

 

 

Birtíngur bíður upp á fjöldan allan af áhugaverðum viðtölum og skemmtilegri umræðu. Hægt er að nálgast greinar á vefnum www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!