KVENNABLAÐIÐ

Öll líf eru þess virði að lifa þeim

Texti: Silja Björk Björnsdóttir Myndir: Alda Valentína Rós   

Undanfarin ár hefur verið mikil vitundarvakning í samfélaginu varðandi geðheilbrigði. Það þykir eðlilegra að ræða geðræn veikindi í dag heldur en hér áður fyrr og félagasamtök sem sinna geðrækt verða sífellt sýnilegri. Meðal öflugustu geðræktarsamtaka á Íslandi í dag eru Píeta-samtökin, sem setja fókusinn á viðkvæmustu notendur geðheilbrigðiskerfisins, þau í sjálfsvígshugleiðingum og aðstandendur þeirra. Árlega látast 39 einstaklingar á Íslandi af völdum sjálfsvíga og þó óraunhæft sé að lækka töluna niður í núll eru Gunnhildur Ólafsdóttir, fagstjóri Píeta og Einar Hrafn Stefánsson, markaðs- og kynningarstjóri á einu máli um að forvarnir séu okkar sterkasta vopn til þess að lækka sjálfsvígstíðni á Íslandi. 

Píeta-samtökin í Reykjavík eru til húsa í fallegu, gömlu húsi í Þingholtunum að Amtmannsstíg 5a. Andrúmsloftið þar innanhúss er afslappað og tekur vel á móti fólki, enda byggir hugmyndafræði Píeta-samtakanna á því að veita fólki öruggt og hlýlegt skjól til þess að ræða viðkvæmar og erfiðar tilfinningar. Píeta-samtökin voru stofnuð árið 2016 af írskri fyrirmynd og sjá samtökin um fræðslu, forvarnir og vitundarvakningu varðandi sjálfsvíg. Meðferðaraðilar samtakanna starfa náið með sínum skjólstæðingum, halda utan um jafningjastuðning og hlúa að aðstandendum þeirra sem látist hafa úr sjálfsvígum.

Biðlistar eru bannorð 
Píeta leggur ríka áherslu á að fólk fái þjónustu þegar það þarf á henni að halda og að enginn þurfi að bíða í þögninni. Öllum fyrirspurnum er svarað, stórum sem smáum og engum er vísað frá heldur er reynt að finna viðeigandi lausn og meðferð. Hjá Píeta eru engir biðlistar, síminn opinn allan sólarhringinn og alltaf einhver við á skrifstofunni alla virka daga milli 9:00 og 16:00. „Þjónustan er með öllu gjaldfrjáls og stendur öllum til boða sem hafa náð 18 ára aldri,” segir Gunnhildur, „Við vinnum einnig markvisst að því að efla þekkingu og skilning á sálrænum sársauka og sjálfsvígum og viljum við vera leiðandi afl í forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum á Íslandi.”

„Við vinnum einnig markvisst að því að efla þekkingu og skilning á sálrænum sársauka og sjálfsvígum og viljum við vera leiðandi afl í forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum á Íslandi.“

Sjálf er Gunnhildur menntaður sálfræðingur og starfaði sem meðferðaraðili hjá Píeta áður en hún tók við starfi fagstjóra. Gunnhildur segir það óneitanlega hafa haft áhrif á sína vegferð í lífinu að hafa misst bróður sinn úr sjálfsvígi fyrir rúmum tuttugu árum en fyrst og fremst sé starfið hjá Píeta gefandi, þar sem raunverulegur árangur er áþreifanlegur. „Það er kannski oft erfitt að mæla það með nákvæmum hætti en hingað fáum við fólk sem segir að Píeta hafi bjargað þeim, að starfið hér hafi orðið til þess að þau fundu ljósið og vonina í batanum og það er svo gefandi, að sjá og heyra þessar sögur af fólki sem hefur náð bata,” segir Gunnhildur og Einar tekur undir það.

„Sjálfur er ég karlmaður nýskriðinn á fertugsaldur og það er viðkvæmur hópur. Það eru alltof margir strákar í kringum mig sem hafa látist úr sjálfsvígum undanfarið og mér finnst gott að geta nýtt mína menntun sem markaðsfræðingur til þess að gera eitthvað gott, hafa raunveruleg áhrif eins og starf Píeta er að gera,” segir Einar.

Gríðarleg aukning hefur verið í þjónustu Píeta undanfarin ár. Það eru að meðaltali 700 manns sem leita til samtakanna á hverju ári og Gunnhildur segir mikilvægt að grípa þetta fólk, sérstaklega þegar heilbrigðiskerfið sjálft virðist ekki anna eftirspurninni. Gunnhildur segir það einnig gríðarlega mikilvægt að átta sig á því að geðrænar áskoranir eru ekki bundnar við höfuðborgarsvæðið, frekar en aðrir heilsubrestir og varð það til þess að árið 2021 opnuðu Píeta skrifstofu á Akureyri og eru sömuleiðis að koma af stað starfsemi á Húsavík.

Vandamálin nærast á þögninni
Fræðsla og forvarnir eru afar mikilvægt tól til þess að upp-ræta fordóma og stuðla að fyrirbyggjandi meðferðum en að mati Gunnhildar er algengara að íslenska heilbrigðiskerfið sé að bregðast við vandanum of seint. Einar tekur undir það og sé það eitt af megin áherslum Píeta í framtíðinni að auka sýnileika og forvarnir í samfélaginu. „Mark-mið Píeta er að veita fólki með sjálfsvígshugsanir meðferð sem byggja á gagnreyndum aðferðum og finnst okkur mikilvægt að vanda vel til verka, sýna fólki þá virðingu og skilning sem það á skilið þegar það er að glíma við svona flóknar og erfiðar hugsanir,” segir Gunnhildur.

„Það að ná til fólks í tæka tíð og veita viðeigandi fræðslu og meðferð
getur orðið til þess að fólki fer að líða betur
og sjálfsvígshættan líður hjá.“

„Til Píeta samtakanna leitar breiður hópur fólks, hlutfall karla og kvenna er svipað. Fólk sem leitar til Píeta er á öllum aldri en talsvert algengara er að yngra fólk leiti til okkar. Ýmsar ástæður, bæði félagslegar og sálrænar geta legið að baki því að fólk leitar til okkar,” segir Gunnhildur. „Það að ná til fólks í tæka tíð og veita viðeigandi fræðslu og meðferð getur orðið til þess að fólki fer að líða betur og sjálfsvígshættan líður hjá,” bætir hún við.

„Starf Píeta er mikilvægt vegna þess að vandamálin stækka venjulega í þögninni,” segir Einar, „Starf okkar snýst um að fá hlutina upp á yfirborðið svo hægt sé að taka árangursík skref í átt að bata ef fólk er að upplifa þessar sársaukafullu tilfinningar eða er í erfiðum aðstæðum. Við viljum að fólk viti að það eru til aðferðir og leiðir sem gagnast og það er alltaf von,” leggur Einar áherslu á.

Sjálfsvíg eru hluti af mannlegum raunveruleika
Það getur verið flókið að ræða jafn erfitt málefni og sjálfsvíg. Umræðuefnið er vissulega vandmeðfarið, sérstaklega þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun og framvirkri forvarnarfræðslu. Þó eru Gunnhildur og Einar sammála um að ekkert þýði að sópa því undir teppið, geðræn veikindi og sjálfsvíg séu hluti af okkar raunveruleika eins og krabbamein og kvefpestir. Það eina sem dugi til sé að gangast við þessum raunveruleika og opna á umræðuna til að draga úr bannhelginni. „Það þýðir ekkert að sleppa því að tala um þetta, við eigum að tala um og efla sjálfsvígsforvarnir. Það er eina leiðin til að draga úr skömminni sem gjarnan fylgir því að vera með hugsanir um það að vilja ekki lifa lengur,” segir Gunnhildur og bætir við að ómögulegt sé að ná til breiðari hóps ef ekki má tala um vandamálið. Mikilvægt sé einnig að grípa aðstandendur, enda sé úrræðum til þeirra enn ábótavant.

„Sorg aðstandenda þeirra sem hafa misst einhvern úr sjálfsvíg getur verið allt annars eðlis en að missa einhvern úr krabbameini eða slysum, fólk fer rosalega mikið í að ásaka sjálft sig og eftirsjáin er mikil,” segir Gunnhildur. Þetta sjái þau greinilega meðal aðstandenda. Sömuleiðis sé mikilvægt að hlúa að þeim sem eiga ástvini í sjálfsvígshugleiðingum, til að styðja við þann hóp aðstandenda og tryggja öruggara bataferli fyrir þann sem veikur er. „Við megum svo ekki gleyma að enn er ákveðinn hópur fólks sem ekki leitar sér aðstoðar og við viljum einmitt ná til þeirra og til þess verðum við að opna umræðuna og efla samtalið áfram,” bætir hún við. Þá nefna þau helst eldra fólk, karlmenn á miðjum aldri, erlenda ríkisborgara og flóttafólk sem dæmi. Þetta séu allt hópar sem Píeta reynir nú með markvissum hætti að ná betur til, enda spyrja geðræn veikindi ekki um aldur, þjóðerni eða stöðu í samfélaginu.

Skaðlegar mýtur um sjálfselsku og athyglissýki verði að uppræta
Einhverjir vilja meina að þegar umræðan um sjálfsvíg verði háværari í samfélaginu verði ósjálfrátt aukning á sjálfsvígum í kjölfarið. Gunnhildur segir þetta ekki stemma og þau sjái frekar aukningu í aðsókn í þjónustuna, þegar slík umræða fer af stað. Hún segir ábyrga umræðu stuðla að því að fólk viti hvert það getur leitað og viti að viðeigandi hjálp standi þeim til boða.

„Mýtur varðandi sjálfsvíg geta valdið því að fólk skammast sín og leitar sér síður hjálpar. Að tala um sjálfsvíg sem sjálfelsku eða athyglissýki er ekki hjálplegt þar sem okkur ber alltaf að taka því alvarlega ef einhver greinir frá sjálfsvígshugsunum. Að baki er oft á tíðum óbærilegur sársauki sem fólk sér ekki fram úr sjálft og þarf á aðstoð að halda,” segir Gunnhildur.  „Sjálfsvígshugsanir eru ekki merki um veikleika heldur mikla vanlíðan og sársauka,” segir Einar. „Við höfum sannarlega tekið eftir vitundarvakningu almennt varðandi geðheilbrigði og það skiptir miklu máli. Með því að fá umræðuna upp á yfirborðið átta flestir sig á því að öll erum við að upplifa allskonar áskoranir í lífinu, það er gott að geta talað um þær við traustan vin eða fagaðila til að finna sinn takt,” segir Einar.

Einar og Gunnhildur eru sammála um að þó samfélagið sé almennt orðið opnara sé kerfið sé alltaf nokkrum skrefum á eftir. Þau segja að í ljósi þess fjölda sem glímir við geðræn vandamál sé alltaf mikil þörf á umræðu og samtali allra þeirra sem sinna einhverskonar geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þá megi samvinna félagasamtaka vera öflugari og markvissari, enda séu þau öll með einum eða öðrum hætti að vinna að sama markmiði – bættri geðheilsu þjóðarinnar.

 

 

Nálgist viðtalið í heild sinni inn á vef Birtíngs  – www.birtingur.is

Á vef Birtíngs er að finna fullt af áhugaverðum viðtölum.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!