KVENNABLAÐIÐ

Sjálfstæðar og kraftmiklar hrútskonur:„Sjaldgæft „kemestrí“ á milli okkar sem er algjört gull þegar farið er út í svona geðveiki“

Texti: Lilja Hrönn Helgadóttir / Myndir: Thelma Arngrímsdóttir  

Mágkonurnar Diljá Ólafsdóttir og Elín Björg Björnsdóttir eru báðar sjálfstæðar og kraftmiklar hrútskonur og þegar drifkrafturinn sem í þeim býr er lagður saman þá gerist alltaf eitthvað ótrúlega skemmtilegt og spennandi.

Það var einmitt þegar þær voru að deila draumum sínum með hvor annarri að hugmyndin að FOU22 kviknaði. „Okkur dreymdi báðum um að vinna sjálfstætt og höfum báðar mikinn áhuga á tísku, hönnun og framleiðslu. Við fundum fljótt fyrir rosalega góðu og sjaldgæfu „kemestrí“ á milli okkar sem er algjört gull þegar farið er út í svona geðveiki. Við vorum báðar sammála um það að við vildum ekki gera þetta einar og ekki með hverjum sem er; það þyrfti að vera hið fullkomna „combó“. Við fundum fljótt fyrir því hvað hlutirnir gerðust hratt þar sem við erum báðar með stóra drauma og komum þeim fljótt í verk.“

Elín hefur unnið við sölu- og markaðsmál fyrir tískubransann í Danmörku síðastliðin tólf ár og unnið með mörg vel þekkt skandinavísk og alþjóðleg fatamerki. Elínu hefur alltaf dreymt um að reka sína eigin fataverslun og eftir mörg ár í Kaupmannahöfn og með stórt tengslanet bjó hún að mikilli reynslu og tengslum sem nýttust við stofnun FOU22. Diljá er einnig mikil tískuáhugakona og er með bæði menntun og víðtæka reynslu í markaðsmálum. Hún er drífandi karakter sem þarf helst að vera með öll járnin í eldinum í einu. Diljá er alltaf að koma með nýjar hugmyndir og það er ekkert sem stoppar hana þegar hún er búin að ákveða eitthvað; kostur sem er ávallt nauðsynlegur í eigin rekstri.

Endurnýting að leiðarljósi 
Ég spyr Elínu og Diljá hvort þær hafi verið að reyna að fylla upp í eitthvað gat á markaðnum þegar þær ákváðu að taka af skarið og stofna FOU22. „Þegar Fou22 var að verða til þá voru til „second hand-búðir- og -leigur en engin búð með þessi merki eða „pre-loved concept“. Okkur fannst vanta nútímalega netta verslun sem væri „online“, með sýningarrými og með endurnýtingu og vistænan kost að leiðarljósi en samt með persónulega þjónustu þar sem við kynnumst kúnnanum og kúnninn okkur. Verslun sem væri mjög virk  og persónuleg á samfélagsmiðlum þar sem kúnninn getur fylgst með öllu ferlinu, gefið álit og fengið ráð.“

„Okkur finnst notalegt að fá kúnna í heimsókn í rólegheitum þar sem þau geta mátað í þægilegu umhverfi og jafnvel fengið sér einn kaffibolla.“

Fyrst voruð þið bara á vefnum en núna eruð þið með sýningar- og verslunarrými. Hvernig gengur það? „Við erum komnar með sýningarrými í Hamraborg 7. Það gengur ótrúlega vel og við fáum góða tengingu við kúnnann. Við munum líklegast alltaf halda í „sýningarrýmis- conceptið“. Okkur finnst notalegt að fá kúnna í heimsókn í rólegheitum þar sem þau geta mátað í þægilegu umhverfi og jafnvel fengið sér einn kaffibolla.“

Hvernig virkar „pre-loved“? 
„Pre-Loved“ er einstakt fyrirbæri sem engar aðrar verslanir á Íslandi hafa boðið upp á. Þegar vara er keypt hjá FOU22 gefst viðskiptavininum tækifæri á að senda hana til baka innan 12 mánaða ef varan er í ágætu standi. „Við sendum þér inneign fyrir 40% af því verði sem upprunalega var borgað. Nú getur þú verslað nýja eða notaða vöru á FOU22. Við tökum upprunalegu vöruna, hreinsum, gufum, gefum henni nýtt líf og seljum hana aftur á sanngjörnu verði á FOU22 undir „Pre-loved-vöruflokknum“.“
„Pre-loved“ fellur innan þess að vera það sem er talað um sem vistvæna tísku í dag. Ég spyr þær stöllur hver séu þeirra helstu áhersluatriði þegar kemur að tísku og umhverfisvernd. Og hvernig tengjast tíska og það að vera vistvænn?  „Öll merkin sem við kaupum inn eru framarlega í umhverfismálum. Þessi merki framleiða einungis eftir eftirspurn og magni sem við sem heildsölukúnni bindum okkur við. Þess vegna erum við yfirleitt að kaupa inn fjóra til sex mánuði fram í tímann sem er framleiðslu- og afhendingartími frá því pantanir eru gerðar. Einnig eru öll okkar merki með BCI-bómull (Better Cotton Initiative) sem þýðir að framleiðslan á bómull er lífræn og undir ströngum kröfum þegar kemur að ræktun og siðferðilegum vinnuskilyrðum; góð laun fyrir bændur, minni eiturefnanotkun og skynsöm framleiðsla svo eitthvað sé nefnt. Við kaupum mikið af textílum úr endurunnum efnum og með “Pre-loved-conceptið“ í huga.“

Þakklátar fyrir fjölskylduna og vini 
Ég spyr þær hvað þessi vegferð hafi gefið þeim. „Það skemmtilegasta er allt fólkið sem við höfum kynnst í kringum þetta verkefni. Kúnnar, samstarfsaðilar, áhrifavaldar og að sjá hvað fólk getur verið geggjað og hjálpsamt. Við höfum oft lent í því að detta í faðmlag við kúnna sem við höfum aldrei hitt af því að við erum búnar að spjalla svo mikið við þau í gegnum samfélagsmiðla þannig að okkur líður eins og við þekkjum þau! Við höfum líka valið að fara ekki hina hefðbundnu leið. Við höfum oft talað um að þegar við sjálfar vorum að vinna í tískuverslunum á yngri árum hvað allt þurfti að vera stíft og ópersónulegt. Ekki setjast niður, ekki borða fyrir framan kúnna og ekki krossleggja hendur. Alltaf koma með sömu línuna: „Góðan daginn, hvað get ég aðstoðað þig með?” Okkur þykir miklu skemmtilegra að taka á móti kúnnum eins og við komum til dyranna. Kannski með croissant og kaffi í hendinni, spyrja til nafns og út í kúnnann.

„Okkur þykir miklu skemmtilegra að taka á móti kúnnum eins og við komum til dyranna. Kannski með croissant og kaffi í hendinni, spyrja til nafns og út í kúnnann.“

Við höfum oft lent í því að vera að gefa brjóst eða skipta á bleyju þegar flottur kúnni kemur inn og það er bara geggjaður „icebreaker“ og stemmningin og samskiptin verða bara náttúrulegri og skemmtilegri fyrir vikið. Samkeppnin er gríðarleg og þú þarft að koma með eitthvað „annað” en þú færð hjá risastórum fyrirtækjum sem vinna með það sem stór fyrirtæki geta boðið fram yfir þau minni. Þau eru oft með fjárfesta, vélmenni sem pakka vörunum og bjóða upp á sendingarþjónustu sem við skiljum ekki hvernig sé möguleg. Einnig höfum við verið einstaklega heppnar með bakland. Mamma Elínar og tengdamamma Diljáar hafa reynst okkur sem rosalegur stuðningur og hjálpað okkur svakalega mikið. Pabbi/tengdapabbi borað í veggi og karlarnir okkar málað og útréttað fyrir okkur þegar við höfum þurft á aðstoð að halda. Vinkonur sem hjálpa án þess að blikka. Við erum mjög þakklátar fyrir þau öll,“ útskýra þær með bros á vör.

Að lokum spyr ég hver mesta áskorunin hafi verið í öllu þessu ævintýri sem er FOU22. „Erfiðast hefur verið hvað við höfum báðar þurft að halda mörgum boltum á lofti. Á þessum tveimur árum höfum við báðar eignast börn, með tvö lítil fyrir, við búum í sitthvoru landinu og í 100% vinnu á öðrum stöðum. Það hefur reynst flókið að blanda öllu saman en hefur samt alltaf gengið upp á endanum. Við settum fókus á að gera það sem við getum í öllum aðstæðum og vera jákvæðar og þá einhvern veginn reddast allt.“

 

Inn á vef Birtíngs – www.birtingur.is er að finna fullt að áhugaverðum viðtölum við fólk víðsvegar um landið.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!