KVENNABLAÐIÐ

Er í lagi að skilja hund eftir einan í bíl á góðviðrisdögum?

Stefán H. Kristinsson birti færslu á Hundasamfélaginu með góðum ráðum fyrir hundeigendur varðandi hunda og bíla. Hvað er best að gera og hvað á maður að gera ef maður sér hund einan lengi í bíl í steikjandi hita?

Auglýsing

Hundeigandi:

* Ef sól og hiti eru mikil þá er gott að skilja hundinn eftir heima ef þess er kostur.
* Ef fólk býst við því að vera lengur en fimm mínútur að klára erindi sitt (t.d. fara í búð) þá er nauðsynlegt að hafa góðar rifur á gluggum bílsins.
* Reynið að finna stæði á skuggasvæði.
* Ef það er hægt, leggið bílnum þvert á vindáttina þannig að vindurinn komi sem beinast á opnu gluggana.
* Ef um mikinn hita er að ræða þá er einnig gott að hafa vatn í boði fyrir hundinn. Hægt að fá ferðavatnsdalla sem erfitt er að hella niður úr.
* Það munar miklu að hafa litaðar rúður í bílum.
* Ef fólk býst við að erindið verði lengra en 15 mínútur þá væri æskilegt að fá einhvern til að sitja með hundinum í bílnum til öryggis – ekki einungis vegna hitans.
* Kælið bílinn vel með því að setja miðstöðina á kaldasta og mesta blásturinn í 5-10 mínútur.
* Það er hægt að kaupa veðurstöðvar sem senda upplýsingar beint í símann þannig að þú getur fylgst með hvort að hitastigið í bílnum sé að verða of hátt.

Auglýsing

Sé hundur einn í bíl:

* Hversu mikill hiti er og eru ský til staðar sem blokkera sólina?
* Fylgist með úr fjarlægð. Er hundurinn að gelta og getur verið önnur ástæða fyrir því en hiti, t.d. fólk að fara framhjá bílnum.
* Ef geltið er stöðugt og að því er virðist engin ástæða fyrir því önnur en hiti eða kannski aðskilnaðarkvíði þá er hægt að fara nær og skoða betur aðstæður.
* Er hundurinn móður og blásandi? Ef já, þá hringja á lögregluna og lýsa aðstæðum fyrir henni uppá næstu skref.
* Alltaf að halda yfirvegun í aðstæðunum sama hverjar þær eru.

Færslan er birt með góðfúslegu leyfi Stefáns