KVENNABLAÐIÐ

Konur eru aðalskipuleggjendur Eistnaflugs 2018!

Þær Magný, Helga Dóra og Erna eru þrjár af fjórum skipuleggjendum hinnar trylltu tónleikahátíðar Eistnaflugs sem fram fer þann 11. – 14. júlí á Neskaupstað!

Við hvetjum alla til að skoða hina geggjuðu dagskrá sem nálgast má hér:

eist dagskra

Auglýsing

Einnig eru upplýsingar HÉR 

Eistnaflug byrjaði sem stórt partý í Egilsbúð árið 2005. Stofnandi Eistnaflugs, Stefán Magnússon, hafði flutt austur í Neskaupstað og langaði að halda þar þungarokkstónleika. Tíu árum seinna var Eistnaflug orðið það stórt að húsnæðið Egilsbúð var sprungið og tekin var sú ákvörðun að flytja hátíðina yfir í íþróttahúsið á Neskaupstað, þar sem hún er enn.

Magný Rós situr fyrir svörum hjá okkur hér á Sykri ásamt Helgu Dóru sem eru tvær af fjórum skipuleggjendum hátíðarinnar ásamt Birgi og Ernu. Magný er meðal annars fjármálastjóri Eistnaflugs. Hún segist hafa byrjað að vinna á hátíðinni árið 2015 þegar hún flutti úr Egilsbúð yfir í íþróttahúsið: „Það var svo í janúar 2017 sem ég byrja að starfa með framkvæmdastjórn hátíðarinnar og tek svo við sem fjármálastjóri í ágúst 2017.”

Magný og Helga
Magný og Helga

Helga Dóra og er yfirmaður miða- og varningasölu á svæðinu auk þess sem hún starfar í framkvæmdastjórn Eistnaflugs: „Ég hef unnið í varningasölu fyrir fullt af hljómsveitum í gegnum árin, þeirra á meðal eru Dimma og Sólstafir. Ég kem inn í Eistnaflug þannig að ég vinn á hátíðinni við að selja varning fyrir hljómsveitirnar mínar og við stækkunina var ákveðið að sameina mína sölu og varningasölu Eistnaflugs. Út frá því hefur aðkoma mín að hátíðinni orðið meiri.”

Konur og þungarokk: Hvernig á það saman? 

Þær Magný og Helga segja konur séu enn í minnihluta sem áhorfendur í senunni en telja að bilið á milli fari minnkandi: „Hljómsveitirnar eru ennþá í stórum hluta karlmenn, en konurnar eru margar hverjar í skipulagningu tónlistarhátíða, eru umboðsmenn og vinna í plötuútgáfum,” segja þær. „Þannig að metalbransinn er með jafnari kynjahlutföll en sjást á tónleikum. Gott dæmi er stjórn Eistnaflugs, við erum fjögur sem stjórnum hátíðinni og þar af er einn karlmaður. Ef við tökum þetta lengra þá erum við með stóran framkvæmdahóp á bakvið okkur og samanstendur hann að stórum hluta af konum.”

Mun verða sól á hátíðinni? Er veðrið á Austfjörðum búið að vera betra en í borginni í sumar?

Helga og Magný segjast nú sitja í 16 stiga hita í sól á Neskaupsstað og safna freknum! „Veðrið fyrir austan hefur verið virkilega gott í sumar og það spáir vel fyrir hátíð. Hér hefur verið 15-20 stiga hiti, hlý gola og sól meira og minna í allt sumar og vonum við að það verði ekki lát á.”

Hvað er það besta við Neskaupstað? 

Þær stöllur eru sammála um að fólkið sé það langbesta við Neskaupstað: „Við gætum ekki haldið þessa hátíð ár eftir ár ef það væri ekki fyrir allt þetta yndislega og hjálpsama fólk sem býr hér. Bærinn stendur við bakið á okkur og hjálpar til við skipulagningu og tekur á móti okkur opnum örmum.”

Auglýsing

Á laugardagskvöldinu breytast hörðustu þungarokkarar í diskódrottningar!

 Aðspurðar segja þær Helga og Magný að Eistnaflug sé aðallega þungarokkshátíð en undanfarin ár hafa alltaf verið tónlistaratriði á milli sem ekki flokkast þar undir.

Magný segir að eftirminnilegustu atriðin hafi verið að sjá stóru þungarokksböndin á sviði sem hún hefur verið að hlusta á í gegnum árin, t.d. Behemoth, Amorphis og Bloodbath svo eitthvað sé nefnt.

 Helga segir: „Ég er aðeins mýkri þungarokkari en hinar stelpurnar. En ég er alltaf spenntust fyrir íslensku böndunum og gæsahúðin að standa uppi og sjá þau spila á alþjóðlegri tónlistarhátíð í Neskaupsstað er dásamleg. Maður er búin að fylgjast með þessum hljómsveitum í gegnum árin og það er svo gaman að horfa á þau blómstra og dafna og trylla lýðinn. Að mínu mati er hápunktur hvers ár partýið á laugardagskvöldið. Þegar meira að segja hörðustu þungarokkarar breytast í diskódrottningar og dansa á fullu hvort sem það er við tónlist Páls Óskars eða FM Belfast!”

Þær stöllur segja þó að ballið hans Páls Óskar árið 2016 sé líklega það eftirminnilegasta þó: „Það var ógleymanlegt þegar þungarokkararnir báru Pál Óskar í gúmmíbát yfir allt „crowdið” og í framhaldinu myndaðist „mosh pittur” undir tónum diskósins.

Helga og Magný búast við fleiri gestum á Eistnaflug heldur en í fyrra og hefur miðasala gengið mjög vel, enda vilja tónleikagestir fá pásu frá rigningunni í Reykjavík!

Biggi
DJ Farhreinheit

Boðið er upp á dagpassa fyrir hvern dag og helgarpassa fyrir föstudag og laugardag. HÉR MÁ KAUPA MIÐA 

VIP miðar voru til sölu en seldust upp þetta árið.

 

Hvað með gistingu á staðnum?

„Það er nóg pláss í Neskaupstað fyrir alla, er reyndar farið að fækka gistimöguleikum, þar sem hótelin og gistiheimilin eru farin að fyllast hratt. En það er alltaf nóg pláss á hátíðar tjaldstæðinu á Bökkum,” segja þær Magný og Helga Dóra.

Fjölskylduhátíð

Eistnaflug er hátíð fyrir alla sem vilja skemmta sér fallega í góðra vina hópi. Börn mega koma í fylgd með fullorðnum og mega vera inni til kl 23. Börn undir 12 ára fá frítt inn.

GusGus
GusGus

Bannað að vera fáviti!

Alla fjóra dagana eru AA fundir haldnir í hádeginu á Hótel Hildibrand klukkan 12:05.

Helga og Magný segja AA samtökin hafa byrjað í fyrra að halda fundi á Eistnaflugi og hefur verið mikil ánægja með það: „Gott að geta byrjað daginn á fundi.”

„Bannað að vera fáviti” er slagorð sem Stebbi byrjaði á á sínum tíma, segja þær. „Þetta slagorð hefur sem sagt fylgt okkur frá upphafi. Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á að þú átt ekki labba framhjá ef þú sérð einhvern í vanda, þetta er hátíð þar sem allir eru vinir og ef þú sæir einhvern með leiðindi og vesen þá áttu að fara og faðma hann, það er ekkert djöfulsins rugl og bannað að vera fáviti.”

Meira en helmingur dyravarða á hátíðinni eru konur (sjö af 12). Þetta eru aðallega eldri konur sem taka móðurlega á gestum og ná betur að halda uppi reglunni um að bannað sé að vera fáviti.

Amma andskotans
Amma andskotans

GusGus – aðalpartýið á laugardagskvöldið

 Mikil spenna er fyrir tónleikum GusGus á laugardagskvöldið: „Það er mikil stemmning fyrir GusGus innan okkar raða og hjá Austfirðingum almennt, og mikil spenna fyrir þeim. Við erum svo með tvo dj-a sem ætla að loka kvöldinu en það er DJ Fahrenheit og Amma andskotans. Við verðum með dragdrottningar til að hjálpa okkur að fagna fjölbreytileikanum. Amma andskotans er dragdrottning og er einn af dj-unum á laugardagskvöldið. Hún hefur dragdrottningar- og kónga með sér í liði. Fögnum fjölbreytileikanum og gender-bendum Austfirði! Við getum lofað stórkostlegri diskóstemmningu fram á nótt. Má nefna að hægt er að kaupa sig sérstaklega inn á laugardagskvöldið frá miðnætti bæði á tix.is og í hurð!” segja þær stöllur og eru greinilega afar spenntar fyrir Eistnaflugi þetta árið.

Smelltu hér til að fara á heimasíðu Eistnaflugs! 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!