KVENNABLAÐIÐ

Fimm skotheld mótefni gegn skammdegisþunglyndi

Og þá er sá tími ársins í nánd; sjálft skammdegið. Meðan einhverjir undirbúa nýja skólaönn brátt fer í hönd, örfáir renna hýru auga til fjarlægra sólarstranda og stöku vinur í hópnum er farinn að tralla gamlar íslenskar vísur í tilefni af yfirvofandi Þorra eru þeir öllu fleiri sem kvíða óhjákvæmilegum dragbít síðvetrarmánaða; sjálfu skammdegisþunglyndinu og þeirri armæðu sem snjóþungir morgnar bera með sér.

Þunglyndi getur að vísu stafað af mörgum og ólíkum orsökum, en árstíðabundin þyngsli eru hins vegar ekki með öllu óþekkt. Svo algengur er vandinn, þó fáir viðurkenni armæðuna sem fylgir myrkustu stundum ársins, að notkun þunglyndislyfja hefur löngum verið mest á Íslandi og farið vaxandi undanfarin ár.

Auglýsing

Vissulega eru rætur þunglyndis fjölmargar og flóknar. Stíga skal varlega til jarðar áður en nokkuð er alhæft í þessum efnum og í einhverjum tilfellum geta lyfjagjafir ekki einungis verið nauðsynlegar, heldur í ákveðnum tilfellum getur inngrip með lyfjum bjargað mannslífi.

SAD stafar af hægri aðlögun milli árstíða og getur líka herjað á fólk á sumrin

Hér er því einungis hægt að fjalla um þunglyndi sem hellist gjarna yfir landann þegar skammdegið færist yfir. Kaninn er sniðugur og lúnkinn við að gefa hlutunum lýsandi nöfn, en vestanhafs gengur „heilkennið“ undir fagheitinu SAD (Seasonal Affective Disorder) og getur einnig, í örfáum undantekningartilfellum, herjað á blásaklausa borgara um hábjart sumar.

Af hverju stafar slíkt þunglyndi? Sérfræðingar segja líkamann í ákveðnum tilfellum eiga „erfitt um vik með að aðlagast breyttum veðurháttum“ og er hormóninu melatónín, sem stýrir dægursveiflum og getur framkallað syfju ásamt umbrotum í heila, um að kenna, samkvæmt þeim sem til þekkja.

Reykingar, óhófleg notkun Facebook, of margir valmöguleikar og skortur á fiskmeti…

Ákveðnir umhverfisþættir spila einnig þátt; reykingamenn eiga erfiðara um vik með bjartsýnt hugarfar vegna þess að nikótín hefur áhrif á taugamót í heila, sem veldur hærri upptöku dópamíns og serótónin, sem einhverjir segja eiga sök á ávanabindandi þætti reykinga.

Langvarandi setur yfir samskiptasíðum sem leiðir til netfíknar, of margir valmöguleikar í lífinu og jafnvel skortur á fiskmeti í fæðu; þunglyndi getur stafað af ólíkum, samverkandi og lítt þekktum þáttum sem í ákveðnum tilfellum má vinna bug á með breyttum lífsstíl og heilbrigðri ákvarðanatöku.

Hér fara nokkur ráð úr ríki náttúrunnar sem vel hafa reynst og geta hæglega unnið bug á árstíðabundnu þunglyndi. Verið óhrædd við að reyna aðferðirnar í einu lagi eða jafnvel í félagi við hvora aðra:

Auglýsing

Reglubundin hreyfing:

Reglubundin hreyfing getur dregið úr einkennum skammdegisþunglyndis, örvað boðefnaskipti heilans og hjálpað líkamanum að framleiða gleðiboðefnið seratónin. Þá geta æfingar sem gerðar eru 3 – 5 sinnum í viku, hversu léttvægar sem þær kunna að virðast, einnig ýtt undir endorfín framleiðslu líkamans. Og allt er gott í hófi; hálftíma göngutúr í hægri vindátt getur meira að segja gert kraftaverk.

Tilfinningadagbók:

Já. Það getur verið gott að halda dagbók. Þessi aðferð byggir á þeirri kenningu að góð tengsl við eigin tilfinningar geti dregið úr streitu og hjálpað viðkomandi að kynnast eigin viðbrögðum við ólíkum aðstæðum.

Og hvað er viðeigandi að skrifa í dagbókina? Jú, þau atvik sem færðu viðkomandi gleði yfir daginn og auðga lífið. Hversu lítilvægt sem atvikið var, allt er þess virði að skrá niður. Bros getur dimmu í dagsljós breytt. Best er að skrifa bara þegar gleðin grípur viðkomandi og sumir geyma Pollíönnuskrifin undir koddanum, grípa pennann þegar dagur er að kvöldi kominn og hripa nokkur orð. Þakklæti er gott veganesti inn í draumheima.

Örstutt hugleiðsla á hverjum degi:

Hér er ekki átt við djúpan dásvefn sem felur í sér hugljómun, heldur örstutta kyrrðarstund sem kemur ró á hugsanir sem svamla stjórnlausar um hugann og valda róti á lífinu. Hugleiðsla hefur um langt skeið spilað stórt hlutverk í sálarheill mannsins og svo ófáar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi hugleiðslu. Þó alltof langt mál sé að tíunda niðurstöður þeirra sömu er óumdeilt að hugleiðsla hefur slakandi áhrif á huga, styrkjandi áhrif á líkama og afskaplega róandi áhrif á heimilislífið.

Lýsi:

Omega fitusýrur hafa banvæn áhrif á geðvonsku og bæta, hressa og kæta lund. Hér skal ekki fullyrt um einhliða inntöku lýsis, heldur verða fleiri þættir að koma til svo hægt sé að vinna bug á árstíðabundnu þunglyndi, en vissulega hafa fitusýrurnar sem einnig er að finna í feitum fisk uppbyggileg áhrif. Það er ekki að ástæðulausu að þjóðin innbyrti óhemju magn af olíunni á árum áður yfri myrkasta skeið vetrarins…

Stuðningshópar:

Lítt viðurkennd er sú staðreynd að haustin og þar með yfirvofandi skammdegi felur í sér ákveðna fæðingu um leið. Haustin eru upphafstími námskeiða, skólagöngu, leikhúsmiða og einnig í stuðningshópa sem oft leggjast af á sumrin. Einhverjir nýta sér sérsniðin lífstílsnámskeið, aðrir leita þekkingar hjá sjálfshjálparsamtökum að ógleymdum sérsniðnum stuðningshópum. Auðvitað er umrætt úrræði svo ekki einungis bundið við haustmánuðina heldur einnig nýtt ár! Styrkurinn er oftlega fólginn í þeirri staðreynd að viðurkenna þörf fyrir hjálp. Hver var það aftur sem sagði að það væri mannlegt að falla, djöfullegt að liggja en guðdómlegt að rísa að nýju?

Höfundur: Klara Egilson

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!