KVENNABLAÐIÐ

Ég er þakklát fyrir þá sem björguðu lífi drengsins míns

Alma Rut skrifar: Hver einasti dagur er dýrmætur og það er svo gott fyrir okkur að muna eftir því, njóta og gefa okkur tíma með þeim sem við elskum. Eins mikið og við leggjum á okkur til þess að vernda börnin okkar þá er því miður sumt sem við ráðum ekki við…við verðum algjörlega varnarlaus og það eina sem er hægt að gera í þeim aðstæðum er að vera til staðar, elska, vona það besta og treysta Guði fyrir því að allt verði í lagi. Minn versti ótti og mínar verstu hugsanir hafa alltaf verið hræðslan um að eitthvað gerist fyrir strákana mína , fallegu, góðu og yndislegu börnin mín sem eru það mikilvægasta sem ég á.

Axel á Barnaspítalanum
Axel á Barnaspítalanum

Þegar það augnablik verður að veruleika, þú upplifir þinn versta ótta og ert ekkert undir það búinn þá skellur á mann tilfinning og áfall en um leið þarf maður að taka ákvörðun um það hvernig best sé að bregst við og komast í gegnum það. Þú þarft að vera sterk/sterkur og gefa allt sem þú átt í að hugsa um barnið þitt.

Axel og Hafsteinn Freyr, faðir hans
Axel og Hafsteinn Freyr, faðir hans

Á fimmtudaginn var ég heima með Axel, litla strákinn minn sem er 3 ára. Við vorum búin að vera mikið heima í nokkrar vikur því hann greindist með ADEM eða heilabólgur en þá myndast bólgur í heila. Heilkennið heitir á íslensku bráða heila-og mænubólga. Þennan dag var allt gott, við vorum að læra á saumavél til að geta saumað bangsa, hann var hress og lífið eðlilegt. Við Axel fórum inn í rúm klukkan 20:00 og sofnuðum, eftir klukkutíma svefn vekur Axel mig og stuttu seinna missir hann meðvitund, hættir að anda, ég hélt að ég væri að missa barnið mitt.

Axel og Alma Rut, móðir hans
Axel og Alma Rut, móðir hans

Ég er þannig að ef eitthvað er hjá strákunum mínum og ég upplifi óþægilega tilfinningu fyrir því hringi ég strax í 112, um leið og okkur pabba hans Axels fannst hann ólíkur sjálfum sér hringdi ég –  sjúkrabíllinn lagði strax af stað. Næstu mínútur voru skelfilegar og næstu klukkutímar líka. Þetta kvöld var versta lífsreynsla okkar og það eina sem við gátum gert var að biðja bænir og treysta á þá sem hugsuðu um barnið okkar. Við þurftum að treysta fólki sem við þekktum ekki og höfðum ekki séð áður en við sáum að allir þessir einstaklingar unnu að sama markmiði: Að hjálpa barninu okkar.

axel7

Sjúkrabílarnir voru tvær mínútur að koma! Það var aðdáunarvert hversu fljótir þeir voru, margir lögreglumenn og sjúkraflutningamenn hlupu inn heima hjá okkur og gerðu allt til að hjálpa Axeli. Hvert handtak og hver einasta mínúta skipti máli, því þegar fólk missir meðvitund og getur ekki andað þá vitum við vel að staðan er alvarleg.

Auglýsing

Þessir einstaklingar björguðu lífi litla stráksins okkar, þeir eru ástæðan fyrir því að í fanginu mínu liggur lítill ljúfur og dásamlegur strákur sem ég elska svo ótrúlega heitt og ég er svo þakklát fyrir að hann sé hér hjá mér og að hann sé að anda. Hann er á lífi og komin úr öndunarvél.

axel5

Ég er svo þakklát fólkinu sem bjargaði lífinu hans. Fagmennska þeirra einstaklinga sem komu heim til okkar með sjúkrabílum og lögreglubílum, allir þeir lögreglumenn sem stoppuðu umferðina til þess að við kæmumst með barnið okkar eins fljótt og hægt var á spítala, allt starfsfólkið sem tók á móti okkur á gjörgæslu, bráðamóttöku barna og á barnaspítalanum.

Þessir einstaklingar gerðu allt til þess að hugsa um Axel og hjálpa honum að ná bata, þessir einstaklingar vinna við að hjálpa okkur, bjarga og þeir sjá um að bjarga börnunum okkar. Þessir einstaklingar eru þeir mikilvægustu þeir sjá um velferð okkar, öryggi og heilsu við erum heppin að eiga gott fólk í lögreglunni, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða , sjúkraflutninga menn og marga fleiri sem vinna að þvi að bjarga mannslífum. Fyrir það erum við heppin.

Höfundur greinar: Alma Rut

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!