KVENNABLAÐIÐ

Saga Soffíu Drafnar og baráttan við ofbeldið: „Ef þú sparkar í mig einu sinni, sparka ég í þig sjö sinnum“

Nú er tæpt ár síðan Soffía Dröfn Snæbjörnsdóttir losnaði úr ofbeldissambandi sem einkenndist af líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. Fyrrum sambýlismaður hennar smánaði hana daglega og henni fannst hún „föst í fangelsi“ því hún taldi sig vera svo ástfangna af honum.

Í dag blómstrar Soffía og er óendanlega þakklát fjölskyldu sinni fyrir að hafa „bjargað lífi hennar“ eins og hún orðar það, en fjölskyldan mætti hreinlega heim til hennar og vísaði ofbeldismanninum á dyr.

Soffía þá og nú
Soffía þá og nú

Sambandið varði ekki lengi, aðeins í eitt og hálft ár, en það var nógu langur tími fyrir Soffíu að verða heltekin af sambandinu og þörfum sambýlismannsins og þrám; að halda honum góðum svo hann trylltist ekki og beitti hana ofbeldi.

Í fyrstu mundi hún bara eftir góðu stundunum, en ekki lengur. Með mikilli hjálp frá Stígamótum, sálfræðingum og áfallateymi Landspítalans hefur hún náð tökum á lífi sínu á ný, þó andlegu sárin grói kannski seint. „Viðhorf mitt breyttist eftir að ég byrjaði að opna mig um ofbeldissambandið. Það er að hjálpa mér mikið,“ segir Soffía Dröfn.

Ofbeldið hófst mjög fljótlega og fólkið í kringum hana varaði hana við. Hún vildi bara ekki heyra það. Vinkonur hennar vildu alls ekki að hún væri með honum og ein sagði við hana um daginn: „Þú hefðir auðveldlega getað dáið.“ Þær horfðu á hana „hverfa“ og Soffía var á einum tímapunkti komin niður í 44 kíló.

Auglýsing

Soffía skrifaði niður hugrenningar sínar þegar henni leið hvað verst. Á hverjum degi skrifaði hún eitthvað. Eftirfarandi texti er frá slæmu tímabili í lífi Soffíu:

„Þú lítur út eins og grýla, ég horfði á konur eins og þig þegar ég var lítill og fannst þær vera geðveikar. Þú ert búin að lenda í svo miklu að þú ert geðveik.“

Ég segi, ég er andlega búin.

Tilfinningarnar eru svo miklar, allt er svo fokking erfitt, ég næ mér ekki niður. Hann byrjaði á Tinder sem algerlega fokkaði mér upp.

Höfnun og niðurlæging.

Ég hef enga trú á mér lengur.

Ég er kvíðin og fokking ónýt.

Hann setur mig í milljónasta sæti, vill ekki standa mér við hlið í einu eða neinu. Mér finnst eins og hann hafi núll áhuga á mér.

Ég skrifaði ástarbréf og hann las það ekki.

Fokk, þetta er of mikið.

Hann kallaði mig gagnslausa druslu í dag og sagðist hata mig. Hann sagði mér að kaupa Pepsi Max og kjöt. Hann snappaði því hann fann ekki ostaskerann og sagði mér að kaupa nýjan. Ég reyndi mitt besta til hálfníu en fann hann því miður ekki. Ég vissi hann myndi spila tölvuleikinn á meðan ég var að skutlast í þessu fyrir hann. Sagði við mig: „What the fuck“ að ég ætlaði með son minn í sund, því ég átti að elda fyrir hann og ganga frá eftir kvöldmatinn sem ég eldaði.

Ég er honum einskis virði

Honum er skítsama um mig

Er kaldur, reiðist þegar ég græt, segir mér að þegja og hann nenni ekki að hlusta á þetta væl

Hann bilaðist í gærmorgun því hann svaf yfir sig, kenndi mér um að hafa slökkt á vekjaraklukkunni og sagðist vera of góðu vanur með fyrrverandi kærustunni sinni.

Ég geri bókstaflega allt, já allt fyrir hann, en það er aldrei nóg

Ég bið hann um eina klukkustund á dag og þá er það „kannski“ en auðvitað gerir hann það ekki

Af hverju er ég að gera líf mitt að helvíti?

Ég er tóm

hrædd

einmana

meðvirk

Hann kennir mér um allt

Ég þjóna honum, borga allt en hann nær að snúa mér þannig að ég fari að trúa því að ég sé ekki að gera nóg

soff4

Hann gengur aldrei frá eftir sig, hendir öllu frá sér á sófann og segir við mig margoft að ég sé treg og heimsk. Hann kallar mig geðbilaða, fórnarlamb og segir mér að eiga mig.

Hann hrósar mér ekki, eða hann hrósar mér aldrei. Hann kyssir mig ekki.

Hann talar sjaldan við fjölskyldu sína eða son minn. Stundum ef ég er að vinna „leyfir“ hann syni mínum að vera hjá sér. Hann gefur honum ekki að borða, segir honum að redda sér og ef hann biður um aðstoð við heimalærdóminn neitar hann og segi honum að gera það sjálfur.

Hann setur út á uppeldi foreldra sinna en hann er miklu, miklu, miklu verri sjálfur.

Hann skipar mér fyrir og ef ég geri það ekki sem hann segir mér að gera þá afneitar hann mér og talar ekki við mig. Hann heldur nær aldrei utan um sig, lætur mig klóra sér uppí rúmi og það eru einu skiptin sem við erum saman. Þó svo ég sé að fara í vinnuna daginn eftir og ég vinn marga tíma á dag, er honum alveg sama. Hann segir mér bara að klóra sér þar til hann sofnar.

Ég er í ástarsorg daglega. Ég skil ekki af hverju hann er svona. Þori ekki að ræða við hann. Loka mig inni og held í vonina að einn daginn breytist hann…en ég hef enga trú á því.

soff7

Hann gerir ekki handtak. Hann spilar bara tölvuleiki, ég elda fyrir hann og hann sefur.

Hann gleður mig ekki. Hann færir mér ekkert. Líf mitt snýst að þóknast honum, hræðslan við að missa hann er svo mikil sem ég skil gersamlega ekki því hann hefur uppá að bjóða, nema vera þarna áhugalaus og ósanngjarn. Sama hversu mikið ég vinn er hann ekki til staðar.

Hann svarar ekki símanum nema þegar honum hentar. Hann skellir á og einu skiptin sem hann sýnir áhuga er þegar hann er að djamma með vinum sínum.

Ég er gersamlega búin á því. Það getur enginn hjálpað mér nema ég sjálf.

Vil ég svona líf?

Vil ég vera elskuð?

Vil ég ást og umhyggju?

Vil ég geta blómstrað í lífinu?

Það er ekki hægt þegar ég er svona föst.

Hvernig væri að búa ein með syni mínum?

Koma heim í hreina íbúð og öruggan stað.

Ég ætla að vinna mig út úr þessu einn daginn.

Ef hann breytist ekki, sem ég held hann geri ekki, því hann er ekki með mér út af ást, heldur þægindum.

soff92

Eitt dæmi um ofbeldi

Soffía segir frá: „Dag einn kom ég heim úr vinnunni. Hann biður mig að stoppa í Hagkaup að kaupa Pepsi Max, sem ég geri. Pepsi Maxið var ekki nógu kalt þannig hann kýlir mig í magann. Ég fer að hágráta. Hann segir mér að halda kjafti. Stendur upp og brýtur í mér rifbein. Tekur svona körfu sem teppin eru í, úr járni, og kastar í mig þannig viðbeinið hinum megin brotnar. Þannig ég var rif- og viðbeinsbrotin. Ég ákvað að fara til læknis, keyri niður á slysó, hann eltir mig þannig ég gat ekki farið. Gat ekki fengið áverkavottorð. Í öll þessi skipti sem hann lamdi mig.“

Auglýsing

Ferðalag

Parið fór til New York yfir jólin. Hann hafði sagt rétt áður en þau lögðu af stað að hann vildi vera „á lausu.“ Hann var mjög kaldur við hana og henni leið ömurlega. Soffíu fannst eins og ferðin væri ónýt. Hún skrifar: „Vantar að hann segi við mig að hann elski mig og hann meinti þetta ekki. Hann lofaði að segja þetta ekki aftur en ég veit ekkert hvar ég hef hann. Eina mínútuna elskar hann mig út af lífinu og þá næstu vill hann losna úr þessu ömurlega sambandi.“

Hann skildi Soffíu eftir í miðbæ New York, en hann vissi hversu hrædd hún var í borginni: „Honum var alveg sama. Síminn minn var dauður og ég var ekki með pening og íbúðin okkar var í New Jersey og ég vissi ekki neitt.“

soff1

Heilaþvotturinn var mjög öflugur. Það situr mjög í Soffíu það sem hann sagði við hana: „Þú byrjar með einhverjum manni, hann sér hvað þú ert geðveik og fer frá þér. Svo byrjarðu með öðrum og það sama gerist. Svo fer sonur þinn frá þér líka og þú endar á því að drepa þig.“

Soffía segir hann hafa oft kallað sig ógeðslegum nöfnum: „Mellu, gagnslausa gellu, sóðalega, vangefna, einskis nýta, ömurleg kærasta, hef aldrei kynnst jafn heimskri manneskju.“

Hann hefur mig algerlega í vasanum. Ég hræðist að vera án hans, en samt líður mér ekki vel með honum og gæti blómstrað upp á nýtt. Hann er með völd. Ég á að horfa á hann þegar hann talar, annars verður hann brjálaður, neikvæður, skipar mér að gera hluti annars fer hann í tölvuna eða lætur mig eltast við sig. Ég er óörugg, leið, sár, ég er vonsvikin. Hann notar mig, felur hluti fyrir mér, svarar aldrei símanum sínum, gerir ekkert fyrir mig. Ég þóknast öllu sem hann segir, ég er svo hrædd við höfnun. Ég er svo undirgefin honum. Vill ekki vera með mig í kringum vini sína, talar niður til mín, vill ekki vera í kringum mig, hrósar mér aldrei, í tölvuleik alltaf, alla daga, segir mig vera tregustu manneskju sem hann veit um, hann pirrast alltaf við mig.

(Úr glósum Soffíu)

Fjölskyldan skerst í leikinn

Eitt skipti varð hann reiður vegna afskipta fjölskyldu Soffíu. Hann vildi að Soffía fengi það borgað: „Og hann barði mig og barði mig og barði mig. Hann sagði alltaf við mig: „Ef þú sparkar í mig einu sinni, sparka ég í þig sjö sinnum.““

Foreldrar Soffíu ásamt bróður hennar fóru heim til hennar þegar hún var í vinnunni. Þegar hún kom heim var ekkert af dótinu hans þar lengur. Soffía reiddist foreldrum sínum og fór á móti fjölskyldunni sinni: „Ég var bara svo blind á hann. Hann hótaði mér og heilaþvoði mig að þau réðu ekki yfir þrítugri konu.“ Soffía Dröfn hélt áfram að hitta manninn eitthvað eftir þetta, en sá svo að þetta væri „algert rugl“ eins og hún segir. „Ég elska þau út af lífinu í dag. Segi þeim það á hverjum degi hvað ég er þakklát fyrir þau,“ segir Soffía.

soff11

Í dag

Soffía er komin á gott ról í dag. Hún er komin með góða vinnu, heimilið er alltaf hreint, hún er aukaþjálfari hjá Dale Carnegie: „Það gerir mjög mikið fyrir mig,“ segir hún glöð.  Soffía er dugleg að æfa og er mjög hraust.

„Hann bannaði mér að vera í hælaskóm, kallaði mig glennu“ segir hún, en í dag nýtur hún þess að klæða sig upp án afskipta nokkurs.

Sonur Soffíu er á góðu róli í dag eftir að hafa hlustað á manninn rakka móður sína niður kvöld eftir kvöld. Honum gengur mjög vel að sögn Soffíu.

Skilaboð Soffíu til annarra kvenna sem lent hafa í svipuðum aðstæðum er að opna á umræðuna og loka sig ekki af: „Í dag er ég mjög stolt af mér. Ég er hetja.“

soff8

 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!