KVENNABLAÐIÐ

Lífstykkjabúðin hefur lifað tímana tvenna: Eitt elsta starfandi verslunarfyrirtæki landsins

Lífstykkjabúðin var stofnuð árið 1916 af Elísabetu Kristjánsdóttur Foss, sem var 26 ára ekkja og tveggja barna móðir. Elísabet hafði numið lífstykkjasaum í Danmörku, m.a. hjá tískuhúsinu Illum í Kaupmannahöfn. Verslunin seldi fyrst og fremst nærfatnað fyrir konur og barnaföt. Samhliða versluninni var um langt árabil starfrækt saumastofa þar sem saumuð voru lífstykki, brjóstahöld og mjaðmabelti á íslenskar konur.

lifst-1

Auglýsing

Þetta segir meðal annars á Wikipediu um sögu Lífstykkjabúðarinnar:

„Fyrirtækið varð fljótlega nær einrátt í framleiðslu á lífstykkjum, brjóstahöldum og magabeltum hérlendis.
Það hóf starfsemi sína í Hafnarstræti 9 og hafði þá yfir einni saumavél að ráða en þegar mest var
störfuðu hjá fyrirtækinu 6-9 stúlkur við afgreiðslu og saumaskap.“

Svona hljómaði auglýsing í kvenréttindatímaritinu Melkorku þann 1. maí árið 1944:

Lífstykkjabúðin h.f. saumar eftir máli frúarbelti og brjóstahaldara.

Konur! Komið og skoðið úrval af allskonar barnafatnaði og barnakápum. 

Lífstykkjabúðin h.f.Hafnarstræti 11. Sími 4473

Og svona í tímaritinu Fálkanum 28. apríl, 1939:

Lífstykkjabúðin

Lífstykki – Brjósthöld – Korselet

Loksins komin hin langþráðu Gúmmíbelti.

Litlar birgðir, því seld aðeins gegn staðgreiðslu.

Lífstykkjabúðin, Hafnarstræti 11.

 

En verslunin þjónaði ekki einungis íslenskum konum á fyrri hluta 20. aldarinnar heldur einnig sjómannastéttinni þar sem hún framleiddi og seldi vinsæl stuðningsbelti fyrir sjómenn sem stunduðu mikla erfiðisvinnu á þessum tíma.
Lífstykkjabúðin hefur í gegnum áratugina verið staðsett á nokkrum stöðum í miðborg Reykjavíkur: Kirkjustræti, Hafnarstræti og lengst af á Laugavegi 11. Eins og gefur að skilja hefur gengið á ýmsu í rekstri fyrirtækisins í gegnum áratugina. Þann 12. desember 1941 brann verslunin til kaldra kola og unnu lögreglumennirnir Kristján Vattnes og Ólafur Guðmundsson frækilegt björgunarafrek þegar þeir björguðu átta manns af þaki hússins. Á haftaárunum var reksturinn afar þungur þar sem innflutningshömlur og gjaldeyrishöft ollu efnisskorti sem hamlaði vexti og framgangi verslunarinnar og stóð í vegi fyrir aukinni innanlands framleiðslu. Þannig má segja að Lífstykkjabúðin hafi lifað tímana tvenna.

 

Mynd 2. Guðrún Steingrímsdóttir, núverandi eigandi Lífstykkjabúðarinnar ásamt Guðrúnu Lilju Gunnlaugsdóttur listhönnuði.

Núverandi eigandi Lífstykkjabúðarinnar er Guðrún Steingrímsdóttir en hún tók við versluninni árið 1993 af Þóri Skarphéðinssyni og Guðjóni Hólm. Þrátt fyrir langa og litríka verslunarsögu er Lífstykkjabúðin ung í anda og þjónar konum á öllum aldri. Verslunin selur hágæða undirföt frá öllum heimshornum og leggur áherslu á persónulega þjónustu og ráðgjöf.

Auglýsing

Árið 2006 flutti verslunin að Laugavegi 82 og var Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir innanhúshönnuður fengin til að hanna allar innréttingar búðarinnar, þar á meðal þessa glæsilegu ljósakrónu með tilvísun í korselett fyrri tíma, sem sjá má á myndinni að ofan.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!