KVENNABLAÐIÐ

Donald Trump: Maðurinn sem hatar konur

Hvernig getur karlrembusvín á borð við Donald haft svona mikið fylgi? Hann sækist eftir því að verða frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum í nóvember og er á góðri leið með að ná því markmiði.

Donald aðhyllist svokallaðan popúlisma og hagar sínum seglum eftir vindum, þ.e. velur sér það málefni sem brennur heitast á fólki og vill síðan berjast fyrir því eða gegn, eftir því sem hentar. Að ljúka samningum telur hann mikilvægara en eitthvað þvaður á leiðinni þangað, hvort sem hann hefur verið fylgjandi því í fortíðinni eður ei.

Skoðanir hans hafa uppljóstrað hvernig margir Bandaríkjamenn hugsa, að hata útlendinga, banna múslima og ekki síst – hvernig koma á fram við konur. Skoðanir hans í gegnum tíðina hafa einatt borið keim af gamaldags karlrembu og má segja að úreltur hugsunarháttur hans er ógn við lýðræði og jafnrétti hvar sem er.

 

Oprah tekur viðtal við Marla Maples (fyrrverandi eiginkonu hans) um hvort Donald sé „stjórnsamur.“ Ekki láta koma ykkur á óvart hvað hún segir…

 

Þó ótrúlegt megi virðast hefur andfeminísk orðræða og hugsunarháttur hans ekki virst hafa áhrif á fylgi hans…sem flestar vestrænar þjóðir undra sig stórum á, sérstaklega í Evrópu þar sem við erum komin langt miðað við aðrar þjóðir heims. Það virðist frekar auka á fylgi hans en hitt.

Hellisbúaviðhorfið s.s. athugasemdir hans við fréttakonuna Megyn Kelly (að hún sé bara á blæðingum), um andlitið á Carly Fiorina og um hversu vel (að hans sögn) hann er vaxinn niður hlýtur að valda eðlilegu, rétthugsandi fólki miklum áhyggjum. Vinsældir hans má meðal annars rekja til kauðslegra og ógeðfelldra athugasemda hans og umfjöllum í fjölmiðlum þess vegna (já, við erum ekki undanskildar því akkúrat núna.)

Trump vill að við vitum að hann er kynferðislega aktífur og telur ekkert að því. Hann upphefur sig sjálfan á grundvelli þess valds sem hann hefur, bæði gagnvart konum og körlum. Að koma fram við konur sem þær séu kjötstykki er forsenda þess að sigra, samkvæmt honum. Sigur er einungis mögulegur ef hann tekur aðra niður með sér í leiðinni.

Eineltisseggurinn og vandræðagemsinn

„Þú ert kóngurinn,” sagði faðir Donalds oft við hann. Donald fæddist með silfurskeiðina alræmdu í trantinum þar sem faðir hans var afkastamikill og auðugur fasteignasali sem hafði óbilandi trú á syni sínum. Donald var alinn upp við að hann mætti setja sjálfum sér hvaða reglur sem honum hugnaðist. Í grunnskóla kýldi hann kennara sem fékk glóðarauga af þeim völdum og hann lagði bekkjarfélagana í einelti með háðsglósum og henti í þá strokleðri.

Auðæfi föður hans voru þó ekki eingöngu mótandi fyrir Donald sem fór 13 ára gamall í New York Military Academy þar sem hann var mótaður af harðræði. Þú átt að vera einbeittur og jafnvel beita skólafélaga þína ofbeldi, eða vera beittur ofbeldi: „Í þessa daga börðu þeir þig í klessu,” hefur Donald sagt. „Það var ekkert eins og í dag – þú lemur einhvern og ferð í fangelsi.”

Þarna lærði Donald að berjast við félaga sína til að komast á toppinn. Samkvæmt heimildum NPR fór Donald á kostum þarna, þegar hann fékk krafta til: Hann reif sængurföt af rúmum þeirra sem ekki bjuggu nógu vel um og hló að þeim í tímum til að „setja þá á sinn stað.”

Leiðin þó sem mótaði hann hvað helst var kynlíf: Að stjórna annarri manneskju á þann hátt var eitthvað sem veitti honum óendanlegt vald. Í menntaskóla voru ummælin um hann í árbókinni á þá leið að hann væri ladies man, eða kvennabósinn. Í leikfimiklefanum átti hann til að monta sig af bólförum sínum við bekkjarfélaga.

Útlitið er allt!

Donald hefur í gegnum tíðina dæmt konur út frá því hvernig þær líta út. Það hefur sumsé allt að segja um hvernig þær eru inn við beinið. Það hefur verið hans stefna alla tíð. Í útvarpsþætti Howard Stern árið 2001 var pistlahöfundur Daily News að nafni A.J. Benza að velta vöngum yfir hvort hann sjálfur hafi verið kokkálaður af Trump. Leiddi hann að líkum að kærasta Benza hafði farið frá honum fyrir Donald. Donald stóðst ekki freistinguna og hringdi í útvarpsþáttinn:  „Ég hef náð virkilega góðum árangri með kærustuna þína, það get ég sagt þér. Á meðan þú varst í flugvélinni á leiðinni til Kaliforníu, trúandi því að þið ættuð frábært samband, var hún á stað sem þú værir ekki ánægður með að vita hver væri.”

Í bók Donalds, The Art of the Deal segir hann:„Ef ég myndi segja hér sögur af reynslu minni af konum, oft konum sem út á við væru hamingjusamlega giftar og mikilvægar samfélaginu, þá yrði þessi bók svo sannarlega metsölubók.”

Þetta darvínska viðhorf, þar sem alfa-karlinn velur sér kvenfólk, upplýsir okkur um minnimáttarkennd viðkomandi – og einnig að hann sé öðrum körlum fremri. Donald hefur oftar en ekki talað um reðurstærð sína opinberlega og oft hefur verið gert grín að honum fyrir að vera með smáar hendur (sem þýðir þá að þú ert með lítið undir þér). Donald lætur engin tækifæri ónýtt þegar kemur að því og ver sinn „manndóm“ með háværri röddu.

Hér má sjá ótrúlegt samansafn þeirra orða og setninga sem Trump hefur sagt um konur í gegnum tíðina

Karlmennskan

Donald telur sig sjálfan vera dæmi um karlmennsku á hæsta stigi og að hann sé best til þess fallinn að vera dómbær á það. Eins og áður sagði – útlit kvenna ber vitni um hæfileika þeirra. Hann átti keppnirnar Miss USA og Miss Universe þar sem hann fór vandlega yfir hvern einn og einasta keppanda. Sagði hann að ástæðan væri sú að það mætti ekki láta einn einasta fallega keppanda fara fram hjá augum dómara en raunverulega ástæðan var að niðurlægja keppendur.

Donald bað keppanda að nefna hverja hún teldi sinn helsta andstæðing (í fegurð). Ef hún nefndi einhverja sem hann taldi sér ekki þóknanlega (eða nógu fallega) fór hún í „ruslið,” þ.e. komst ekki áfram. Einn af keppendunum, Carrie Prejean, skrifaði um reynsluna í sjálfsævisögu sinni Still Standing: „Sumar stelpnanna grétu baksviðs eftir að Donald var farinn. Þær duttu úr keppninni áður en hún byrjaði. Það þýddi líka að þær sem voru kosnar áfram leið líka ömurlega – þetta var eins og við hefðum verið naktar á almannafæri.”

„Þú ert ljót!”

Besta skemmtun Donalds virðist vera að reyna að niðurlægja konur á þeim grundvelli að þær séu „ljótar.” Hann tók þann pólinn í hæðina þegar hann lýsti því yfir að Carly Fiorina kæmist aldrei í kosningabaráttu vegna þess að andlit hennar kæmi í veg fyrir það. Hann hefur lýst leik- og söngkonum á borð við Cher, Bette Midler, Angelinu Jolie og Rosie O´Donnell á ömurlegan hátt til að gera lítið úr þeim: „Feita rassgat,”  „subba,”„virkilega óaðlaðandi,” og með fleiri orðum vegna þess þær dirfðust að gagnrýna hann.

Donald reynir ekki einu sinni að verja sig eða láta af þessari ógeðfelldu karlrembu. Hann sagði í viðtali við Timothy L. O´Brien að uppáhalds senan hans í kvikmynd væri úr Pulp Fiction: „Besta atriðið í myndinni var þegar Sam var með byssuna á sér á veitingastaðnum og henn segir vini sínum að láta kærustuna hans þegja. „Tell það bitch to be cool. Say: „Bitch be cool.” Ég elska þessar setningar.”

Kannski má segja í hnotskurn að viðhorf Donalds Trump mætti lýsa með orðum hans sjálfs í viðtalið við New York magazine í upphafi 10. áratugarins: „Women, you have to treat them like shit.”

Heimildir: The Slate, CNN o.fl

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!