KVENNABLAÐIÐ

Flóttabörnin aðlagast: Þar sem í boði er að vera barn

Björg Kristín Ragnarsdóttir skrifar frá Noregi: Ég er vön að taka strætó í vinnuna á morganana sem er eiginlega dásamleg stund því þá fæ ég tækifæri til að slappa af með kaffibollann minn eftir amstur morgunsins og undirbúa mig undir nýjan dag með hinum börnunum mínum.

Í febrúar bættist heldur betur í fjölda farþega í ferðinni minni þar sem nýjustu aðfluttu íbúar bæjarins hófu skólagöngu sína. En stofnaðar hafa verið deildir í nokkrum skólum bæjarins til að taka á móti flóttabörnum. Ég verð að viðurkenna að fyrsti túrinn okkar saman var ansi tilfinningaþrunginn fyrir mig. Það var magnað að vera partur af vegferð þeirra tilbaka í skólalífið. Spennan lá í loftinu þar sem þau bættust við í strætóinn á hverri stöðinni sem við stoppuðum á.

Þar tók á móti þeim kona sem fann fyrir þau sæti og klappaði þeim og veitti þeim öryggi. Það var bersýnilegt að taugarnar voru þandar og eftirvæntingin blönduð kvíða hjá börnunum. Nú þegar liðið hefur á vormánuðina hafa þau orðið öruggari og öruggari. Nú hafa þau ekki eins mikla þörf fyrir að sitja sem næst konunni góðu. Þau eru farin að hlæja meira og hefur konan meira að segja þurft að sussa á þau af og til.

Björg Kristín Ragnarsdóttir
Björg Kristín Ragnarsdóttir

Og ég finn að ég verð glaðari og glaðari með hverri vikunni því börnin eru farin að haga sér meira og meira sem börn. Þau hafa áttað sig á að hér í Kristiansund í Noregi er í boði að vera barn. Hér geta þau farið óhult, södd og úthvíld í skólann án þess að óttast um líf sitt. En eitt hefur ekkert breyst á þessum tíma. Það eru foreldrar barnanna sem fylgja þeim í strætóinn. Það er létt að sjá á fasi þeirra og augnráði að það er þeim erfitt að sleppa hendinni af barninu sínu. Öll leita þau eftir barni sínu inni í strætóinum í gegnum rúðuna. Heilsa konunni góðu og horfa eftir strætóinum þegar hann keyrir í burtu. Keyrir í burtu með það dýrmætasta sem þetta fólk á.

Börnin sem þau hafa haft svo mikið fyrir að bjarga frá stríði, hungri og ömurlegheitum. Strætóferðirnar mínar þessa dagana eru sönnun þess að við höfum gert rétt. Gleðin í augum barnanna eru sönnun þess að við höfum fylgt lögum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þó að vegurinn framundan hjá þessum börnum sé ekki hinn léttasti með nýju tungumáli og nýrri menningu þá held ég að vegurinn hingað til hafi verið þeim það þungbúinn að hann hljóti að liggja bara upp á við. Ég er fullviss þess að hið ágæta fagfólk skólanna og félagsmála muni sjá til þess. Það er gott að vera góður!

Færslan birtist fyrst á Facebook er er birt með góðfúslegu leyfi Bjargar Kristínar

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!