KVENNABLAÐIÐ

Gwyneth Paltrow grætur í vitnastúku: „Ég er viti mínu fjær af ótta“

Gwyneth Paltrow óttast um líf sitt og ekki að ástæðulausu, en leikkonan hefur glímt við skæðan eltihrelli í nær tvo áratugi og mætti þannig fyrir dómara í Los Angeles síðastliðinn mánudag til að gefa vitnisburð sinn.

Gwyneth, sem hefur lagt fram kæru á hendur Dante Micahel Soiu, sem er 67 ára gamall, segir reynsluna hræðilega, en Dante hefur sent leikkonunni óteljandi bréf og gjafir undanfarin ár. Þessu greinir BBC frá, en bréfin spanna allt frá trúarlegum tilvitnunum til klámfenginna athugasemda og er orðalagið á tíðum beinlínis óganndi, en auk bréfanna hefur Dante látið gjöfum rigna yfir leikkonuna; matreiðslubókum, skartgripum og jafnvel fatnaði.

Í einu bréfinu ræddi Dante nauðsyn þess að hneigja sig djúpt í návist dauðans og í öðru bréfinu ræddi hann einlæga þrá sína til að ganga í hjónaband með Gwyneth. Samkvæmt því sem kemur fram á vef Associated Press brast leikkonan í grát í vitnastúku og sagðist óttast velferð barna sinna.

Ég er dauðhrædd við manninn vegna þess að þessi samskipti lúta engum rökum. Ég hef þurft að lifa við þennan viðbjóð núna í sautján ár, að takast á við þráhyggju þessa manns.

Sjálfur ber Dante við sakleysi sínu, en þetta mun ekki í fyrsta sinn sem samskipti hans við leikkonuna enda fyrir rétti. Fyrir hartnær áratug var hann þó sýknaður á grundvelli geðveilu og dæmdur til vistar á geðsjúkrahúsi í þrjú ár, en þá hafði hann sent Gwyneth klámmyndir, kynlífstæki og ástarbréf þar sem hann sagðist þrá það eitt að hreinsa hana af allri synd.

Þrátt fyrir vistun á geðsjúkrahúsi, hélt Dante þó áfram uppteknum hætti sem nú er fyrir rétti í Los Angeles og tekur á bréfasendingum til leikkonunnar á árabilinu 2009 til 2015. Lögmaður Dante segir innihald bréfanna saklaust og að honum hafi gengið gott eitt til; með kristileg viðhorf í huga en að ætlun hans hafi aldrei verið að hóta leikkonunni á nokkurn hátt.

Engu að síður eru staðreyndir ljósar; Dante hefur hrellt leikkonuna með ljósu lokkana í hartnær tvo áratugi eða heil sautján ár og sagði lögmaður Gwyneth þannig við upphaf réttarhalda að leikkonan væri úrvinda á sál og líkama.

Hún finnur hvergi til öryggis lengur.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!