KVENNABLAÐIÐ

Lærðu að vakna snemma – Svona stillir A-fólkið líkamsklukkuna!

Alveg er það óþolandi að hugsa til þess hversu auðveldlega einhverjir sofna, meðan aðrir liggja í rúminu og bylta sér þar til sólin fer að gægjast upp fyrir sjóndeildarhringinn. Góður nætursvefn er undirstaða andlegrar heilbrigði og þannig vill auðvitað enginn manneskja ganga vansvefta til móts við nýja vinnuviku.

Hér fara fimm notarlegar uppástungur sem gera meira en ætla mætti í fyrstu. Oft liggur svarið ekki bara í augum uppi, heldur er svo einfalt að erfitt er að koma auga á lausnina:

#1 – Farðu fyrr í rúmið:

Rökrétt, ekki satt? Ótrúlegt þó, það eitt að liggja flötum beinum undir sæng og leggja augun aftur slakar á líkamanum og hvílir lúin bein. Litlu skiptir hvort þú liggur andvaka eða festir svefn; líkaminn þarf á hvíld að halda og oftar en ekki er hægt að sefa líkamann með einfaldri slökunartækni, sem svo aftur veldur því að þú sofnar fyrr en varir. Meðalmanneskjan þarf á 6 – 9 tíma svefni að halda á hverri nóttu, svo þurfir þú að vakna klukkan 7 að morgni, skaltu telja u.þ.b. 8 klukkutíma afturábak og fara hjúfra þig upp að koddanum þegar sá tími rennur upp …

#2 – Skapaðu kjöraðstæður að kvöldi …

Kenndu líkamanum ákveðnar kvöldvenjur sem ekki tengjast athöfnum daglega lífsins. Slökktu á sjónvarpinu, leggðu tölvuna frá þér, stilltu vekjaraklukkuna og dragðu úr ljósmagninu. Þannig sendir þú líkamanum þau skilaboð að nú sé dagur að kvöldi kominn. Það sama gildir þegar þú vaknar; stattu upp úr rúminu og gakktu út úr svefnherberginu um leið og þú opnar augun. Teygðu þig strax í farsímann, smeygðu þér í inniskó og taktu morgungeispann frammi í eldhúsi.

#3 – Slakaðu á með öllum ráðum:

Heitt bað að kvöldi, hugleiðsla rétt áður en farið er inn í rúm, róandi tónlist og rjúkandi heitt te. Fylgdu þessari rútínu á hverju kvöldi og mundu, að þú ert að endurstilla líkamsklukkuna. Fróðir segja að líkaminn læri að fylgja nýjum venjum, ef sömu rútínu er viðhaldið á hverjum degi í þrjár vikur. Ef þér hættir til að verða andvaka, mundu þá að þú ert að endurstilla líkamsklukkuna; sýndu því örlitla þolinmæði.

#4 – Leggðu frá þér skjáinn klukkutíma fyrir svefn:

Skjárinn er versti óvinur þeirra sem þurfa nauðsynlega á nærandi nætursvefni að halda. Skjábirtan frá farsímanum eða spjaldtölvunni getur jafnvel dregið úr melatónínframleiðslu líkamans. Kveiktu frekar á náttljósi og taktu upp ágæta bók u.þ.b. klukkutima áður en ætlunin er að leggja aftur augun.  

#5 – Viðhaltu rútínunni á hverju kvöldi:

Auðvitað viltu sofa út um helgar og hangir lengur fram á sófann á laugardagskvöldum. En ágætt er að hafa í huga að uppástungurnar hér að ofan eiga við háttavenjur um virka daga. Það tekur líkamann tíma að aðlagast nýjum venjum, sérstaklega að nýyfirstöðnum hátiðum. Gerðu háttatímann eins aðlaðandi og hægt er. Skiptu reglulega á rúminu, festu kaup á mjúkum náttfötum og komdu litlum leslampa fyrir á náttborðinu. Gluggaðu í jólabækurnar, þær sem leyndust í einhverjum pakkanum – ekki berja höfðinu við stein þó þú hafir legið andvaka í einhvern tíma og haltu uppteknum hætti í einhverjar vikur.

 

Vittu til, oftast er svarið fólgið í einföldum breytingum á daglegum venjum og markmiðin hér að ofan eru vel þess virði að fylgja, enda er góður nætursvefn gulls ígildi.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!