KVENNABLAÐIÐ

S T J Ö R N U M E R K I N: Svona eru BÖRN í Hrútsmerkinu (21 mars til 19 apríl)

Börn í Hrútsmerkinu eru fædd frá 21 mars til 19 apríl: Litlu Hrútarnir eru fæddir leiðtogar; hika ekki við að taka völdin á leikvellinum, leiða hópinn og stilla jafnvel til friðar. Barn í Hrútsmerkinu er fætt til að taka frumkvæði, er hugrekkið uppmálað og er yfirleitt með svörin á reiðum höndum.  

Hrútar eru fæddir leiðtogar og þannig máttu reikna með því að litli Hrúturinn þinn leiði barnahópinn á leikskólanum með færni og fjaðurmögnuðum húmor flesta daga. Þessir skapgerðareiginleikar barnsins geta birst á marga vegu; sumir Hrútar leggja til hvaða leikir henta hinum börnunum, nema auðvitað ef litli Hrúturinn fer ekki bara fyrir halarófunni og skáldar upp nýja leiki.

Þetta gerir að verkum að litlu Hrútarnir geta verið örlítið stjórnsamir. Þessi börn eru kappsmikil, þau búa yfir mikilli atorku og eru fædd til að keppa til sigurs á íþróttamótum. Stundum tekur æsingurinn völdin hjá litla Hrútnum, sem getur fyllst óþolinmæði ef ekki allt gerist strax. Því er mikilvægt að foreldrar hjálpi litla Hrútnum að virkja leiðtogahæfileika sína og kenna honum þolinmæði, hvetja litla Hrútinn til samkenndar og skilnings á þörfum annarra. Litli Hrúturinn þarf m.a. að læra að deila með öðrum börnum – þegar litli Hrúturinn keppir til sigurs í hópíþrótt þarf að ítreka mikilvægi þess að allir í liðinu unnu!

Litli Hrúturinn er sjálfstæður í eðli sínu og hikar ekki við að klifra upp í tré, stinga af á sokkabuxunum einum saman og hefja jafnvel samræður við ókunnugt fólk á götu úti. Litla Hrútnum geðjast oft illa að fara eftir settum reglum, getur sett upp snúð og farið í fýlu ef bönn og boð verða á vegi hans. Á hinn bóginn á litli Hrúturinn ekki í neinum vanda með að hafa ofan af fyrir sér sjálfur – þetta er svo aftur eiginleiki sem getur komið sér vel í önnum hversdagsins, þegar foreldrar standa með hendur fullar af verkefnum og þurfa að treysta því að lítill Hrútur geti dundað sér hjálparlaust í skamma stund.

Litli Hrúturinn fetar sínar eigin slóðir, hlær gjarna hátt og innilega – þarf að fá að blómstra í skapandi umhverfi og þolir illa ofverndun og innilokun. Samtímis þarf litli Hrúturinn að læra að reglur eru settar upp af ærinni ástæðu og að stundum merkir Nei einfaldlega Nei og það af ærinni ástæðu. Stundum eru reglur settar á svo allir geti lifað í sátt og samlyndi hvern við annan.

Þegar litli Hrúturinn er í sínu óskaumhverfi, geislar hann jafna af sjálfstrausti og ævintýragirni. Hrútar eru skapandi og hugmyndaríkir frá náttúrunnar hendi og þetta gerir litlu Hrútana, þegar fram í sækir – oft að framsæknum og skemmtilegum frumkvöðlum. Auðvitað fá litlu Hrútarnir fjölmargar hugmyndir sem hljóma vel en reynast svo hræðilega þegar á hólminn er komið, en það er allt hluti af þroskaferlinu. Litlir Hrútar þurfa að fá að prófa sig áfram innan öryggismarka, þá þarf að virkja vel og þeir þurfa alltaf að hafa verðug markmið að stefna að.

Þess vegna hentar litlu Hrútunum svo vel að takast á við tómstundir, íþróttaiðkun og jafnvel hópíþróttir snemma á lífsleiðinni – svo orka þeirra fái jákvæða og uppbyggilega útrás – að keppniseðli þeirra fái að njóta sín og það sem mest er um vert; þó litlu Hrútarnir séu sjálfstæðir með eindæmum þarfnast þeir áheyrnar. Þeir þurfa umfram allt að finna að þú sem foreldri trúir á öll litlu uppátækin þeirra og hvers þeir eru megnugir í daglegu lífi.

Á næstu dögum munum við birta umfjallanir um börn og stjörnumerkin – fylgstu með, því næst fjöllum við um litla Nautið!