KVENNABLAÐIÐ

„En færðu þá aldrei pössun?”

Það er rétt að ég fæ aldrei pössun fyrir fallega drenginn minn, sem fagnaði sjö ára afmælinu sínu í sumar og býr einn með móður sinni. Ástæðan er einföld; ég bý erlendis þar sem mig skortir tengslanet og þarf að bjarga mér algerlega upp á eigin spýtur.

Það er allt í lagi.

Þess utan er faðir drengsins látinn og því er ekkert um foreldrafrí á þessum bæ, ekkert sem heitir að kaupa flugmiða og senda barnið heim til föðurhúsa, svo ég geti slett úr klaufunum og hegðað mér eins og galin manneskja í nokkurra daga húsmæðraorlofi.

Það er líka í lagi.

Móðir barns sem býr fjarri stórfjölskyldu sinni og á engan föður, verður stór í augum þess litla, sem lítur svo á að saman hljótum við að geta klofið allar heimsins hindranir í herðar niður. Ég er almáttug, ræð ríkjum í lítilli kjallaraíbúð rétt utan við höfuðborg Noregs og rogast heim með matvörupokana án hjálpar. Smyr nesti og kaupi nýja skó. Flokka DUPLO kubba sem brátt verða gefnir á leikskóla þar sem sonur minn er farinn að renna hýru auga til LEGO og einsömul sæki ég foreldrafundi, þar sem ég tala bjagaða norsku og hlæ þegar vel stendur á.

Ekki bara er það í lagi, heldur er það örlítið gaman líka.

Vissulega hvolfist einmanaleikinn stundum yfir. Ég fæ flensu, stundum langar mig í bíó og svo eru það kvöldin, sem ég vil njóta ein. Þessu öllu og meira til gerir enda umheimurinn ráð fyrir. Spurningarnar virðast óþrjótandi, í fyrsta lagi þyrstir flestum að vita hvernig faðir hans dó og í öðru lagi virðist enginn þreytast á því að spyrja hvernig standi í raun á því að ég fæ svo sjaldan pössun. Fæstir virðast gera sér grein fyrir því að í almennu spjalli milli kunningja eru slíkar spurningar varla við hæfi og að við ákveðnar aðstæður getur slík hnýsni jafnvel orkað særandi.

Það er ekki í lagi.

Að vera einhleyp móðir er ekki auðvelt hlutskipti. En sjaldnar drepur nokkur á þeirri staðreynd að giftar konur eiga líka oft í mestu erfiðleikum með að ná utan um daglega ábyrgð sína. Að lofaðir einstaklingar verða líka þreyttir. Að mjólkina vantar oft þó tvær fyrirvinnur séu í heimili. Að hjón og sambýlisfólk státa oft af færri úrræðum en einhleypar mæður. Barnapíur vaxa ekki á trjám og ömmur geta verið uppteknar líka. Það er einfaldlega mikið verk að fæða börn í heiminn og koma þeim á legg.

Á þeim sjö árum sem liðin eru síðan sonur minn kom í heiminn, höfum við mæðgin ferðast einsömul til nokkurra heimshluta; Norðurlöndin höfum við heimsótt, suðurhluta Evrópu og svo flust milli landa eftir þriggja ára búsetu þess stutta á Íslandi, þar sem hann er fæddur og við erum rétt að byrja á heimsreisunni, ég og minn. Hann er hláturmildi sólargeislinn minn sem státar af lúnu vegabréfi, slitnum ferðaskóm og þroskuðu viðhorfi þess litla sem alltaf er tekinn í öryggisleit á alþjóðlegum flugvöllum.

Litli drengurinn minn talar tvö tungumál og brátt bætist við það þriðja; við ætlum í málaskóla til Spánar næsta vor, allt svo honum lærist að skilja hvað ólmir leikfélagarnir eru að segja og geti eignast vini í sumarfríi á sólarströnd. 

Við höfum staðið opinmynnt og virt fyrir okkur jólatívolíið í Kaupmannahöfn, hlegið dátt á götum Oslóar með munninn fullan af ís, forvitin potað í fornminjar á íslenska Þjóðminjasafninu í Reykjavík – öskrað af ótta og kátínu í norskum rússíbana, étið ótæpilegt magn af dýrðarinnar súkkulaði í Svíþjóð, hlaupið svitastorkin undan kakkalökkum á sjóðheitum Spáni, lært að segja Hola! og skeggrætt fegurð Frakklands, en þangað langar syni mínum að ferðast áður en langt um líður.

Að vera einhleyp móðir er val, ekki harmleikur eða skelfilegt hlutskipti sem hvolfist yfir konu sem hefur komið öðru lífi í heiminn. Ástin er valkvæð, mér er unnt að skapa mér þann lífsstíl sem ég sjálf kýs og vilji ég ganga í hjónaband er ég sannfærð um að það geti ég þegar mér sýnist svo. Eitt breytist þó aldrei og það er sú staðreynd að ég verð alltaf móðir þessa barns.

Það sem upp úr mun standa þegar fram líða stundir, verða því ekki öll kvöldin sem ég naut í einrúmi meðan sonur minn svaf í öðru rúmi, heldur öll litlu loforðin sem mér tókst að halda í heiðri. Það sem upp úr mun standa er til að mynda augnablikið sem rann upp í morgun þegar drengurinn minn kyssti mig, þá steinsofandi, á aðra kinnina og sagði einfaldlega:

„Mamma mín, þú verður að vakna núna því ég elska þig svo mikið.”

Að vera einhleyp móðir er valkvætt hlutskipti og fyrstu orðin sem bárust eyrna mér í morgun eru sambærileg litlu játningunum sem drengurinn minn lætur falla í mín eyru hvern einasta dag. Að vera elskuð er hlutskipti mitt sem einhleyprar móður. Í skiptum fyrir lífið sem ég fæddi í heiminn, fékk ég nefnilega kærleikann að gjöf.

Á ferðalagi mínu gegnum ranghala móðurhlutverksins og það ævintýri sem barnæskan er, hefur mér líka lærst – þar sem ég fæ sárasjaldan pössun, að velja af kostgæfni þá einstaklinga sem ég umgengst. Sem svo aftur hefur gert að verkum að fámennur vinahópur minn samanstendur af traustu fólki sem umvefur mig jákvæðri orku og hlýrri elsku.

Næst þegar leiðum okkar ber því saman og áður en þú berð upp spurninguna: „En færðu þá aldrei pössun?” skaltu því framar öllu hafa hugfast, að ekki einungis ber ég hlýjan hug til þín sem manneskju, heldur lít ég einnig svo á að þú sért nægilega vandaður einstaklingur til að mega njóta samvista við barnið mitt.

Hugsið ykkur bara hvað ég er lánsöm.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!