KVENNABLAÐIÐ

Guð blessi Western Union og fleiri handhæg ferðaráð fyrir ofurhuga

Ég ætti, að eigin mati, að gefa út ferðahandbók fyrir einstæða foreldra. Upplýsingarit fyrir fólk sem aðhyllist sama lífsstíl og ég sjálf; einstaklinga sem storma ómálga á erlendum tungumálum í ferðalög með barnung afkvæmi sín. Mér finnst að hylla ætti alla þá hugrökku brjálæðinga sem þenja nasavængina, grípa vegabréfið og hoppa glaðbeittir upp í næstu flugvél með undrandi grunnskólabörn.

11267855_10153366870706413_1139810573826798632_n

Gættu vel að símakostnaðinum!

Í fyrsta lagi ráðlegg ég ekki nokkrum lifandi manni að taka íslenskt SIM kort með í ferðalagið, nema Netsímanum hafi verið hlaðið niður á símann áður. Ég er með handhægt app á farsímanum sem heitir Sipdroid og borga örfáar krónur fyrir þjónustuna á mánuði. En þetta gerir að ég get hringt í íslenska heimasíma, mér að kostnaðarlausu, hvar á jarðarkringlunni sem ég er stödd. Þetta litla smáforrit hefur ýmsu bjargað, meðal annars því að ég gat hringt í Landsbankann – örvingluð á svip – þegar spænskur hraðbanki hafði GLEYPT debetkortið mitt.

… er ekki örugglega net á staðnum?

Ég nota íslenska Netsíma-appið reyndar svo bara á þráðlausu neti, en það hef ég lært líka – að kanna alltaf áður en lagt er af stað í ferðalagið, hvort gististaðurinn er ekki örugglega útbúinn þráðlausu neti. Ekkert net, ekkert líf. Allt gengur út á samskipti gegnum netið í dag og guð hjálpi þeim sem ætlar að notast við almenningssíma á erlendri grundu, með smápeninga í höndum og sveittar kinnar.

11357918_982888975076722_2006366256_n

Keyptu þér líka erlent símanúmer í farsímann:

Já. Ég notast við íslenska Netsímann OG ég er líka með spænskt símanúmer sem ég get gripið til í neyð. Þetta geri ég í hvert einasta sinn sem ég lendi á Spáni. Storma í næstu Vodafone verslun og kaupi svonefnt “túrista-SIM kort” sem er fyrirframgreitt símakort með smávægilegri inneign og 2 – 3 Gígabæta netinneign. Svo kasta ég fyrirferðarmiklu landakortinu, kveiki á 4G netinu og ræsi Google Maps. Slæ inn áfangastað og sting símanum í vasann. Lít á skjáinn öðru hverju og held svo bara ferð minni áfram. Þetta kostar talsvert minna en ætla mætti og mér finnst farsíminn þægilegri en pappírskortið.

Gættu vel að gildistíma korta, ökuskírteinis og vegabréfa:

Í ljós kom svo reyndar að debetkortið mitt RANN ÚT fyrir tveimur dögum, en mér hafði gleymst í martraðarkenndum hitanum að kanna fjandans gildistímann. Svo stormaði ég í næsta hraðbanka, stakk inn útrunnu kortinu og horfði á eftir því inn í raufina. Því næst kviknuðu orðin: CONTACT YOUR BANK og þar með hvarf kortið. Með öllu. Bara BLESS! Þannig stóð ég uppi peningalaus á Spáni, alein og öskrandi á hraðbanka og berjandi suðræna marmaraveggi meðan Rassi horfði dapur á.

11429568_868875729869702_266179017_n

Western Union getur dimmu í dagsljós breytt:

Ég fékk svo aðstoð að heiman, en fjölskylda mín var svo elskuleg að framkvæma Western Union millifærslu sem rann í gegn eins og rjómakaka í hátíðarboði á sunnudegi. Allt sem til þurfti voru íslenskir peningar, sem ég átti til góða (Landsbankinn veitir m.a. Western Union þjónustu) og svo tíu stafa kóði sem ég fékk frá sendanda og fór með á næsta pósthús. Ég framvísaði vegabréfi og skrifaði undir eitt lítið skjal. Þess er kannski best að geta líka að pósthús merkir Correos á spænsku. Og þetta er hægt, gegn vægri þóknun – á litlu kortéri. En auðvitað er ferlið þeim skilyrðum háð að þú eigir af einhverju að taka á sparireikning …

Ekki taka bílaleigubíl nema þú ætlir í langferð:

Almenningssamgöngur eru skemmtilegar, geta veitt merkilega innsýn í menninguna á staðnum og á TOURIST INFORMATION OFFICE (sem iðulega eru á öðru hverju götuhorni í stórborgum) er hægt að afla allra upplýsinga um strætisvagnaferðir, sporvagna og svo innanbæjarlestar. Ég tók reyndar bíl á leigu hluta ferðarinnar – ók til Madrid frá Alicante og skemmti mér konunglega í fjóra klukkutíma, undir stýri á diesel jeppa og sötrandi svaladrykk. En bílastæðahús eru dýr, það er allt annað en skemmtilegt að borga stöðumælasektir og enn flóknara að aka innanbæjar í steikjandi hita, missa af fjandans beygjunni og þurfa að aka annan hring í ókunnri borg.

11203176_734742529970117_122690863_n

Göngutúrar eru allra meina bót:

Ykkur að segja greiddi ég morðfjár í bílastæðahúsið, fagri jeppinn var að lokum dreginn í burtu og ég þurfti að beita ómældum persónutöfrum, bjagaðri spænsku og blaka vegabréfinu til að leysa bílinn úr vörslu lögreglunnar – heilum sólarhring seinna. Allt þetta og meira til þurfti til að leiða mér þá einföldu staðreynd fyrir sjónir að göngutúrar eru allra meina bót, vatnsflaskan kemur að góðum notum í töskunni og gott ef grömmin fara ekki að fjúka þegar metrarnir umbreytast í kílómetra. Ég lærði meira að segja nokkur orð í spænsku á öllum göngutúrunum sem við Rassi höfum lagt að baki þegar við höfðum LOKS skilað bílnum og lögðum land undir fót. Íklædd sandölum og sumarfatnaði.

Kærleikurinn er alltaf eina svarið:

Ef í vafa, brostu þá. Þínu blíðasta. Haltu fast um veskið en reiknaðu alltaf með því að aðrir hafi ekkert illt í hyggju. Brostu mót lífinu, lærðu að bjarga þér upp á eigin spýtur og gerðu ráð fyrir því að aðrir eigi einnig í fullu fangi að axla eigin ábyrgð. Hafðu hugfast öllu fremur að það sem þú gefur frá þér er næsta líklegt til að koma beint í fangið á þér aftur. Vingjarnlegt viðmót leiðir nær undantekningarlaust af sér gagnkvæma umhyggju. Allar birtingarmyndir ástarinnar eru fallegar og það er ómetanlegt að eiga jákvæðar minningar í farteskinu þegar heim er komið.

Góða ferð og gangi ykkur öllum vel!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!