KVENNABLAÐIÐ

Leyndir stígar Alicante: Af suðrænum þjóhnöppum og ástríðufullum áköllum

„Socorro!“ öskrar maðurinn dimmraddaður neðan af götunni. „Ayuda mi!“ og svo halda spörkin áfram sem bergmála málmkenndum hljóðum um elsta íbúðarhverfi Alicante í sumarhitanum. Systir mín, sem er stödd í Danmörku og spyr mig forviða gegnum Skype hvað orðin merkja fær að heyra merkingu þeirra.

„Æ, hann er bara að öskra á hjálp, maðurinn. Spánverjar eru svo blóðheitir,“ svara ég henni letilega. Það amar ekkert að spænska karlmenninu sem sparkar örvinglaður í ruslatunnur í skjóli við kirkjuna, sem er staðsett spölkorn frá þaksvölunum þar sem ég hef hreiðrað um mig til að njóta kvöldsvalans. Hann er aleinn á ferð og æpir viðstöðulaust út í  nóttina. Skömmu áður hafði grátbólgin, miðaldra kona með breiðar mjaðmir, hnotubrún augu og boldungslegan hárhnút gengið í flasið á mér meðan við þrömmuðum upp marmaralagðar tröppurnar sem liggja að dvergvöxnu raðhúsinu þar sem við verðum búsett út júlí þetta árið.

11357834_1868405220052155_1262280850_n
San Roque er eitt elsta íbúahverfi Alicanteborgar og þar stendur tíminn í stað

„Manana!“ hvæsti sú yfir öxlina á sér og steig með tilþrifum niður brött og ævaforn þrepin. Manana, esto no ha terminado“ … „Á morgun! Þessu er ekki lokið!“ hvæsti hún undan rósrauðum blævængnum og sjö ára gamall, íslenskur sonur minn spurði mig í það skiptið forviða hvað konan hafi átt við, klyfjaður innkaupapokum sem innihalda fátt annað en vatnsflöskur og niðursoðna mjólk. Við nærumst á fljótandi fæði hér í sumarhitanum og fötin, sem voru aðsniðin áður en við lögðum af stað frá Noregi fyrir skemmstu, eru tekin að síga niður mjaðmirnar.

„Hún vill meina að þessu sé ekki lokið,“ svara ég undrandi drengnum. Að hún taki upp þráðinn að nýju þegar sólin rís.“

Tryllt karlmennið sem barði ruslatunnur og öskraði á hjálp árla kvölds, laut að öllum líkindum í lægra haldi fyrir eigin tilfinningum og það er ég sannfærð um að óendurgoldin ást kom þar við sögu. Ekki geri ég mér með fullu grein fyrir eðli heiftar hinnar grátbólgnu kynsystur minnar, en kannski var um uppskriftastuld að ræða. Spánverjar eru ástríðufull þjóð, matarmenningin spilar gífurlega sterkan sess í þjóðarsálinni og steini lögð stræti Santa Cruz sem San Roque, sem saman mynda elsta bæjarhluta Alicante, andvarpa sögulegri menningu Miðjarðarhafsins; stolnum kossum, harðvítugum ættardeilum og fádæma stolti genginna kynslóða í hverju fótspori.

11359031_1646647432260197_258838339_n
Elstu bæjarhlutar Alicante eru þrungnir sögu í hverju fótmáli

Ég læt áfengið eiga sig með öllu. Enda er hitasvækjan ein næg til að laða fram slagandi göngulag eftir ævafornum götustígunum sem ég feta örvingluð í fylgd sonar míns sem hefur nýverið lært að segja HOLA!“ og heilsar öllum sem á vegi hans verða. Lostafullir elskhugar læðast meðfram elstu götum borgarinnar og gæla lymskulega við þjóhnappa suðrænna heitkvenna sinna, hvísla erótískum orðum sem einungis tilvonandi eiginkonum þeirra er ætlað að heyra og þekja naktar axlir þeirra sömu með áleitnum og ertandi kossum.

Spánverjar eru ástríðufull þjóð; gneista af meðfæddum lífslosta og elsku á öllu sem minna má sín. Áreitið nær ekki til okkar; ríflegra fertugrar og sjálfstæðrar móður sem tók raðhús á leigu og trítlar léttstíg í átt að sendinni strönd Alicante með sjö ára gamlan Rassa í eftirdragi hvern dag, vopnuð krókódílakút og íklædd bleikum sandölum. Við erum fyllilega örugg hér í gamla hverfinu, þar sem fæstir ferðamenn voga sér inn fyrir; umkringd innfæddum sem mæla á framandi tungu og vilja ólmir auglýsa hús sín til leigu yfir heitasta tíma ársins.

11430199_491706347662330_520467699_n
Sjö ára gamall sonur minn býr yfir magnaðri aðlögunarhæfni

Fyrr myndu þeir hinir sömu sennilega kasta espresso-bollanum frá sér með þjósti, svipta fram röku strandhandklæði og verja okkur mæðginin með lífi og limum en að horfa á eftir okkur ganga óvarin í gin samviskulausra glæpamanna. Spánverjar eru ástríðufullir með eindæmum, gefa fúslega af sínu og leggja allt í sölurnar fyrir konu sem sprangar einsömul um götur borgarinnar með forvitið barn.

Það er allt í lagi að leggja upp í langferðir með barn. Líka fyllilega öruggt að taka raðhús á leigu í eldri hverfum Alicante. Treysta á gestrisni AirBnB og gatslitna orðabók. Fara með málvillur á kaffihúsum og gleyma sólarvörninni. Þræða skuggana og sötra ógurlegt magn af svaladrykkjum. Það er í himnalagi þó barnapíuna vanti og diskótekin duni fram á nótt án nærveru þeirrar einstæðu, sem lokar svalahurðinni þegar rökkva tekur og setur loftkælinguna í gang.

11379253_1632041090343274_1036973363_n
Leikvöllur fyrir börn þar til rökkva tekur; tónleikatorg að kvöldi

Spánn er margslungið land og ríkt af ástríðufullri sögu, elsku á móðurástinni og öllu því sem smátt er í eðli sínu og þarfnast alúðar. Því get ég ekki annað en hafið frásögnina á einmana básúnutónum sem hvísla yfir suðræn húsþökin, unggæðingslegum hlátrasköllunum sem bergmála milli stræta þegar rökkva tekur og örvingla ástmanni sem öskrar Socorro!“ og sparkar í tómar ruslatunnur þegar heitmey hans finnur ástina í örmum annars.

Þau eru næg, húsin sem hér eru til leigu. Og möguleikarnir eru endalausir. Verðin eru viðráðanleg, matargæskan nær út fyrir öll velsæmismörk og hér leika börn á götum úti fram á rauða nótt. Útlendingaóttinn nær enda ekki inn í hverfi heimamanna, sem standa vörð um ungviðið og hvort annað líkt og um þjóðaríþrótt væri að ræða.

11356880_1604253909823423_1294132308_n
Þau lifna við á kvöldin; steinhlaðin þrep gamla bæjarins og göturnar iða af ástríðum

Ég leyfi mér að teyga ástríðuna í hverjum andardrætti, tilfinningalega soltinn Norðurlandabúinn sem vökvar íðilgrænar útiplönturnar hvern dag fyrir leigusalann, harmþrungin kynsystir þeirrar brúneygðu sem hvæsti Manana“ undan rósrauðum blævængnum, meðan hún sveif grátbólgin niður marmaralagðar tröppurnar. Ég velti því örvingluð fyrir mér hvernig hægt er að móta sumarið í svo fá orð og upp fyrir mér rennur að pistlarnir verða fleiri.

Logagyllt trúarlíkneskin á torgi heilags Nikulásar eru efni í aðra frásögn, margradda tungumálaskólinn sem er staðsettur ofan við besta veitingahús heims, fær að fljóta með í það skiptið og svo daðurmildi lögreglumaðurinn, sem reyndist eiga afbrýðisama unnustu og rukkaði mig um heilar 250 evrur í stöðumælasekt samhliða því sem hann hripaði niður netfangið sitt og sagði á brotinni ensku: „Ekki hika við að senda mér línu ef vinafólki þínu vantar gistingu. Ég á þrjár íbúðir sem eru allar til útleigu og það á besta stað í gamla bænum.”

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!