KVENNABLAÐIÐ

Sú lúmska list að vera útlendingur

Ég er útlendingur. Fluttist búferlum með barnið mitt fyrir ríflega fjórum árum síðan, lagði land undir fót og staglaði á skandinavísku fyrsta árið. Gerði þau mistök á nýrri þjóðtungu að biðja leyfis fyrir kaffibolla, meðan ég stóð fastar á því en fótunum að ég væri að tilkynna Norðmönnum þau ósköp að ég ætlaði mér að þamba allt kaffið sem mér stóð til boða.

„Þarf ég endilega að lesa dagblaðið?” spurði ég þannig kokhraust svo mánuðum skipti, í stað þess að spyrja einfaldlega hvort ég mætti glugga í vikusnepilinn. Furðu lostnir frændur mínir á meginlandinu kinkuðu kurteisislega kolli, þar til góðviljaður heimamaður gerðist svo elskulegur að greina mér frá því að mér bæri engin skylda til að lesa þetta dagblað, en mér væri það hins vegar sjálfsagt ef mér lysti.

Það er svo margt um fleira sem felst í því að vera útlendingur, en einungis sú ljúfa skylda að læra málið. Blæbrigði tungunnar, jafnvel líkamsburður og augnagotur geta merkt svo ólíka hluti hvar sem fæti er stigið niður á jarðarkringlunni. Sjálf hafði ég litla hugmynd um hvað þjóðerniskennd í raun merkir, fyrr en ég fluttist. Fram til þess hafði ég litið svo á að Íslendingurinn ég, sem þótti ægilega exótísk á sólstrandarflandri mínu á yngri árum, væri alls staðar velkomin.

Í dag veit ég að þjóðlöndin eru fleiri en ég í upphafi áttaði mig á og að það eitt að vera Íslendingur er ekki alltaf álitið jafn spennó. Ég hef deilt sæti með búrkuklæddum konum sem ólguðu af velvild, rætt á pólskuskotinni ensku við hjálpsama vörubílstjóra sem út stukku til að klippa keðjurnar af bílnum mínum þegar ég flækti mig í ógurlegt vetrarævintýri sem ég fer ekki nánar út í hér.

Þakklát er ég leigubílstjóranum frá Kasmír, sem ók barnungum syni mínum til leikskóla heilan vetur þegar enginn annar vildi taka hlutverkið að sér og aldrei gleymi ég henni bandarísku vinkonu minni sem eyddi helgi í Reykjavík, hitti mig svo yfir kakóbolla í norsku höfuðborginni fáeinum dögum seinna og hvískraði uppnumin:

„Íslendingar eru miklu líkari okkur Bandaríkjamönnum en Norðmenn …”

Auðvitað bólgnaði minn innri Íslendingur út við orðin ein og ég hugsaði eitt augnablik að Bandaríkjamönnum væri nú ekki leitt að líkjast. Mér þótti vænt um orðin og þau yljuðu mér á heimleið. Einmana útlending í höfuðborg Noregs, konunni sem hafði fest kaup á flugmiða einhverjum árum fyrr og flust yfir hafið í þeirri von að þar væri betra líf að finna. Vissulega höfðu flutningarnir ákveðin forréttindi í för með sér. En það er erfitt að vera útlendingur og verulega særandi að standa utangarðs sökum þjóðernis, því ekki hafði ég nokkuð að segja um þá staðreynd hvar á jarðarkringlunni ég kom í þennan heim.

Ágæt kona sagði mér eitt sinn að sjálfið fengjum við aldrei umflúið, þó aðstæður okkar breyttust. Oft hef ég hugsað um orðin þessi og í fáein skipti þakkað Guði almáttugum að svo er ekki, því án reynslu minnar, hyggjuvits og útsjónarsemi hefði ég aldrei komist gegnum þann hildarleik sem er að flytjast búferlum erlendis með lítið barn – með bjagaða túristaensku að vopni og ekkert nema vonir í báðum lófum.

Þá er flæði ferðamanna talsvert meira en fyrir fáeinum árum síðan og að sama skapi hefur þeim huguðu einstaklingum sem flytja sig af meginlandinu, ferðast jafnvel alla leið frá Ameríku í þeirri von að festa rætur á Íslandi, fjölgað. Allt þetta fólk virðist í sömu leit að svörum inni í umræðuhópunum sem finna má á Facebook; einhverri mannlegri snertingu, reynslusögum og vinsamlegum ábendingum – rétt eins og ég var, þegar ég lenti í Osló fyrir einhverjum árum síðan.

„Eru einhverjar matvöruverslanir opnar á sunnudögum?”

Ég rak augun í einhverjar spurningarnar á netinu nú yfir jólin. Villuráfandi og aðfluttir, ringlaðir útlendingar sem aldir voru á ólíkum siðum en þeim sem talist geta eðlilegir hér á landi í dag. Háð og spott elti einhverjar spurningarnar, einn grínarinn gerði svo gott að slá um sig með „gengi íslenska dollarans” meðan annar gerði stólpagrín að „Schengen-skyldum spurningum”. Þá ráku gárungarnir upp hlátursrokur þegar talið barst að íslenskri lagagerð um innflytjendur og svona mætti lengi áfram telja.

„Það er búið að spyrja að þessu.”

Mig verkjaði í hjartað þegar háðið bar á góma. Snöggreiddist og lagði orð í belg. Mig langaði að taka upp hanskann fyrir þá lesendur sem stóðu á hliðarlínunni og hafa ákveðið að halda sér til hlés í kjölfar umræðunnar. Það særir mig að sjá þjóðina sem sótt hefur ævintýrin yfir hafið og út í hina stóru veröld, svo öldum skiptir, gera þá hugrökku einstaklinga að háði og spotti fyrir það eitt að kunna ekki íslenskar leikreglur.  

„Lærðu að nota SEARCH í grúppunni … ”

Velti upp þeirri staðreynd að sjálf er ég útlendingur. Það útheimti blóð, svita og tár að læra að fóta mig að nýju á norskri grundu. Einstæð móðir með seinfært barn, mállaus en velviljuð. Gapandi á útlendingaspjallinu á Facebook og þyljandi upp spurningar sem oftlega höfðu verið bornar upp áður, í þeirri veiku von að mynda mannleg tengsl og eignast jafnvel vini.

„Nennir einhver að reporta þennan til admin, takk?”

Þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð, reyndist mér þrautinni þyngra að kynnast innfæddum. Það er gerólíkt að ferðast og flytja. Velviljaðir heimamenn, sem þolinmóðir þræða landakortin með helgargestum, virðast á bak og brott þegar kaldur veruleikinn skellur á fyrstu vikuna í öðru landi. Mér þótti sú lúmska list að læra að vera útlendingur fjandanum flóknari í fyrstu og það er fyrst núna, tæplega fimm árum eftir að ég fluttist til Noregs, sem mér er farið að lærast að kjarni listilega samsettrar og vinsamlegrar fjölþjóðarmenningu er fólginn í umburðarlyndi.

„Er ekki hægt að pinna pósta eða færa inn í skjöl?”

Bros getur dimmu í dagsljós breytt og þannig skipti mig miklu að líta framan í vingjarnlegt andlit, að mæta víðsýni og umburðarlyndi þegar ég var að feta mín fyrstu spor á meginlandinu fyrir svo ægilöngu síðan. Heimþráin lá í dvala meðan ég drakk í mig áhrif þessa nýja menningarheims. Ég gúgglaði og las. Safnaði bæklingum og klóraði mig áfram á norsku. En ekkert gat komið í stað mannlegra viðhorfa, samskipta við aðra aðflutta, sem einhverjir höfðu gengið á menningarlega veggi í nýju landi og höfðu sambærilega reynslu og ég af samskiptum við heimafólk.

„Oh, það er alltaf þessi eini sem spyr”.

Ég held, af fenginni reynslu, að engu skipti hverrar þjóðar við erum. Vissulega fylgir okkur menningarleg arfleifð og ákveðnir þættir í hegðun okkar og framkomu eru einfaldlega bundnir í gen. En enginn er eyland og vei þeim sem ætlar sér að kljúfa heiminn í herðar niður aleinn og óstuddur.

 „ … ég var að tala um HINA útlendingana. Ekki ALLA útlendingana.”

Að vera útlendingur er ákveðin kúnst, lúmsk list sem ekki er á allra færi. Einhverjir hrökklast heim til átthaganna örvinglaðir á svip, eftir að hafa staðið einsamlir á gatnamótum og grátið. Aðrir bíta á jaxlinn og söngla út í einsemdina, rétt eins og ég gerði. En þó lík börn leiki best, er eitt okkur öllum sammerkt og það er þörfin fyrir elsku.

Á nýju ári mun ég bera upp óteljandi spurningar. Ég er enn fávís útlendingur sem leitar sannleikans og skil hvorki upp né niður í lestarsamgöngum, villist í fimm kílómetra radíus og væntanlega mun ég spyrja hvort ég þurfi endilega að lesa þetta fjandans dagblað, allt meðan ég meina að sjálfsögðu hvort ég megi glugga í vikusnepilinn.

Verðir þú á vegi mínum, ætla ég að gera mitt besta til að svara, þurfir þú á leiðsögn að halda. Svo lærir nefnilega sem lifir og öllu getur ástin áorkað. Láti einhver sér þá einföldu staðreynd ekki að góðu verða, vona ég að admin grúppunnar taki sig til og blokki fúla gaurinn; þann sem ekki unir aðfluttum að spyrja. Eitt get ég nefnilega ekki umborið og það er bólgin þjóðerniskennd þess sem annars leggur stund á reglubundin ferðalög sjálfur. 

Gleðilegt ár, kæru lesendur og hjartans þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!