KVENNABLAÐIÐ

Eru karlar nægjusamari enn konur?

Mannskepnan þarfnast fata hér á Íslandi. Svo þau séu ekki út um allt, eru útbúnir sérstakir skápar og kommóður undir þau. Við hjónin erum með risavaxinn fataskáp veggja á milli, sem skiptur er í miðju. Mín föt eru hérna megin og hans föt eru þarna megin.

Skápurinn mín megin er svo úttroðinn (og rúmlega það) að ég verð eiginlega alltaf að passa upp á að helmingurinn af fötunum mínum séu óhrein. Samt á ég ekkert. Kommóðan okkar er stútfull af biluðum brjóstahöldum sem allir eru með spöngina úti.

Tek mig stundum til og eyði eins og einni nótt í að staga þá. Þeir eru fljótir að fara aftur. En hvað á maður að gera þegar það er kreppa og nærfatnaður kostar jafnmikið og notaður bíll? Nál og tvinni er mun ódýrari.

Maðurinn minn fær náðasamlegast að halda einni skúffu í blessaðri kommóðunni. En það er ekkert í henni. Nema 5 stakir sokkar og eitt belti. Nærfötin geymir hann í náttborðsskúffu.

Skápurinn hans er næstum tómur. Þó er hann í engum vandræðum. Ekki eins og ég.

Þarna liggur munurinn á okkur. Ég þjáist af valkvíða, hann grípur það sem hendi er næst.

Eins er þetta með skóbirgðir heimilisins. Hann á nákvæmlega 6 pör af skóm. Inniskó, vinnuskó, spariskó, gönguskó, strigaskó og „skreppuskó“. „Skreppuskóna“ notar hann til að skreppa í út í búð eða út með ruslið.

Ég hef hins vegar ekki tölu á mínum skóm. Þeir fjölga sér eins og kanínur í skápnum hjá mér. En ég á ca. 12 pör af „skreppuskóm“.

Eigum við eitthvað að ræða skartgripina?

Hann á eitt úr, hring og eitt hálsmen. Ég gæti aftur á móti opnað verslun.

Það er ekki eins og ég vaði í peningum frekar en aðrir. Ég er bara sniðug að finna drasl. Sem kostar skít og kanil. Ef ég ætlaði að losna við eitthvað af þessu, þyrfti ég að gefa það. Og sennilega borga með því.

Samt get ég alveg litið út fyrir að eiga fullt af peningum. Klæði mig í ríku „frúar-gallann“ þegar ég þarf að hitta bankastjóra og þjónustufulltrúa. Það er nú nefnilega svo skrítið að þá eru allir svo liprir fyrir manni. Peningar eru ekki lánaðir nema maður líti út fyrir að geta borgað þá. Mjög þversagnarkennt allt saman.

En svo ég víki nú aftur að muninum á okkur hjónunum þá get ég einnig nefnt innbúið okkar.

Sjáið til, ég var búin að búa með börn og buru í 20 ár þegar við kynntumst. Hafði eignast helling af drasli og var búin að koma mér upp ákveðnum persónuleika á heimilinu.

Hann hafði verið piparsveinn í fjöldamörg ár. Átti í ástarsambandi við tölvu og átti fátt nema gítar, nokkra bikara, medalíur og ….agalega forljót módel af geimskipum úr uppáhalds þáttaseríunni hans. Sem hann plantaði upp á gasalega fína vínstofuskápinn minn sem ég keypti á 1500 kr. hjá Rauða krossinum! Það tók svolítinn tíma að láta þetta hverfa. En það hafðist að lokum og nú er þetta týnt.

Þegar pistillinn er lesinn þá lítur allt út eins og ég sé ægilega frek og eigni mér allt á heimilinu. Því fer fjarri. Síðan við kynntumst höfum við farið í marga búslóðarleiðangra saman…á barnalandi og Góða hirðinum. Allt mitt er hans og allt hans er mitt. Nema svona persónulegir hlutir.

Málið er að hann er bara svo skratti nægjusamur….

Kannski ég komi honum á óvart og gef honum nýjar nærbuxur ásamt einni kommóðuskúffu í jólagjöf.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!