KVENNABLAÐIÐ

Hann er einstæður pabbi: Hvaða kröfur má ég gera í tilhugalífinu?

Í augum margra einstæðra mæðra er hugmyndin að sambandi við helgarpabba himnesk. Helgarpabbar hljóti að vera líklegri til að skilja álagið sem ríkir í lífi einstæðra mæðra og athyglina sem uppeldi barna krefst. Sannleikurinn er hins vegar sá að þetta er einungis að hluta til rétt. Upp að ákveðnu marki getur hið gagnstæða nefnilega verið uppi á teningnum.

Sumar mæður deila forræði með feðrum barna sinna, aðrar fá enga hjálp og þess vegna getur fyrirkomulagið haft sína kosti og galla. Einhverjar konur eru barnlausar. Hluti af þeim hyggur á barneignir síðar meir. Aðrar telja sig alls ekki tilbúnar.

Ég á ófáar vinkonur sem hafa sagt mér af vonbrigðum sínum eftir að hafa tekið upp samband við helgarpabba sem afbókaði löngu ákveðið stefnumót með engum fyrirvara vegna þess að börnin þurftu á athygli hans og nálægð að halda. „Hann er bara ekki nógu hrifinn af mér“ sagði ein og önnur bætti því við eftir að hafa farið með sömu möntruna aftur og aftur: „Hann hefði fundið pössun fyrir börnin ef hann hefði nægan áhuga.“

Ef lífið væri nú bara svona einfalt.

Í fyrsta lagi eiga börnin að verma fyrsta sæti í lífi hans. Faðir sem hefur ekki tíma til að hitta eigin börn því það er ný kona í lífi hans er óábyrgur í hegðun og framkomu. Þó flestar einstæðar mæður geti sett sig í spor helgarpabba vandast málið oft þegar barnlausar konur eiga í hlut. Gefðu manninum kredit fyrir það eitt að hafa forgangsröðina á hreinu.

Karlmaður sem afbókar stefnumót á síðustu stundu vegna þess að lítið barn með eyrnabólgu þarf á pabba sínum halda, stendur við skyldur sínar sem foreldri. Ef maðurinn er ábyrgur í umgengni gagnvart þeim börnum sem hann á í dag verður hið sama uppi á teningnum ef hann eignast fleiri.

Í öðru lagi þarftu að gera þér grein fyrir því að í humátt helgarpabba fylgja fyrrverandi eiginkonur og barnsmæður sem verða alltaf inni í myndinni. Ég hef ekki enn rekist á þá konu sem nýtur þess að ræða samskipti fyrri maka við núverandi ástmann en þessar konur skjóta upp kollinum öðru hverju í samtölum og verða alltaf nálægar í einhverri mynd.

Til að sambandið geti gengið upp verður þú að vera fær um að gera málamiðlanir. Það er grundvallarmunur á lofræðum um fyrri sambönd og einlægum trúnaðarsamtölum sem snúa að aðkallandi ákvarðanatökum. Á þínu valdi er að gera skýran greinarmun á þessu tvennu. Leyfðu manninum að blása út.

Í þriðja lagi hafa fæstir helgarpabbar svigrúm til að fá pössun svo þeir geti eytt sjóðheitum stundum í faðmi ástkvenna sinna. Manninum sem þú elskar þykir eflaust ekkert skemmtilegra en að bjóða þig velkomna inn í fjölskylduna með þeim hætti að kynna þig fyrir eigin börnum, sem eru dýrmætasti framtíðararfur hans.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!