KVENNABLAÐIÐ

Fimm fáránlegir hlutir sem karlmenn gera á Facebook

Konur gerast vissulega sekar um undarlegar stöðuuppfærslur á Facebook – en karlmenn eru ekki heldur undanskildir þegar kemur að fáránlegum athugasemdum. Hér á eftir fara fimm fáránlegir hlutir sem karlmenn gera og fá okkur til að gapa fyrir framan tölvuskjáinn:

Fela sambandsstöðu sína

Fegurðin við Facebook er fólgin í því að við getum fundið út hvort maður er tilkippilegur eða utan seilingar og það strax! Liðnir eru dagar leiðinlegra samræðna á börum; farinn er sá hræðilegi möguleiki að hanga fyrir utan húsið hans í hálftíma í þeirri von að sjá hvort kona gengur inn um hurðina eða ekki.

Sambandsstaðan kemur upp um manninn. Ef hann heldur þeim upplýsingum hins vegar leyndum – þurfum við konur að fara gegnum og kryfja myndaalbúmin hans til mergjar, fletta gegnum vegginn í leit að kommentum o.sv.frv. og þetta eitt er fáránlegt. Strákar, þið sem eruð einhleypir; gerið okkur öllum greiða og skráið ykkur einhleypa. Og fyrir þá ykkar sem eruð í sambandi; vinsamlegast takið það fram.

Loka á myndaalbúm

Það skilja allir að karlmaður skuli vilja halda ákveðnum myndum fyrir útvalda vini. En þar sem við erum ekki mæður þessara manna, yfirmenn þeirra eða hreinlega sálusorgarar að atvinnu – truflar það okkur þegar við getum ekki skoðað tiltekin myndaalbúm. Hér er málið; okkur hættir til að ímynda okkur það allra versta í stöðunni.

Þar af leiðandi ímyndum við okkur að lokuð myndaalbúm hljóti að innihalda sjokkerandi myndir af honum að sjúga kókaín, dinglandi sér með tveimur glyðrulegum dansmeyjum í einu; allt meðan hann dansar nakinn uppi á borði í trylltu partýi. Ósanngjarnt en satt engu að síður. Karlmaður stendur ekki vörð um eigið mannorð með því að loka myndaalbúmum; í raun og veru dregur þetta úr trúverðugleika mannsins og einnig úr áliti okkar á honum.

Pósta vandræðalegu stefnumótaboði á vegginn

Næst þegar karlmanni dettur í hug að pósta eftirfarandi á vegg konu sem hann langar að bjóða út: „Endilega vertu í bandi ef þig langar að hittast bráðum,“ ætti hinn sami í raun að ímynda sér að hann stæði í miðju herbergis; umkringdur fjölskyldu sömu konu, vinum hennar, gömlum kærustum og vinnufélögum.

Sá hinn sami ætti að ímynda sér að í þeim aðstæðum væri hann að fara með sömu orðin og hann skrifaði á vegginn hennar. Það er nefnilega mergurinn málsins. Hver vill blanda 889 vinum og kunningjum inn í viðkvæmt tilhugalíf sem er á byrjunarreit? PS: smá meiri rómantík væri vel þegin; gamaldags tölvupóstur er til að mynda mjög kúl …

„Aftagga“ sig á myndum

Í netheimum jafngildir þetta því að þykjast vera að spyrja til vegar, ef vinir hans sjá að hann er að tala við þig. Það er eitthvað einkennilega móðgandi við það að fletta gegnum nýleg myndaalbúm og fatta um leið að karlmaðurinn sem þú „taggaðir“ er búinn að „aftagga“ sig.

Ef ljósmynd af honum að borða pylsu á Bæjarins Bestu um síðustu helgi fær að hanga inni á prófílnum, eigum við erfitt með að skilja hvers vegna okkar myndir mega ekki vera þarna líka.

5. Sýna hvað þeir eru í raun vitlausir

Hvað er það við Facebook sem fær flotta karlmenn sem eru með báða fætur á jörðinni; karlmenn sem skrifa vísdóm á borð við „Það er ekki stærð hundsins í bardaganum sem skiptir máli – heldur bardaginn í hundinum sjálfum“ skrifa stöðuuppfærslu sem segir: „Jónsi Karls býður öllum konum upp á fría brjóstaskoðun í dag“ og hlaða inn nektarmyndum af sjálfum sér í hryllilega tilgerðarlegum módelstellingum sem þeir tóku augljóslega í speglinum inni á baðherbergi? Kannski þeim finnist þetta fyndið eða aðlaðandi, en strákar, þetta er ekkert töff.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!