KVENNABLAÐIÐ

Glimmerskrýddir og kafloðnir handakrikar koma rótsterkir inn fyrir jólin – STREET STYLE

Glitrandi og kafloðnir, ilmandi handakrikar eru ekki bara smart, heldur hámóðins og koma rótsterkir (í orðsins fyllstu merkingu) inn fyrir jólin. Nú er ekki lengur smart að dúmpa glimmer á þrýstnar varir, né heldur þykir nóg að sindra marglitum glimmer í hárrótina … heldur eru það handakrikarnir sem nú fá að njóta sín.

Margleitir, stjörnum prýddir og glitrandi, kafloðnir handakrikar við ermalausan kjól þykja svo fagrir nú þegar aðventan er að ganga í garð að Instagram bókstaflega logar af myndskreytingum; demantaskrýddum konubrjóstum og gull-leitum líkamshárum.

Í sjálfu sér eru glimmerskrýddir handakrikar kvenna afsprengi #freethepits og #hairypitsclub baráttuherferðarinnar sem fór stórum nú í sumar og miðaði að því einu að hvetja konur til að umfaðma náttúrulega fegurð sína, í stað þess að elta ólar við bitlausar rakvélar meðan sól var hvað hæst á himni.

Sjálft trendið á sér rætur í þeim sjálfsögðu réttindum kvenna að fylgja eigin löngunum og þrám, að sprengja af sér fáránlegar útlitskröfur samfélagsins og að endurheimta það magnaða vald að mega koma til dyranna eins og þær eru klæddar. Hvað er þá einmitt betra, en að prýða kafloðna og yndislega handakrikana með margleitum glimmerstjörnum nú þegar aðventan gengur í garð …

glitterpits@instagram

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!