KVENNABLAÐIÐ

„Ég vil vera Íslendingur, mamma“

Ég andmæli og segi henni að Gilitrutt búi í djúpu bliki blárra augna barnsins sem stóreygt mæni á þjóðsagnabókina í von um lengri lestur á hverju kvöldi. Að sagnaerfðin sé okkur Íslendingum í blóð borin og að huldufólkið lúri djúpt í hugskotum íslensku þjóðarsálarinnar.

„Þú verður að segja honum að tröll séu ekki til,” svarar hún með þjósti. „Ég áminnti drenginn um þessa vitleysu í dag en hann setti bara niður fótinn, hækkaði röddina og sagði mér að ekki færi mamma hans að ljúga.”

Bókin er myndskreytt verkum eftir íslenska listamenn og var gefin út í kringum árið 1940 í Reykjavík. Ég hlaut hana í arf eftir Ingólf afa minn, sem mataði mig á snúðum með bleikum glassúr og mandarínum í gamla daga. Yfirleitt keypti gamli maðurinn Kókómjólk og lagði svo ÍSLENZKAR ÞJÓÐSÖGUR OG ÆVINTÝRI á eldhúsborðið í Hamrahlíð 9. Ég var fimm ára gömul þegar ég lærði að lesa og samantekt Einars Ólafs Sveinssonar sem útgefin var þremur árum áður en móðir mín kom í heiminn, var fyrsta ritið sem ég las spjaldanna á milli.

„Það er ekki við hæfi að ala börn á ímyndun og drengurinn verður að greina milli draums og veruleika,” heldur norski sérkennarinn áfram og ég hvái við. Inni hana hverju eigi þá að skipta að Galdur telji dramb mannfólksins ástæðu þess að Guð sundraði Babýlóníu forðum daga svo ólíkar þjóðtungur risu og skilningur samborgara á misjafnri túlkun þvarr. Undanfarna daga hefur barnið borið heim frásagnir úr Gamla Testamentinu þar sem segir að Kain hafi myrt Abel, bróður sinn. Ég kann ekki við að spyrja hvort hún hafi sagt barninu að Guð sé uppspuni frá rótum, en segi þess í stað að sjö ára gamall sonur minn trúi í einlægni að Biblían sé sönn:  

„Hann var afbrýðisamur, mamma. Því Guð elskaði annan meira en hinn. Svo spurði hann – Á ég að gæta bróður míns? – og faldi líkið.”

Að launum uppsker ég ómþýðan hlátur hins metta fræðanda sem hinu megin á línunni ræðir sannfærð um mikilvægi þess að greina börnum frá því sem satt og raunhæft er. „Ég ætla reyndar að lesa norskar þjóðsögur fyrir hann bráðlega,” malar hún áfram. „Og mun segja barninu að ekkert sé hæft í hjátrúnni. Að þessu hafi fáfróð alþýðan trúað í gamla daga og að þjóðsagnaverur séu uppspuni frá rótum.”

Ég staðnæmist og horfi döpur á gömlu bókina með marmaragrænu kápunni. Velti því fyrir mér hvort verið geti að sonur minn leggi annan skilning í íslenska þjóðmenningu en ég gerði forðum daga. Minnist lítillar stúlku sem drakk í sig hvert orð við eldhúsborðið í Hamrahlíð 9 fyrir tæpum fjörtíu árum síðan. Drep á eigin hugrenningum og orðin læðast fram af vörunum:

„Kannski er hann of ungur til að læra um Gilitrutt. Hann er bara sjö ára gamall.”

Fyrir hugskotum mér svífur myndin af opinmynntum syni mínum, sem dauðhræddur við að fita púkann á fjósbitanum, lætur aldrei styggðaryrði falla. „Kærleikurinn,” sagði ég barninu  við kvöldlesturinn fyrir skemmstu, „sveltir púkann og gerir honum ókleift að dafna,“ og í þeim töluðu orðum steinhætti drengurinn að blóta.

Þjóðsagnaritið hans Ingólfs afa míns, sem er orðið svo slitið að blaðsíðurnar eru lausar frá kilinum, hefur orðið uppspretta siðferðislegra vangaveltna undanfarnar vikur. Við mærum bókina endilanga, gælum við orðin og hvíslum okkar á milli meðan við skeggræðum boðskapinn sjálfan; hugrekki vinnukonunnar sem ákallaði Guð og kvað niður Djáknann á Myrká með hjálp góðra manna, að ógleymdri slægð Sæmundar Fróða sem sneri á Kölska með lausu kápulafi yfir aðra öxl er hurð skall nærri hælum.

Það er ég sem kasta ruðum í púkann, sem fitnar á fjósbitanum næstu daga meðan ég blóta norskum sérkennara i sand og ösku við samlanda mína. Upphef ágæti Gilitruttar og sver þess eið að verja jólasveinana þrettán með kjafti og klóm svo hjálpi mér Grýla og jólakötturinn.

„ … ef hún spólar í barnið og lítillækkar Leppalúða, þá brjálast ég.”

Okkur semur ekki nema sæmilega, mér og norska sérkennaranum sem er sannfærð um að rökfesta, rólyndi og algert gagnsæi í frásögn hugnist ungum börnum best. Hér á takast skörp rökfesta grunnskólakennara og og síbreytileg sköpunargáfa sjö ára nemenda sem ver eigin þjóðmenningu til siðasta blóðdropa. Með klaufalegri nálgun sinni og í hverri setningu hefur konan kennt okkur mæðginum hversu dýrmætt umburðarlyndi í raun er og hamlandi þröngsýni getur orkað.

„Ég vil vera Íslendingur, mamma” svarar hann aðspurður fáeinum dögum seinna þegar ég inni hann eftir því hverrar þjóðar hann hneigist til. „Þegar ég verð stór, ætla ég að lesa allar sögurnar í grænu bókinni fyrir börnin mín.”

Þennan pistil er að finna á blaðsíðu 20 í afmælisriti Kvennablaðsins sem kom út í nóvember sl. Tímaritið, sem finna má á völdum kaffihśuum og öllum verslunum Krónunnar, má einnig lesa í vefútgáfu HÉR

screenshot-kvennabladid.is 2015-11-27 12-13-20

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!