KVENNABLAÐIÐ

Kæra Deitbók: Af hverju hefur hann ekki samband?

Það er laugardagskvöld og ég stekk upp í bíl, spennt fyrir kvöldinu.  Ég er á leiðinni að hitta vinkonu mína í smá heimapartýi og það er alltof langt síðan ég gerði eitthvað annað en að vinna.  Ég þekki enga nema hana í þessu partýi en mér er alveg sama; alltaf gaman að hitta nýtt fólk.  Ég ákveð að koma við á einum skemmtistað, til að heilsa upp á vinkonu, sem er þar að vinna á barnum.

Á leiðinni út sé ég strák sem ég kannast við. Jú, þetta er Markús. Hann var í sama grunnskóla og ég en ég þekki hann í raun ekkert. Hann er árinu yngri en ég en man samt vel eftir honum og hann eftir mér. Hann var alltaf sætur, virkaði sjálfsöruggur og skemmtilegur og eftir smá spjall kemst ég að því að hann er það ennþá.  Hann segist ekki vera með nein plön fyrir kvöldið þegar ég spyr hann út í þau.  Vinir hans eru á leiðinni heim fljótlega.

Viltu ekki bara koma með mér?“ spyr ég hann á léttu nótunum. Hann segist vera til í það sem var ekki svarið sem ég bjóst við en ánægjulegt svar samt sem áður.  Ég elska svona spontant fólk sem bara gerir það sem þeim dettur í hug hverju sinni og eru óhræddir við að mæta í partý með fólki sem það þekkir ekki neitt.  Ég bíð úti í bíl á meðan hann stekkur inn til að ná í jakkann sinn og við hjálpumst að við að finna þetta blessaða partý sem tók sinn tíma.

Hurðin opnast og þar stendur maður sem ég þekki ekki en er vinur vinkonu minnar. Ég tek í hendina á honum og kynni mig. Hann snýr sér að Markúsi til að taka í hendina á honum spyr: „Ert þú maðurinn hennar Vöku?“ Ég er með NEI fremst á tungunni en Markús er fyrri til að svara og segir JÁ, og leggur hendina yfir axlirnar á mér.

Maðurinn sem opnar hurðina fer inn og ég get ekki annað en hlegið.

Ætlarðu að fylgja mér inn, kæri eiginmaður?“

Allt kvöldið ávarpar hann mig sem konuna sína og ég hann sem manninn minn. Kannski höfðu drykkir kvöldsins eitthvað með það að gera hvað okkur fannst þetta fyndið.

Ég hefði alveg eins getað komið með dansandi fíl, trúð og töframann með mér í þetta partý, svo skemmtilegur er hann.  Hann verður strax miðpunktur athyglinnar og fær alla til að liggja í hláturskasti. Ég sem óttaðist að það yrði vandræðalegt að taka hérna ókunnugan mann með mér.

Við förum flest úr partýinu eftir einhvern tíma og niður í bæ. Við drekkum aðeins of mikið, dönsum og hlæjum og á miðju troðfullu og sveittu dansgólfinu kyssir hann mig. Þegar staðurinn lokar tökum við leigubíl heim til mín. Kynlífið er furðulega gott og sérstaklega miðað við hvað við bæði vorum orðin drukkin. Í sannleika sagt man ég ekki mikið hvernig þetta endaði. Held að hann hafi sagst þurfa að fara þegar ég var að sofna.

Ég vakna sátt og þunn með úfið hár og með málninguna í klessu. Vá, hvað það var gaman í gær, bjóst ekki við því að þetta yrði svona skemmtilegt.  Ég heyri samt ekkert frá honum þann daginn.  

Ég heyri ekkert frá honum daginn eftir það heldur. Ekki einu sinni vinabeiðni á Facebook. Er ég léleg í rúminu eða? Of auðveld?  Hann var svona rosalega áhugasamur og síðan bara allt í einu enginn áhugi. Ég er alveg búin að bæta smá á mig … nei, hann sagði mér oft hvað honum fyndist ég flott og það eftir að ég fór úr fötunum. Hlýtur að vera eitthvað sem ég gerði.

Dagarnir líða og ég heyri ekkert frá honum. Við skiptumst reyndar aldrei á númerum. Hvað heitir hann aftur fullu nafni? Hann kannski man ekkert hvað ég heiti heldur.

Tvær vikur líða og ég er aftur stödd niðri í miðbæ þegar ég sé hann hinu megin við götuna. Ég brosi þegar hann lítur á mig og hann brosir á móti en verður síðan flóttalegur og fer inn á staðinn sem hann stóð fyrir utan. Ég held mínu striki og spái ekki mikið í þessu en hugsa samt að það væri reyndar gaman að hitta hann aftur. Kannski vissi hann ekki hvernig hann ætti að hafa samband við mig. Nei, þá hefði hann labbað upp að mér þegar hann sá mig. Gleymum honum bara.

Ég segi vinkonu minni, sem var með mér í partýinu, frá þessu daginn eftir að ég sé hann og hún finnur hann á Facebook. Ég hafði ekki lagt í það að fara í gegnum alla sem Markúsa á Facebook til að finna hann og vildi ekki virka eitthvað desperate. Af hverju er það samt þannig að ég get ekki haft samband að fyrra bragði án þess að líða asnalega? Hæ, manstu eftir mér? Þú varst inní mér þarna um daginn, hvað er að frétta?”

Vinkona mín snýr tölvusjánum að mér og segir: Ég held ég viti af hverju hann hagar ser svona …“

Auðvitað! Hann á kærustu! Og þau virðast hafa verið saman lengi miðað við allar myndir af þeim saman þar sem þau líta út eins og ástfangnasta par í heimi.

Það útskýrir ýmislegt. Finnst hann þó heldur hugaður að fara með mér hingað og þangað, hitta ókunnugt fólk og segja því að ég sé konan hans og kyssa mig á troðfullum skemmtistað þegar hann á kærustu.

Ég ætla að senda honum vinabeiðni,“ segir vinkona mín og sjá hvort hann samþykkir.

Hann samþykkti aldrei og ég hef hvorki séð hann né heyrt frá honum síðan.

Ég held það sé bara fínt að heyra ekkert frá honum aftur.

Þín,
Vaka Nótt

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!