KVENNABLAÐIÐ

Vöðvafjöll og bældar konur

Jæja, þá er það komið á hreint. Rómantískar skáldsögur eru óhollar fyrir fólk. En er það eitthvað sem við vissum ekki fyrir?

Þær fjalla oft á tíðum um óhamingjusamar, einmana og bældar konur og vel „niðurvaxna“ menn sem „taka“ þær og vekja þær þannig til aftur til lífsins. Aldrei er notaður smokkur né aðrar verjur. Þær verða mjög auðveldlega ófrískar og raðfullnægingar eru daglegt brauð eftir að þær hafa hitt vöðvafjallið með mjúka, dökka hárið.

Það skrifar enginn um sjálfsörugga, ánægða og fullnægða konu sem kynnist manni sem er minni en hún og með lítið undir sér í þokkabót. Þó að veruleikinn sé oft á tíðum alveg örugglega nær því en hitt.

Einhvern tímann heyrði ég nokkuð góða skilgreiningu á þessum bókum; Húsmæðraklám voru þær kallaðar. Ég get ekki verið annað en sammála því. Ég er sek um að hafa svolgrað þessar bækur í mig hér á árum áður. Það var þegar ég var einhleyp og einmana og beið eftir vöðvatrölli sem kæmi með bólgna karlmennsku sína inn í líf mitt og bjargaði mér frá eymdinni og volæðinu.

En ég hætti þeim lestri eftir að hafa fundið öllu raunverulegri skáldsögur. Stephen King bækur! Sögur hans um fólk með ofurkrafta, skrímsli frá öðrum víddum og bíla frá Helvíti, eru líklegri til að rísa raunverulegar upp frá blaðsíðunum heldur enn froða ástarsöguhöfundanna.

Susan Quilliam, sálfræðingur sem er sérfróð í samböndum, er einn vinsælasti „Kæri sáli“ í Bretlandi. Hún talar um í viðtali að fjöldi kvenna leiti til hennar, fullar vonbrigða, vegna raunveruleikans sem er svo frábrugðinn því sem þær höfðu búist við eftir lestur á þess háttar bókmenntum.

Eftir að hafa sett í gang rannsókn á málinu þá hafi hún farið að gera sér grein fyrir því að slíkur lestur sé í reynd ekki hjálplegur.

Þó hafi nokkrar konur sagt henni að eftir lestur á erótískum ástarsögum, hafi þær farið að vera örlítið ævintýragjarnari með mökum sínum og farið að krydda kynlífið.

Susan, sem fær yfir 25 þúsund bréf á ári hverju, segir „að stundum sé það það besta og skynsamlegasta sem hún geti gert fyrir skjólstæðinga sína sé að hvetja þá til að leggja frá sér bækurnar – og taka upp raunveruleikann.“

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!