KVENNABLAÐIÐ

Ellefu ráð til að lifa með langvinnri þreytu

Þessi grein er eftir Rev. Dr. Lynn Vanderhoof, D.min, Thomas Jefferson University Health System, en hún er sjúkrahúsprestur.

by the Rev. Dr. Lynn Vanderhoof, D.min., Thomas Jefferson University

  1. Ekki láta “hugulsama” vini og fjölskyldumeðlimi vekja með þér sektarkennd yfir því sem þú ekki getur gert eða tekið þátt í. Í sannleika sagt hafa þeir engan skilning á því hvað líkami þinn og sál eru að fara í gegnum. Reyndu að vera blíð og elskuleg við þá og biddu þá um að sýna þér sama viðmót. Gerðu ráð fyrir að orsökin að viðmóti þeirra sé skilningsskortur. Eigi í hlut fólk sem þér þykir vænt um og skiptir þig máli, reyndu þá að útskýra hvers þú þarfnast. Sumir eru samt þannig gerðir að þeir þekkja ævinlega einhvern sem…bla bla bla… og sú manneskja virðist algjör hetja samanborið við þig. En veistu bara hvað? Það er enginn eins og þú. Það dregur úr þér kraft og tefur fyrir bata þínum ef þú tekur mark á samanburði við aðra manneskju sem hugsanlega er í allt öðrum sporum en þú. Mundu að þú ert einstök.
  1. Ákveddu daglega hvað þú ætlar að láta ganga fyrir. Reyndu að gera eitthvað sem styrkir þig og nærir. Einbeittu þér að því eða einhverju öðru á þeim tíma sem orka þín er mest. Hafðu róleg atriði á dagskrá það sem eftir er tímans. Rólegt atriði telst t.d. að lesa fyrir sjálfa þig eða börnin, hvílast, hlusta á tónlist. Börnin reyna á þig (af því að þannig eru börn), en þeim mun lærast að virða þörf þína fyrir hvíld á meðan þú ert að ná þér.
  1. Hafðu fólk í kringum þig sem styrkir þig. Það er lífsins ómögulegt að halda sjálfum sér gangandi í glímu við langvinna þreytu hjálparlaust. Við verðum því að treysta á annað fólk, Þó EKKI fólk sem á einhvern hátt reynir á þolrifin eða vill fá þig til að leggja harðar að þér en þú ræður við. Þú þarft á fólki að halda sem getur komið þér til að hlæja, sem virðir takmarkanir þínar og hjálpar þér til að yfirstíga þær eftir því sem þú treystir þér til.
  1. Slepptu því sem skiptir litlu máli. Geturðu leyft sjálfri þér að forgangsraða upp á nýtt, að minnsta kosti í bili? Hvað er það sem verður að gerast hvað sem það kostar og aðeins þú getur gert? Getur einhver aðstoðað þig við það sem er mikilvægt en þú ræður ekki við sjálf? Geturðu sætt þig við að leyfa öðru að bíða um sinn? Móðir mín kenndi mér dýrmæta lexíu. Þegar hún var ung var allt svo hreint hjá henni að það var ýkjulaust hægt að borða af gólfunum hennar. Og ekki bara gólfunum því að hún skúraði líka gangstéttina fyrir framan húsið okkar (arfleifð frá hollenskum formæðrum hennar!). “Vorhreingerningu” gerði hún einu sinni í mánuði, stundum vikulega. Síðar á ævinni þegar hún var orðin veik sagði hún: “Svo framarlega sem ekki er drasl um öll gólf og vaskurinn fullur af óhreinu leirtaui eða ryk yfir öllu, þá finnst mér heimilið í góðu lagi.” Ótrúlegt! Hvílík yfirlýsing frá móður minni sem ég mundi varla eftir öðru vísi en með tusku á lofti! Þó að ég geri ekki sömu kröfur og hún, lifi ég engu að síður eftir því fordæmi sem hún gaf mér í veikindum sínum – geri það sem ég get og skiptir máli en læt afganginn eiga sig.
  1. Hafðu jákvætt fólk í kringum þig. Þá á ég ekki við ómeðvitað fólk sem afneitar raunveruleikanum. Ég á við fólk sem getur hlegið með þér að ýmsum skrýtnum aðstæðum sem veikindi þín og þreyta hafa framkallað og tekið undir með þér þegar þú gefur tóninn. Um daginn hrasaði ég á leið úr sturtu og tókst hreinlega ekki að komast á fætur í um það bil fimm mínútur (þótt mér fyndist líða miklu lengri tími). Þegar liðin var dálítil stund og ég farin að jafna mig, sá ég hvað aðstæðurnar voru fyndnar og fór að hlæja. Það rifjaðist upp fyrir mér svipað atriði í gamanmynd og gat ekki hugsað um annað. Þegar ég rifjaði þetta upp seinna með vinum og fjölskyldu sem gátu hlegið að þessu með mér, eyddi það skelfingunni sem fylgdi fyrstu augnablikunum eftir að ég datt.
  1. Vertu góð við sjálfa þig. Mitt í allri þreytunni er eins og við höfum sumar hverjar sjúklega ánægju af því að skamma sjálfar okkur fyrir það sem við getum ekki “en ættum að gera”. Þessar ásakanir í eigin garð taka frá okkur orku sem við höfum ekki ráð á að missa og auka á þunglyndið sem fylgir þreytunni. Vertu góð við sjálfa þig og gerðu eitthvað fyrir þig þótt þú sért óvön því.
  1. Virkjaðu andlegan auð þinn. Þetta er vandmeðfarið efni því oft þegar minnst er á eitthvað andlegt heldur fólk að átt sé við aðeins eitt – bænir – og fullyrðir að þær virki ekki. Bænir eru vissilega mikilvægur þáttur í andlegri iðkun en hafðu samt hugfast að líklegt er að bænheyrslan láti á sér standa ef þú biður um að þreytan hverfi tafarlaust. Auk þess getur það hindrað þig í að leita annarra leiða felist í bæninni afneitun á ástandi þínu. Hefurðu efni á því að biðja Guð eða æðri mátt um hjálp og sitja svo með hendur í skauti og bíða? Andleg iðkun getur verið svo margt fleira en bænir og er í rauninni flest það sem hressir og nærir anda þinn – tónlist, náttúran, hugleiðsla, innhverf íhugun, listir, ritningin, trúarrit af öllum toga, að skrifa dagbók um allt sem jákvætt er, hlátur, að deila gleði með öðrum, næra aðra og þiggja næringu, andlegar samkomur og fleira og fleira.
  1. Segðu sjálfri þér án afláts “ég kemst í gegnum þetta”. Með “þetta” er ekki átt við sjálfan sjúkdóminn sem herjar á konur um heim allan eða þreytuna (sem er of mikil til að hægt sé að takast á við hana alla í einu) heldur miklu fremur “þetta AUGNABLIK”, þessa andrá. Þreytan líður hjá jafnvel þótt það sé aðeins fáein augnablik í senn. Beindu því huganum að því sem þig langar til að gera um leið og þú treystir þér til í stað þess að dvelja við það sem þú getur ekki á því andartaki sem er að líða ef þú mögulega getur. Það er ótrúlegt hve mjög það hjálpar að flytja áhersluna frá neikvæðri hugsun yfir í jákvæða. Möguleikar mínir á að njóta og aðhafast þegar orkustundirnar gefast hafa aukist til muna við að ná tökum á því.
  1. Mundu að afköst eru stórlega ofmetin. Flestir meta sjálfa sig út frá því hvað þeir gera, en snýst lífið ekki fremur um að vera en að gera? Ég er ekki að leggja til að fólk verji ævinni í “leti og ómennsku” – ég er bara að minna á að mikilvægast í lífinu er hver við raunverulega erum og það sem við getum gefið öðrum af sjálfum okkur, hve dýrmætt það er að gefa sér tíma til að hlusta og vera fullkomlega nærstödd hvert fyrir annað. Innsta þrá allra að vera séð og heyrð þótt við viljum ef til vill ekki kannast við það. Þú getur svo sannarlega gefið með því að hlusta ekkert síður en aðrir.
  1. Gerðu tilraunir með nýjar aðferðir við slökum. Hugsanlega finnurðu orku þína aukast. Hugsanlega kemstu að raun um að þú býrð yfir hæfileikum sem þú vissir ekki af áður.
  1. Leitaðu uppi fólk í sömu sporum. Þessu ráði fylgir einnig viðvörun. Til eru stuðningshópar sem ekki eru góður félagsskapur og ég forðast eins og heitan eldinn. Hvers vegna? Vegna þess að fólkið er svo upptekið af sjúkdómi sínum og útlistunum á því sem það ræður ekki við. Ég hef aftur á móti þörf fyrir að vera með fólki sem er að gera það sama og ég – leita leiða til að bæta í gleðina og orkuna hjá sjálfri mér þótt ég þurfi að sætta mig við takmarkanir. Það er fullt af fólki sem er sama sinnis og ég. Leitaðu uppi fólk sem deilir afstöðu þinni. Þú getur spurt lækni þinn eða hjúkrunarfræðing hvort þeir þekki einhvern sem getur hjálpað þér að vinna þig í gegnum þreytu. Stofnaðu til kynna við fólk sem skilur og dæmir ekki.

Dr. Vanderhoof hefur líka sett saman ráðleggingar sem hún kallar Níu ráð til að MINNKA STÓRHVELIÐ (sem er tákn fyrir óttann við brjóstakrabbamein).

 

screenshot-www.brjostakrabbamein.is 2015-09-30 19-42-38

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!