KVENNABLAÐIÐ

E R Ó T Í K: Hvað merkja eiginlega kynlífsdraumar?

Hvað þýðir að dreyma að maður sofi hjá yfirmanni sínum? Hvað þýðir það að dreyma framhjáhald? Eða þegar maður finnur engan stað til að njóta elskhuga síns? Hvað með að stunda kynlíf á almannafæri?

Öll höfum við einhverju sinni haft heppnina með okkur í draumalandi. Draumreiðin sú arna snerist jafnvel um sjóðheitan fola á borð við Josh Hartnett. Kannski lagðir þú að baki lífsreynslu með lokuð augun, sem var hreint út sagt skrýtin (þú gætir hafa sparkað af þér stígvélunum með gjaldkera fyrirtæksins í draumalandi). Hvort sem er, er ástæða fyrir því að umræddir draumar fóru gegnum huga þinn að nóttu til og þeir hafa vissulega ákveðna merkingu líka.

Kynferðislegir draumar fletta ekki aðeins ofan af þörfum þínum og þrám heldur afhjúpa þeir einnig það sem þú óttast helst. Undirmeðvitund þín notast við hráar, lostvekjandi athafnir til að gera upp tilfinningar sem þú neitar jafnvel að horfast í augu við meðan hugur þinn er vakandi og sístarfandi að degi til.

Kannski þú gerir þér þegar grein fyrir því að draumarnir veita þér aðgang að eigin sálarlífi, en vissir þú að merking þeirra er oft hulin óljósum táknum? Í raun og veru eru allra skýrustu táknin ekki einu sinni kynferðisleg í eðli sínu. Saklausar draumfarir um flugferðir gegnum himinbláan fjarska; draumar sem snúast um silkimjúka lokka og fjaðurmagnaða hárbursta?

Draumar af þessu tagi eru hlaðnir kynferðislegri merkingu. Þó draumfarir séu einstaklingsbundnar og dagleg verkefni séu breytileg hjá hverjum og einum, eiga þó táknin eitthvað sammerkt hjá öllum. Við leituðum víða fanga við efnisöflun og heimildaúrvinnslu við gerð þessarar greinar í þeim tilgangi að varpa ljósi á algengustu tákn sem koma fyrir í kynferðislegum draumum.

Vonum við að eftirfarandi, sem gert er jafnt til gamans og alvöru, varpi ljósi á margbreytileg tákn og hjálpi þér að lesa enn fremur í ævintýri komandi nátta.

AÐ LESA Í KYNFERÐISLEGA DRAUMA

Lostvekjandi athafnir með undarlegum elskhuga/ástkonu

Hvað snúast þeir draumar um sem innihalda lostafullt kynlíf með besta vini þínum, yfirmanni eða þjónustufulltrúanum í bankanum? Dragðu ekki ályktanir of snemma; þó þér þyki liggja í augum uppi að þú lumir á lostafullum tilfinningum í garð viðkomandi er merking drauma af þessu tagi allt önnur.

„Sennilega dáist þú að eiginleikum sem viðkomandi býr yfir og þráir að þróa og næra þann eiginleika með sjálfri þér,“ segir Patricia Garfield, höfundur bókarinnar Creative Dreaming. „Velgengni yfirmanns þíns kann að vera eitthvað sem þú þráir og sjálfstraust besta vinar þíns kann að vera eftirsóknarverður eiginleiki í þínum augum.“

Þær nætur sem fela í sér himnesk ástarævintýri með Hollywoodstjörnum á borð við Patrick Dempsey eru alger draumasending. En þó lostavekjandi ævintýri með kvikmyndastjörnum geti einfaldlega verið konfekt fyrir sálina sem hugur þinn finnur upp á sér til gamans eingöngu, getur draumurinn þó falið í sér dýpri merkingu, að mati Garfield:

„Einhleypir hugsa oft um þá spennandi möguleika sem bíða handan við hornið, alla heitu sjarmörana og gullfallegu konurnar sem eru tilkippilegar í daglegu lífi. Þessir draumar gefa einnig til kynna hvaða eiginleikum við leitum eftir í maka.“

Draumurinn getur líka varpað ljósi á þá eiginleika sem þú þráir að sjá í fari maka þíns en telur hann eða hana skorta – ef þú aftur á móti ert himinlifandi yfir makavali þínu – er draumurinn einfaldlega staðfesting á því að þú hafir skorað hjá raunverulegum karlmanni eða fullkominni konu. Í þessu tilfelli er draumurinn einfaldlega staðfesting á því að þú hafir fundið þann maka sem þú þráir að eyða lífinu með.

Engin staðsetning til að elskast

Í þessum draumi leitar þú í örvæntingu að ákjósanlegum stað til að njóta ásta með elskhuga þínum eða ástkonu, en vandamál birtast á hverju horni og gera ykkur ókleift að athafna ykkur.

„Þetta gefur til kynna að nándarfælni hafi gert vart við sig milli ykkar,“ útskýrir Jane Holloway, höfundur bókarinnar Erotic Dreams. „Konur fá gjarna drauma af þessu tagi stuttu eftir sambandsslit, eða rétt áður en sambandsslitin sjálf eiga sér stað.“ Draumar af þessu tagi gefa yfirleitt til kynna að þó þú hafir reynt tilhins ítrasta að láta sambandið ganga upp, hafi eitthvað – sennilega ólík markmið – komið í veg fyrir tilætlaðan árangur.

Ef þú ert aftur á móti í traustu tilfinningasambandi, getur draumurinn gefið til kynna að þú sért að reyna að yfirstíga einhverja hindrun í sambandinu – hvort sem vandinn tengist fjarlægð í daglegu lífi eða einfaldlega óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Kynlíf á almannafæri

Þú ert stödd/staddur mitt í æsispennandi ástarleik og áttar þig skyndilega í miðjum klíðum, lítur í kringum þig og áttar þig á því að þið eruð stödd á leiksviði – eða jafnvel í herbergi sem er yfirfullt af fólki.

Og það sem meira er; allir eru að horfa á ykkur.

„Ef þér finnst athyglin óþægileg, gæti það bent til þess að þú hafir áhyggjur af því að einkalíf þitt sé milli tannana á fólki í daglegu lífi,“ segir Holloway. Veltu því aðeins fyrir þér: Ertu hrædd/ur um að vinum þínum líki ekki makaval þitt? Hófst samband ykkar meðan elskhugi þinn eða ástkona þín var í enn í öðru tilfinningasambandi? Ef þú á hinn bóginn nýtur athyglinnar í draumnum og finnst lostvekjandi að njóta áhorfs, bendir merking draumsins aftur á móti til þess að þú sért stolt/ur af kynlífi þínu og að þér þyki sú tilhugsun æsandi að fólk fái að vita um kynlíf ykkar.

Þú ert maka þínum ótrú/r

Það getur verið virkilega óþægilegt að dreyma eigið framhjáhald. En merkingin er önnur en ætla mætti og þarf ekki að þýða að þú þráir að taka hliðarspor. Holloway útskýrir þessa gerð drauma á einfaldan og auðskiljanlegan hátt og segir slíka drauma yfirleitt eiga sér stað í kjölfar breytinga í sambandinu; jafnvel rétt eftir að trúlofun á sér stað.

„Draumar af þessu tagi geta endurspeglað óöryggi í kjölfar slíkra breytinga. Slíkt þarf þó ekki að merkja eftirsjá, heldur einungis eðlilegar áhyggjur af ákvörðun þinni, líkt og að þú hafir nú lokað fyrir alla aðra möguleika eða eigir eftir að uppgötva einn góðan veðurdag að maki þinn hentar þér alls ekki.“

Ef draumurinn snerist hins vegar um framhjáhald maka, verður þú að líta í eigin barm eftir ráðningunni og spyrja þig hvort þú eigir eitthvað óuppgert við maka þinn eða berir kala til hans. Holloway vill þá meina að svarið sé að finna í eigin ranni.

„Draumar af þessu tagi geta afhjúpað óendurgoldna ást eða tilfinningalegan óstöðugleika í sambandinu; kannski tekur maki þinn vinnuna fram yfir einkalífið; jafnvel lítur þú samband ykkar alvarlegri augum en hann gerir. Hver sem ástæðan er, bendir draumurinn til tilfinningalegrar togstreitu í sambandinu og ágreinings sem þú átt erfitt með að leysa í vöku.“

RÁÐIÐ Í KYNFERÐISLEG SKILABOÐ UNDIRVITUNDAR

Að fljúga vængjum þöndum

Getur ekki verið að þú hafir átt í eldheitu svefnherbergisævintýri nýverið? Það myndi útskýra flug í svefni.

„Frelsistilfinningin sem fylgir því að þjóta óhindrað gegnum loftin blá getur verið leið sálarinnar til að umfaðma stórkostlegt kynlíf og fagna nýfenginni reynslu.“ útskýrir Garfield. „Kitlandi nautnatilfinningin sem fylgir því að fljúga í draumi er álíka þeim unaði sem þú upplifir við fullnæginguna sjálfa.“

Ef umrætt á ekki við um þig og þú hefur ekki farið á stefnumót lengi, er háloftareynsla þín aftur á móti að hvetja þig til dáða. Flugferðin stendur þá fyrir þrá þinni eftir eldheitu ástarævintýri með tryllingslega flottum fola eða löngun þinni eftir að heyra stóra „E“ orðið frá elskhuga eða ástkonu í fyrsta sinn.

Maður sem heldur á reðurlaga hlut í draumi

Ok. Ef þig dreymir karlmann með derhúfu í hendi (hún er framstæð) eða með lurk undir upphandleggnum, taktu vel eftir – ef þú ert kona. „Þetta merkir að þú laðast að ákveðnum manni; tvennt kemur þó til greina. Annað hvort ertu ekki nægilega meðvituð um eigin tilfinningar eða þú einfaldlega vilt ekki viðurkenna að þú laðist að honum,“ útskýrir Holloway.

Hvort sem þú laðast að karlmanni sem er ekki „þín týpa“ eða karlmaður sem er utan seilingar, getur verið reyndin; jafnvel getur verið um besta vin elskhuga þíns að ræða. Vittu til, karlmaðurinn sem þú þráir á laun þarf ekki endilega að vera þess virði, þegar upp er staðið.

Draumar sem innihalda dýr

Birting fola eða stóðhests í draumi gefur til kynna að þú sért í tengslum við frumhvatir þínar. „Að ríða á harðastökki á stæðilegum fola merkir að þér líði vel, sért vel upplýst og við kynferðislega stjórn í eigin lífi,“ segir Holloway. Taktur og hraði hestsins er þá í nánum takti við þann stöðuga takt sem kynlíf felur í sér („Það sama á við um alla hreyfingu í draumi; allt frá því að sveiflast í rólu til þess að klifra stiga,“ segir Garfield einnig) og það eitt að sitja ofan á stóru, stæðilegu og kraftmiklu dýri er einungis bergmál af þeim unaði að njóta ásta.

Ekki eru þó allir dýradraumar jákvæðir. Gayle Delaney, höfundur bókarinnar All About Dreams segir skordýr með skelplötu eða snákamartröð (halló, talandi um reðurtákn!) benda til þess að þú hafir áhyggjur sem eru vel hugsanlega kynlífstengdar. „Flestir tengja snáka við undirferli,“ bætir Garfield þá við. „Slíkir draumar geta bent til þess að þú hafir nýverið tekið upp samband við einstakling sem er óheiðarlegur í eðli sínu; jafnvel er um karlmann að ræða sem er einungis á höttunum eftir kynlífi eða hefur eitthvað óhreint í pokahorninu, sem tengist kynferðislegri fortíð hans.“ Slíka drauma má vel kalla innsæi … í fantasíuformi.

Sítt, glóandi og mikið hár í draumi

Að dreyma að þú sért með glóandi lokka sem streyma eins og foss niður bakið á þér er kynferðisleg köllun í draumi – þú hefur látið kynlífið sitja á hakanum of lengi og ert loks reiðubúin að vekja upp eigin losta og fullnægja þörfum þínum. „Sítt og mikið hár í draumi merkir líkamlega munúð og kvenleika, slíkir draumar eru að hvetja þig til að láta náttúruna ráða ferðinni,“ segir Holloway að lokum. Með það fyrir augum hvetjum við þig eindregið til að láta af frestunaráráttunni og hefja leitina að því fjöri sem þig hefur alltaf … uh … dreymt um.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!