KVENNABLAÐIÐ

12 ára drengur sýknaður af 16 milljóna skaðabótakröfu fyrir að faðma frænku sína

Hin 54 ára gamla Jennifer Connell, sem stefndi 12 ára gömlum frænda sínum fyrir rétti og fór fram á tæplega 130.000 Bandaríkjadali í skaðabætur, sem samsvarar tæpum 16 milljónum íslenskra króna, gekk slipp og snauð frá réttinum nú í síðustu viku, en kviðdómur kvað upp einróma úrskurð sinn eftir einungis 25 mínútna samráð.

Jennifer, sem starfar sem mannauðarstjóri og er barnlaus sjálf, stefndi barninu fyrir rétti vegna þess að drengurinn, sem missti móður sína fyrir ári síðan, felldi frænku sína um koll af einskærri gleði þegar hann bauð hana velkomna í 8 ára afmælisveislu sína. Sagði Jennifer að barnið hefði sýnt af sér ógætilega hegðun þegar hann kastaði frá sér eldrauðu tvíhjóli, fleygði sér í fang frænku sinnar og hrópaði: „Takk fyrir að koma í afmælið mitt! Ég elska þig, Jennifer frænka!”

article-auntjen-1013
Jennifer hlaut lögreglufylgd frá dómssal eftir uppkvaðningu

Umrætt atvik átti sér stað árið 2011 og olli því að bæði féllu um koll en Jennifer úlnliðsbrotnaði fallið, að sögn Westport News sem sendi blaðafulltrúa sinn á staðinn sem viðstaddur var dómsuppkvaðningu sl. mánudag. Málssókn Jennifer byggði á því að frændi hennar, þá átta ára gamall, hefði sýnt af sér afar ógætilega hegðun með því að faðma hana og hefði hún liðið vítiskvalir í kjölfar úlnliðsbrotsins.

Þá sagðist Jennifer bera hlýjan hug til barnsins og að drengurinn hefði ávallt sýnt henni yl og kærleika í allri nálgun, en að þrátt fyrir að hún hefði borið sig vel í afmælinu sjálfu þar sem hún vildi ekki ofbjóða frænda sínum á sjálfan afmælisdaginn, hefði atvikið dregið sáran dilk á eftir sér. Hún ætti erfitt um vik með að komast upp á þriðju hæð í fjölbýlishúsi því er hún býr í á Manhattan, að því ógleymdu að mikil fólksmergð væri á Upper East Side og því yrði hún að fara varlega. Þá reyndist henni þungbært að vera búsett á Manhattan þar sem barnið hefði úlnliðsbrotið hana og liði hún enn miklar kvalir í dag, fjórum árum seinna.

„Ég var gestur í matarboði um daginn og mér varð næstum um megn að halda á hors d’oeuvre disknum, [desertdiskur upp á franska tungu, innsk. blm]” sagði hún einnig fyrir rétti, en Jennifer mætti í réttarsal með svart úlnliðsband.

Sjálfur var drengurinn, sem heitir Sean Tarala, ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu. Hann var þó viðstaddur fyrri hluta réttarhaldanna og kom í fylgd föður síns, en orkaði utangátta og ringlaður að sögn sjónarvotta. „Við getum bara ekki skellt skuldinni á drenginn“, sagði ónefndur fulltrúi kviðdóms þegar úrskurður lá ljós fyrir. „Hann er ekki ábyrgur fyrir því sem gerðist.”

Hér býr Jennifer sem sagði faðmlag barnsins hafa gjöreyðilagt líf hennar

Jennifer gekk því slypp og snauð frá dómsuppkvaðningu og greiðir málskostnað sjálf en verður af 16 milljónum íslenskra króna, sem hún fór fram á að 12 ára gamall frændi hennar reiddi fram. Fjölskylda barnsins hefur enga yfirlýsingu gefið í kjölfar dómsuppkvaðningar og neitar að ræða við fjölmiðla. 

Mashable greindi frá

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!