KVENNABLAÐIÐ

Sérsveit lögreglu réðist gegn skeggjuðum kyntröllum; töldu ISIS skæruliða á ferð

Hryðjuverkalögreglan í Svíþjóð var kölluð til nú um helgina vegna gruns um að fúlskeggjaðir skæruliðar á vegum ISIS; stæltir karlmenn í dökkum fatnaði hefðu reist fána samtakanna á voldugri hæð nokkurri þar sem yfirgefinn kastala frá miðöldum er að finna.

En þegar sérsveit lögreglunnar bar, gráa fyrir vopnum, á vettvang kom í ljós að um alþjóðlega samkomu skeggjaðra karlmenna var að ræða og að hárprúðir þáttakendur áttu sér einskis ills von þegar lögreglan lét til skarar skríða.

Um var að ræða ársfund sænsku deildar alþjóðasamtakanna Bearded Villains, sem komu saman í þeim göfuga tilgangi að fanga sænsk kyntröll á filmu við rústir miðaldarkastalans í Braehus en meðlimir reistu fána samtakanna, sem er svartur og hvítur, við hún og brostu svo sínu blíðasta. 

bearded-villains-andreas
Andreas Fransson með fána samtakanna við myndatökur

Þó hópurinn kunni að hafa litið ógurlega út úr fjarska og komið þannig vegfarendum fyrir sjónir sem alþjóðlegir hryðjuverkamenn eitt andartak, átti sérsveit lögreglunnar hins vegar ekki von á að ganga beint í flasið á einum þrjátíu vel snyrtum karlmennum, sem allir héldu um axlir hvers annars og hlógu dátt meðan fáninn var dreginn að húni svo mætti taka vel glæsta hópmynd af skeggjuðum Skandinavíubúunum.

Það var svo Andreas Fransson, einn af meðlimum samtakanna og stofnmeðlimur Ratemybeard.se sem skrifaði um reynsluna á Faceboook og sagði inngrip sænsku sérsveitarinnar hafa komið sér í opna skjöldu og mat lögreglunnar á að um hryðjuverkamenn væri sennilega að ræða, ekki hafa hvarflað að þeim félögum.

bearded-villains
Ekki hryðjuverkamenn; bara skeggjaðir Svíar

Andreas sagði einnig í viðtali við breska blaðið The Independent að sænska deildin hefði það ábyrgðarhlutverk að gæta fána samtakanna og að skeggprúðir meðlimir hefðu lagt einstaka alúð og natni við að koma fánanum svo fyrir að hægt yrði að taka hópmyndina með merki samtakanna í bakgrunni.

Jah, við vorum búnir að vera á staðnum í klukkutíma þegar lögreglan birtist allt í einu. Sérsveitin sagði okkur að vegfarandi hefði hringt skelfingu lostinn í neyðarlínuna og sagt að illskeyttur hryðjuverkahópur á vegum ISIS samtakanna væri búinn að taka kastalarústirnar á sitt vald.

Þá sagði Andreas einkennilegt að fólk brygðist svona heiftarlega við skeggjuðum mönnum:

Lögreglan greindi stöðuna hratt og örugglega; hér væru engir hryðjuverkamenn á ferð, heldur skeggjaðir herramenn sem væru komnir saman í þeim tilgangi að gleðjast hver með öðrum. Auðvitað var ekki annað hægt en að hlæja að þessu öllu saman, þetta var svo súrrealískt allt saman.

Þá sagði John Ekeblad, varaformaður sænsku deildarinnar í viðtali við sænska dagblaðið Sweden Metro að þrátt fyrir að uppákoman hefði í raun verið helfyndin meðan allt gekk yfir, varpaði þó atvikið ljósi á þá fordóma sem skeggjaðir karlmenn mæta í daglegu lífi.  

Hér er svo einmitt kominn einn af hornsteinum bræðralags okkar; að engan skyldi dæma fyrr en allar staðreyndir liggja ljósar fyrir. Þannig er því líka farið um skeggjuð herramenni, sem fá jafnvel að heyra á hverjum einasta degi úr einhverri átt að þeir hljóti að vera hryðjuverkamenn.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!