KVENNABLAÐIÐ

Kæra Deitbók: Þessi úr fortíðinni …

Kæra Deitbók –

Ég er 13 ára gömul og ég er að flytja með fjölskyldu minni langt frá þar sem ég hef búið með fjölskyldu minni síðustu ár.  Mér finnst ég rifin í burtu frá öllu sem ég þekki, vinum mínum og kærasta mínum sem ég átti þá.  Spurning hversu djúpstæða merkingu orðið kærasti hefur hjá 13 ára gömlum krökkum, en sorgin er mikil þegar ég er rifin frá honum.  Hann er sá síðasti sem ég hitti áður en ég flyt og við sitjum lengi í rólu fyrir framan húsið hans og segjum varla orð síðasta daginn minn í bænum.

Við kveðjumst og tölumst varla við næstu 10 árin eða svo.

Tími samskiptamiðla rennur upp. Við finnum hvort annað á MySpace og Facebook og þeim síðum en tölumst svo sem ekki mikið við. Enda búum við langt frá hvoru öðru og þekkjumst varla mikið lengur. Einstaka sinnum sendum við skilaboð og spyrjum hvort annað hvað sé að frétta en ekki mikið meir.

Svo kemur að því að við búum nálægt hvoru öðru aftur. Hann hefur samband og við tölumst við í síma sem verður síðan að símtölum á hverjum degi. Þegar ég tala við hann líður mér eins og ég hafi þekkt hann allt mitt líf, þó við höfum ekki talast við að neinu viti frá því að við vorum krakkar.  Kannski eru þau bönd sem myndast svona snemma það einstök að þau endast.

Við hittumst. Hann mætir með 2 lítil börn í bílnum og við tökum smá göngutúr og tölum saman um lífið og tilveruna, allt og ekki neitt. Við höfum bæði orð á því hversu ótrúlegt það sé að okkur líði eins og við þekkjumst vel, þó langt sé um liðið.  Furðulegt líka hvernig við höfum þróast í svipaða átt í lífinu. Við getum sagt hvoru öðru allt. Við höfum svipaðar lífsskoðanir og áhugamál en erum samt þannig að við getum sagt beint út það sem okkur finnst, án þess að óttast að hinn aðilinn bregðist illa við.

Það er bara eitt vandamál.  Hann er enn í sambandi með konunni sem hann á seinna barnið af tveimur með. Hann segir mér frá því hversu erfitt þetta samband sé, að þau hafi ekki stundað kynlíf í marga mánuði og að honum líði eins og hann geri allt fyrir fjölskyldu sína án þess að fá neitt á móti.

Jú, ég hef heyrt þessa sögu áður. Þar sem þeir hafa það svo erfitt og eiga konur sem kunna ekki að meta þá og bla bla…en þetta var öðruvísi, fannst mér allavega.  Þetta er barnaskóla-ástin mín sem er að segja mér þessa hluti og ég sé á honum að þetta sé virkilega að hrjá hann hvernig samband hans er orðið.  Hann segir mér að hann muni koma sér út úr þessu en að það taki smá tíma þar sem hann vilji ekki að börnin sín lendi á milli í enn einu rifrildinu.  Síðasti skilnaður hans var þannig að hann þurfti að berjast fyrir að hitta barnið sitt.  

Fyrir aðra sem lesa þetta hljómar þessi saga eins og mesta klisjusaga þess sem vill halda framhjá, en ég gleypi hvert orð.

Hann kemur við heima hjá mér og segist hafa átt leið hjá og við tölum saman úti á bílaplani þar sem börnin hans sofa vært í bílnum.  Hann segir mér að það hafi orðið mikið rifrildi milli hans og kærustunnar þar sem ég hafi skrifað athugasemd undir einhverja mynd hjá honum á Facebook og að hún vilji ekki að hann tali við mig. Mér þykir þetta fráleitt þarna og spyr hvort ég geti ekki bara boðið þeim í mat einhvern tímann sem æskuvinkona en fæ svarið að það sé ekki í stöðunni.  

Ég verð pínu reið út í hann fyrir að laumast til að hitta mig þegar engin ástæða er til að laumast. Af hverju er hann að halda samskiptum við mig leyndum þegar við vorum kærustupar þegar við vorum 13 ára?  Það er ekki eins og það þýði neitt í dag… eða það var mín barnalega skoðun.

Í þriðja skipti sem hann hittir mig, inn á milli þúsund skilaboða og símtala kemur hann einn.  Og það bara gerist.  Gegn allri minni sannfæringu um hvað er rétt og hvað er rangt kyssir hann mig og það leiðir fljótt út í meira.  Það kemur oft upp í huga minn að ég sé að gera eitthvað virkilega rangt og ég segi það við hann. Hann segir mér að það sé þá hann sem sé að gera eitthvað rangt en ekki ég og að samband hans sé ekki neitt lengur.  Hann muni enda það.

Við getum ekki sagt neitt annað en eftir þessa sprengingu sem þarna varð. Ætli við hefðum haldið áfram að vera saman ef ég hefði ekki flutt? Varla líklegt þar sem við vorum að detta inn í unglingsárin með tilheyrandi vandræðaleika og drama. Hér höfðum við bara sakleysislegar, góðar minningar af hvoru öðru og síðan hittumst við sem fullorðnir einstaklingar sem vitum hver við erum.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en þarna, þá voru áhyggjur kærustu hans á rökum reistar og ástæðan fyrir því að hann hélt samskiptum við mig leyndum var sú að það voru ennþá tilfinningar til staðar, eftir öll þessi ár.  Hvað við ætlum síðan að gera í þeim er síðan allt önnur spurning sem ég hef ekki svarið við.

Ég hvet hann til að enda sambandið við kærustu sína ef það er svona slæmt eins og hann segir, en er á sama tíma ekki viss um hvort ég sé tilbúin til að stökkva út í eitthvað meira með honum strax.  Er ástæða fyrir mig að skemma samband hans ef það verður síðan ekkert meira hjá okkur?  Ef okkar samband hefst á framhjáhaldi, hversu líklegt er að okkar myndi enda út af sömu ástæðu?

Öll bein í líkamanum á mér segja mér að þetta sé rangt en á sama tíma get ég ekki sagt nei.  Ég spyr hann eftir þennan hitting okkar hvað hann myndi gera ef hann kæmi heim og kærasta hans myndi vilja kynlíf eftir að hann væri búinn að vera hjá mér. Hann segir mér að það séu nákvæmlega engar líkur á því að það myndi gerast og ef að það myndi gerast þá er það ekkert þannig að hann eigi að vera tilbúinn til að stunda kynlíf með henni akkúrat þegar henni hentar, eftir að hún hafi fryst hann í marga mánuði.  Löngun hans til þess að vera með henni væri bara engin.  

Þegar hann spyr mig síðan hvort við getum hist aftur spyr ég hann hvort það sé ekki eitthvað annað sem hann þurfi að gera áður en hann hittir mig aftur. Hann játar því og segir mér svo að ég væri stóra ástin í lífinu hans og að hann hafi verið niðurbrotinn þegar ég flutti á sínum tíma.

Fullkomin ástarsaga, ef hann ætti ekki kærustu.

Þegar allt er rangt við það sem við erum að gera en á sama tíma líður manni eins og varla neitt hafi verið réttara, hvað gerir maður þá?

Þín,

Vaka Nótt

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!