KVENNABLAÐIÐ

Hrikalegt fótósjoppklúður hjá Victoria Secret veldur reiði og hneykslan

Það er ekkert leyndarmál að Victoria Secret velur grannvaxnar fyrirsætur til að kynna undirfatalínu fyrirtækisins og varla nokkuð launungarmál heldur að fyrirsætur eru fótósjoppaðar í bak og fyrir á auglýsingamyndum.

En síðasta útspil undirfatarisans er síður en svo til eftirbreytni og í raun svo hneysklanlegt að varla er að furða þó almenningur spyrji sig hvort markaðsdeildin sé gengin af göflunum. Svo illa heppnaðist nefnilega til þegar fyrirtækið deildi ljósmynd af fyrirsætu í nærbuxum einum fata á Facebook fyrir fáeinum dögum síðan, að aðra rasskinnina vantaði með öllu á stúlkuna og ekki fer milli mála að búið er að afbaka bæði lærin hressilega:

12063496_10153707430409090_100051216669192356_n (1)

Ljósmyndin hefur vakið undran og viðbjóð almennings og eins og sjá má í athugasemdakerfi VC neðan við myndina sjálfa á Facebook, hefur fólk einfaldlega fengið fyllilega nóg. Ófáar mótmælaherferðir hafa gengið stórum á netinu undanfarin misseri og hefur fyrirtækið legið undir miklu ámæli fyrir að framleiða annars fallegan undirfatnað í örsmáum stærðum en hafna með öllu að bjóða upp á undirfatnað í stærri númerum. Meðal þeirra athugasemda sem hafa farið hvað hæst eru þær vangaveltur hvers vegna nokkur sá ástæðu til að eiga við líkamsvöxt stúlkunnar, sem snýr baki í myndavélina, í fyrsta lagi – þar sem ekkert er athugavert við vöxt hennar frá náttúrunnar hendi. 

Snjall Facebook notandi brást við með því að breyta myndinni til betri vegar eins og sjá má hér að  neðan og hefur rasskinn stúlkunnar verið lagfærð, en þegar myndirnar eru settar upp hlið við hlið verða hryllileg mistökin enn ljósari en áður:

12108845_960612943996343_4492552448791919092_n

Lesa má athugasemdirnar á Facebook og skoða frummyndina hér, en stóru spurningunni er þó enn ósvarað:

Hvenær hættir hátískuheimurinn að afbaka heilbrigða líkama kvenna á myndum?

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!