KVENNABLAÐIÐ

Pistill um pistla: „Mitt mottó er að maður verði að hafa húmor fyrir sjálfum sér“

Ég hef oft sest niður við tölvuna og ætlað að skrifa pistil um pistla. En einhvern veginn hefur mér alltaf tekist að klúðra því.

Ástæðurnar fyrir því að ég skrifa pistla eru margar og flóknar. Mér finnst gott að hugsa og spekúlera í málunum, sama hvað nafni þau nefnast. Mér finnst þægilegt að koma hugsunum mínum niður á blað og er þá í betri aðstöðu til að greina sjálfa mig og hugsanir mínar.

Allir pistlarnir mínir hafa verið skrifaðir fyrir sjálfa mig. Ég kynnist sjálfri mér betur og betur með hverjum pistli og oft á tíðum taka þeir aðra stefnu en ég upphaflega ætlaði þeim. Það er vegna þess að ég hugsa ekki í beinni línu, heldur í flækju. Þetta er mín leið til að átta mig á sjálfri mér og lífinu.

Ég veit að oft á tíðum virðist ég vera með einhvern predikunartón, en hann er handa sjálfri mér. Stundum virðast fingur mínir á lyklaborðinu vera skynsamari og vitrari en ég og hafa þörf fyrir að minna mig á hitt og þetta.

Pistlarnir mínir eru ósjaldan spark í afturendann, á mér.

En stundum renn ég úr háfleygna gírnum og segi klaufasögur af sjálfri mér.

Það er mottó hjá mér að maður verði að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Annars er hætta á því að maður verði gamall og bitur fyrir aldur fram og annað fólk nær taki á manni. Það er einnig auðveldara að baknaga fólk sem hefur ekki húmor fyrir sjálfu sér en lætur allt flakka á kostnað annara. Ég vil ekki vera sú persóna.

Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þennan pistil er sú að ég þurfti á því að halda að grafast fyrir um það hvers vegna ég skrifa yfir höfuð. Nú veit ég það.

Ég skrifa til þess að ég geti skilið hraðar hugsanir mínar, heiminn og lífið. Þar sem ég hugsa í myndum er það stundum svolítið erfitt ef maður hefur þetta ekki svart á hvítu fyrir framan sig.

Það er þægileg tilfinning að koma hugsunum sínum á blað og það ættu allir að prófa, bara fyrir sjálfa sig. Skrifa dagbók, opna blogg eða hreinlega fara út í smásagna- eða ljóðaskrif. Skiptir ekki nokkru máli hvort einhver sér þetta eða ekki.

Það er öllum hollt að koma frá sér tilfinningum, hugsunum, hugmyndum….

en það þarf ekkert að sýna öðrum nema maður kjósi það sjálfur…

prófaðu…kannaðu sjálfa þig…

Gáðu hvort þú kynnist ekki annari hlið á sjálfri þér ef þú leyfir fingrunum bara að ráða ferðinni.

Ekki ákveða neitt fyrirfram, það geta komið ótrúlegustu hlutir í ljós.

Opnaðu stílabók eða Word skjal núna og byrjaðu að skapa!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!