KVENNABLAÐIÐ

S T J Ö R N U M E R K I N: Börn í Tvíburamerkinu (21 maí til 20 júní)

Börn fædd undir stjörnu Tvíburans eru heillandi hrekkjalómar, kvik á fæti og hnyttin í tilsvörum. Litlu Tvíburararnir eru þróttmiklir og þrífast best í skapandi umhverfi þar sem þau geta svalað meðfæddri forvitni sinni fyrir eðli heimsins og geta borið upp spurningar að vild.

Tvíburabörnin þekkjast á lærdómsþorsta, áhuga á lífinu og tilverunni og feimnislausri nálgun sinni. Það er engu líkara en að litlu Tvíburarnir hefji sannleiksleit sína strax í vöggu. Þeim finnst fjölbreytileiki veraldarinnar heillandi og þau eru með spurningar á reiðum höndum sem þau bera upp við hvert tækifæri. Ekkert er litlu Tvíburabörnunum óviðkomandi. Auðvitað getur stundum verið erfitt að finna svör við öllu eftir langan og strangan vinnudag en einmitt undir þeim kringumstæðum getur verið sniðugt að hvetja Tvíburabarnið til að velta mögulegum svörum fyrir sér sjálft. Það versta sem getur hent litla Tvíburann er að lenda á vegg í samræðum; að upplifa stífni í tilsvörum og mega ekki skeggræða eðli og tilgang lífsins.

Litli Tvíburinn þrífst best í kringum sæg bóka, í tónlistarnámi, gegnum reglubundna tómstundaiðkun, íþróttaþjálfun og jafnvel náttúruskoðun. Litli Tvíburinn er allt eins líklegur til að prófa margar gerðir tómstundaiðkunar og iðka jafnvel tvær íþróttagreinar samtímis. Það er allt í lagi; Tvíburabarnið er forvitið og orkumikið og þarf að fá að prófa sig áfram.

Litli Tvíburinn drekkur í sig þekkinguna sem hann finnur í umhverfi sínu hvert sem leiðir hans liggja og því ættu foreldrar að hvetja litla Tvíburann áfram til góðra verka; bókalestur er börnum hollur og hressandi rökræður um eðli og upphaf heimsins geta verið stórskemmtilegar. Með því að örva litla Tvíburann til að hugsa sjálfstætt, eru foreldrar og nánasta fjölskylda því ekki bara að næra huga litla Tvíburans, heldur einnig að hlúa að síleitandi sálu litla Tvíburans, sem ólmur vill skoða og kanna veröldina.

Litli Tvíburinn er fjölhæfur og leitandi í eðli sínu; einn daginn gæti Tvíburabarnið jafnvel skráð sig í leiklistarklúbbinn og sýnt gífurlegan áhuga á að taka þátt í jólaleikritinu það árið. Að viku liðinni hefur litli Tvíburinn skipt um skoðun; nú skal tekist á við skáknámið og manngangurinn lærður í þaula. Þessi skyndilegu umskipti stafa af meðfæddum fróðleiksþorsta litla Tvíburans, en ekki óákveðni og tvítstígandahætti. Tvíburum er fjölhæfnin einfaldlega í blóð borin og einn daginn leiðir litli Tvíburinn öll börnin í hverfinu til sigurs – en næsta dag hefur litli Tvíburinn grafið sig djúpt ofan í lestur bóka og starir jafnvel hugfanginn ofan í smásjánna. Veröldin er stór og heillandi og það er einfaldlega mikið að sjá og skoða.

Í hlut foreldra kemur því að hjálpa litla Tvíburanum að virkja gífurlega orku sína til skapandi verka; að hjálpa litla Tvíburanum að finna óseðjandi sannleiksþorsta sínum uppbyggilegan farveg. Það er allt í lagi fyrir litla Tvíburann að þreifa á fjölbreytilegum áhugamálum, svo framarlega sem þeir ná að virkja orku sína og sinna heimaverkefnum í skóla og öðrum daglegum skyldum samhliða ævintýrum hversdagsins.

Litli Tvíburinn býr yfir meðfæddum leiklistarhæfileikum og getur verið afar heillandi og skemmtilegur í framkomu og nálgun. Frjótt ímyndunarafl, ómældir persónutöfrar og leiftrandi kímnigáfa einkennir litlu Tvíburabörnin og það er á stundum ógerlegt að falla ekki fyrir hrífandi persónuleika þeirra. Litlu Tvíburarnir eru oft mælskir, miklir sögumenn og búa yfir talsverðum orðaforða ef tekið er mið af jafnöldrum þeirra. Foreldrar Tvíburabarna þurfa oft að kenna börnum sínum að hafa hemil á orðalfaumnum; ekki er alltaf viðeigandi að skella upp úr og brandarar eru best geymdir utan kennslustofunnar, svo einhver dæmi séu tekin. Allir þurfa að fá rými til að komast að og í samræðum skiptist fólk á að tala.

Litli Tvíburinn er fjölhæfur og félagslyndur, en hann er líka óþolinmóður og kvikur. Þannig getur litla Tvíbranum leiðst að skríða í frumbernsku, en reynir þess í stað að standa beint í fætur og storma af stað út í hina stóru veröld. Þegar litli Tvíburinn fer að hafa vit á samskiptum þarf hann því að læra ákveðna þolinmæði í leik við önnur börn og arf einnig að læra að ekki allir fara jafn hratt og hann sjálfur. Það sem litla Tvíburanum er mikilvægast að læra er virk hlustun, að byggja upp þolinmæði til leyfa öðrum að svara og bregðast við á eigin hraða, þó hægar fari.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!