KVENNABLAÐIÐ

6 góð ráð fyrir verslunarferðina

Nú þegar borgarferðir haustsins nálgast ófluga getur verið gott að skipuleggja verslunarleiðangurinn aðeins til að fá sem mest út úr ferðinni.

1. Taktu til í fataskápnum!

Þó svo að ég eigi yfirfullan fataskáp stend ég mig oft að því að fara í sömu fötin aftur og aftur á meðan stærsti hluti fatanna hvílir í dvala í hinum ýmsu skúmaskotum skápsins. Samt sem áður er ég treg við að henda þeim eða gefa þar sem mögulega einhvern tímann gæti þessi annars „ónæthæfi“ fatnaður verið nákvæmlega það sem vantar til að fullkomna lúkkið! Hér þarf raunveruleikatékk. Ef ég er ekki búin að nota flíkina frá síðustu skápayfirhalningu, þá út með hana! Það er gaman að gera pláss fyrir fallega nýja hluti og gefa hinum gömlu nýtt líf á öðrum heimilum.

Fullt af fötum, ekkert til að fara í!
Fullt af fötum, ekkert til að fara í!

2. Gerðu lista yfir hluti sem þig vantar

Þar sem hausttískan er að detta í verslanir er ótrúlega margt sem gleður augað og heillar. Milljón og einn hlutur er velkominn í fataskápinn minn en aðeins færri, því miður, komast inn í hina sérlega ströngu og kílóheftandi farangursheimild. Þetta er kannski ferlega praktískur og ósexý hlutur að gera en hefur reynst mér vel. Með þessu móti get ég gert smá lista til að styðjast við svo að ég kolfalli ekki fyrir dásamlega fyrirferðamiklum mörgæsarflísgalla og sumarkjólum með takmarkað notagildi þegar mig raunverulega vantar nýjar ræktarbuxur og hlýja vinnupeysu.

3. Skoðaðu úrvalið á netinu og gerðu verðsamanburð

Það getur sparað manni ótrúlegan tíma að vera búin að kynna sér úrvalið á netinu fyrirfram. Ég skoða yfirleitt hvar ég get fengið ódýrustu basic flíkurnar, hvar ódýrustu merkjavörurnar eru og fæ tilfinningu fyrir því hvaða verslanir mig langar að skoða betur.

online shopping

 

4.Finndu staðsetningar verslana fyrirfram

Með því að vera búin að skoða úrvalið í netverslunum leita ég að staðsetningu þeirra verslana sem mér lýst vel á. Því næst get ég sirkað út hvaða verslunarmiðstöð eða verslunargata hefur flestar þessarra verslana og get sett stefnuna þangað.

Westfield London er til dæmis ein af mínum uppáhalds verslunarmiðstöðvum.
Westfield London er til dæmis ein af mínum uppáhalds verslunarmiðstöðvum.

5. Pantaðu á netinu og láttu senda á hótelið

Það getur verið mjög svekkjandi að vera búin að finna draumaflíkina og verslunin er síðan ekki á áfangastaðnum. Þá er hægt að grípa til þess ráðs að versla flíkina í vefversluninni og láta senda pakkann á hótelið sem gist er á. Þannig sparar maður sér alla vega sendarkostnaðinn yfir hafið og öll þau gjöld sem slíkum innflutningi fylgir.

6. Mundu að njóta borgarinnar!

Þessi ráð eru að mörgu leyti alltof praktísk vegna þess það sem er svo heillandi við svona verslunarferðir er einmitt að ráfa um, uppgötva litlar og sætar hönnunarbúðir og njóta þess að vera í öðru landi og annarri menningu. En mögulega geta þau hjálpað þeim sem virkilega „þurfa“ að versla fyrir veturinn og gætu þannig haft meiri tíma til að borða, sjá og njóta hvers augnabliks sem ný og spennandi borg hefur uppá að bjóða.

Elsku New York...
Elsku New York…

Ég veit alla vega að ég ætla að reyna að fara eftir mínum eigin uppástungum svo að mínir örfáu dagar í Miami í október verði að meirihluta varið á ströndinni og með fjölskyldunni en ekki í niðurkældum mollum.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!