KVENNABLAÐIÐ

Wes Craven (76) er látinn eftir stranga baráttu við krabbamein í heila

Ókrýndur konungur hryllings og martraða, Wes Craven, er látinn eftir stranga baráttu við krabbamein í heila. Wes var 76 ára að aldri þegar hann lést í gær, sunnudaginn 30 ágúst, en hann leikstýrði meðal annars hrollvekjunum Nightmare on Elm Street, The Hills Have Eyes og Scream.

Líf Craven var ekki dans á rósum, en hann hóf störf í kvikmyndabransanum eftir skammvinnan feril sem ensku- og hugvísindakennari á háskólastigi. Fyrsta starf Craven var sem hljóðmaður, en hann þreytti frumraun sína sem leikstjóri með útgáfu nauðgunar-hryllingsmyndarinnar The Last House on the Left, sem út kom árið 1972. Myndin, sem sló algerlega í gegn í kvikmyndahúsum, fékk afar harða útreið meðal gagnrýnenda og þótti það umdeild að Craven var gert ókleift að tryggja sér fjármagn til gerð annarrar kvikmyndar um nokkurra ára skeið.

Þó þröngt væri í búi hjá Craven, sem síðar varð meistari hryllingsmynda, snaraði hann upp mánaðarhýrunni með störfum í klámiðnaðinum, ýmist undir dulnefni eða sem óþekktur starfsmaður á setti og átti þar á meðal leik í einni þekktustu klámmynd allra tíma, Deep Throat, en ekki var um nektarsenu að ræða.

Það var svo árið 1975 sem Craven leikstýrði kvikmyndinni The Fireworks Woman undir dulefninu Abe Snake að hann fékk loks viðurkenningu á störfum sínum. Hjólin tóku svo að snúast fyrir alvöru þegar klassíska hrollvekjan The Hills Have Eyes kom út árið 1977, en Craven skrifaði sjálfur handritið að myndinni.

wes-cravens-new-nightmare-promo-17

Stóra tækifærið kom svo árið 1984, þegar Craven vakti Freddy Kruger til lífs og gerði ódauðlegan í hrollvekjunni Nightmare on Elm Street, en í kvikmyndinni ferðast hinn viðurstyggilegi Kruger gegnum martraðir barna og gerði garðinn frægan á einni nóttu. Nightmare on Elm Street gerði Craven loks hátt undir höfði sem leikstjóra á heimsmælikvarða og komu út nokkrar framhaldsmyndir sem spönnuðu hryllingsverk Kruger, ásamt sjónvarpsþáttum, myndbandsleikjum og teiknimyndaseríum.

Craven hélt áfram störfum sem handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi í kjölfar Nightmare on Elm Street og þannig kom hann klassísku hrollvekjunni Scream á kortið árið 1996, en kvikmyndin sem fæddi af sér einar þrjár sjálfstæðar framhaldsmyndir, rakaði inn yfir 100 milljónum dollara í kassann, með þeim afleiðingum að ungmenni kjósa enn að klæðast sem Ghostface á Hrekkjavökunni hvert ár.

o-SCREAM-5-facebook

Craven hafði kímnigáfuna í lagi og sagði þannig við blaðamann Rolling Stones, þegar viðtal bar upp við meistarann um skelfilegustu senur Nightmare on Elm Street að hann vonaðist í einlægni til að sá sem gengi frá grafskrift hans hefði húmor að leiðarljósi:

Ef sá hinn sami hefur einhvern húmor yfir höfuð vona ég að þar muni standa ritað; Hér hvílir maðurinn sem færði veröldinni Freddy Kruger. – Þó auðvitað myndi ég helst kjósa sjálfur að þar stæði; Hvað sem þú gerir, ekki sofna. Í hvert sinn sem menning okkar sofnar, fara vandræðin af stað.

Mikill meistari hefur kvatt – hér má sjá eftirminnileg brot af voðaverkum Freddie Kruger: 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!